24.05.2024
Brautskráðir voru 128 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sex námsbrautum. Flestir útskrifuðust af opinni braut eða 69 nemendur, 24 af náttúrufræðibraut, 6 af félagsfræðabraut, 3 af málabraut, 5 af listdansbraut og 21 nemandi af IB-braut. Alls voru 18 nemendur brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Gabríela Albertsdóttir, stúdent af náttúrufræðibraut, með 9,76 í meðaleinkunn. Gabríela hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í stærðfræði frá Íslenska stærðfræðafélaginu.
Semidúx var Ollie Birki Sánchez-Brunete sem útskrifaðist af opinni braut með áherslu á myndlist og sálfræði með 9,59 í meðaleinkunn. Ollie Birki hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku og myndlist.
17.05.2024
Upplýsingar um hvar kennarar eru á staðfestingardegi og í prófsýningu má finna hér á heimasíðunni.
14.05.2024
Útskrifaðist þú frá MH? Það er gaman að segja frá því að margar útskriftarmyndir frá árinu 1973 til dagsins í dag eru komnar á heimasíðuna. Ekki er búið að klára verkefnið en þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega.
14.05.2024
Í dag, þriðjudag, er síðasti prófdagur skv. próftöflunni og eru það sálfræði og danska sem eiga síðasta orðið. Á morgun og fimmtudaginn eru nokkrir að taka sjúkrapróf og þá er ekkert annað eftir en að bíða eftir einkunnum. Ef einhverjar einkunnir sjást í Innu, fyrir próf sem tekin voru á prófatíma þá teljast þær vinnueinkunnir og geta breyst. Einkunn telst ekki fullkomin fyrr en við höfum tilkynnt að svo sé. Áætlað er að einkunnir birtist eftir kl. 16:00 föstudaginn 18. maí. Gangi ykkur vel á lokametrunum.
26.04.2024
Lokaprófin hefjast mánudaginn 29. apríl skv. próftöflu. Nemendur sjá sína eigin próftöflu í Innu og þar kemur líka fram klukkan hvað prófin byrja. Nemendur sem hafa sótt um að breyta prófi þurfa að athuga að próftaflan í Innu hefur ekki breyst og allar upplýsingar um breyttan próftíma er í tölvupósti til hvers og eins frá prófstjóra. Passið vel upp á að skoða þetta vel svo þið missið ekki af prófi. Allir nemendur fengu tölvupóst frá prófstjóra og námsráðgjöfum þar sem farið er yfir helstu atriði varðandi próftökur í MH. Þar er einnig hlekkur á staðsetningu prófa sem einnig verður sett á upplýsingaskjáina í skólanum. Gangi ykkur sem best og munið að huga vel að hreyfingu, næringu og svefni á meðan á prófatímabili stendur.
24.04.2024
Í kvöld, síðasta vetrardag, héldu nemendur á fjölnámsbraut í MH, stórglæsilega hæfileikakeppni fyrir starfsbrautir framhaldsskólanna. MH vann keppnina 2023 og var því gestgjafinn í ár. 8 skólar voru með atriði sem voru af ýmsum toga og sýndu nemendur mikla og fjölbreytta hæfileika. Einvalalið var í dómnefnd og fóru leikar þannig að Fjölbrautaskólinn í Garðabæ sigraði, MH varð í öðru sæti og Flensborgarskólinn í Hafnarfirði í því þriðja. Við óskum öllum sem tóku þátt innilega til hamingju og takk fyrir glæsilegt kvöld. Gaman að enda veturinn á þennan hátt. Gleðilegt sumar.
22.04.2024
Starfsfólk og nemendur fóru út í góða veðrið í hádeginu í dag og tíndu rusl af lóð skólans. MH hefur tekið þátt í Stóra plokkdeginum undanfarin ár en það er liður í aðgerðum fræðsluáætlunar í umhverfismálum. Vorveðrið lagðist á sveif með duglegum MH-ingum og sá til þess að öll gátum við notið útiverunnar og unnið þarft verk í leiðinni.
21.04.2024
Nemendur á fyrra árinu í IB fóru á Þingvelli með kennurum sínum í efnafræði, eðlisfræði og líffræði og unnu þverfaglegt verkefni á fallegum degi í fallegri náttúru.
Í ferðinni voru nemendur að velta fyrir sér loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á vistkerfi Þingvalla. T.d. voru þau að skoða lífríkis Þingvallavatns, mengun á svæðinu, ferðaþjónustu í héraðinu, jarðvarmavirkjunar í kringum svæðið, náttúrvernd og ýmislegt fleira. Verkefnið kallast CSP (Collaborative sciense project) og munu nemendur kynna niðurstöður sínar á Miðgarði 23. apríl milli 16:00 og 17:00. Markmiðið er að allir nemendur árgangsins vinni saman að því að skoða "Global issue in local context". Markmið skv. fyrirmælum IB er að hafa ALLA nemendur árgangsins að vinna saman til að skoða "Global issue in local context". Nemendur áttu að velja sér rannsóknarspurningu í þessu samhengi og vinna saman í litlum hópum.
18.04.2024
Í hádeginu 18. apríl var myndbandið „Samþykki, mörk og náin samskipti“ sýnt nemendum og starfsfólki skólans. Höfundar myndbandsins eru Sólborg Guðbrandsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson. Viðburðinum var stjórnað af nemendum og ávarp fluttu Urður Bartels nemandi og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra. Auk þeirra komu fram jafnréttisfulltrúi skólans og fulltrúar feminstafélags NFMH, Emblu. Myndbandið fjallar um samþykki, mörk og náin samskipti nemenda í framhaldsskólum. Efnið er í samtalsformi og út frá reynsluheimi og orðfæri nemendanna og var því vel tekið af MH-ingum.
16.04.2024
Við getum ekki hætt að tala um söngleikinn okkar, Söngvaseið. María Hjörvar og Sara Gunnlaugsdóttir, oddvitar leikfélagsins mættu í bítið í morgun og sögðu frá söngleiknum sem er að gera allt vitlaust þessa dagana. Nú þegar hefur verið uppselt á 3 fyrstu sýningarnar og er að seljast upp á þá fjórðu sem er á fimmtudaginn. Sýningin er alveg stórkostleg upplifun og ótrúlegir hæfileikar sem eru þarna á ferð.