Akademísk heilindi

Stefna MH varðandi akademísk heilindi

Markmið Menntaskólans við Hamrahlíð er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Heiðarleiki, ábyrgðartilfinning og góð vinnubrögð eru mikils metin og því ber skólanum að hvetja til akademískra heilinda í öllu starfi sínu.

Í hugtakinu akademísk heilindi felst ekki aðeins að virtar séu reglur um verkefna- og prófavinnu og viðurlög við brotum á þeim, heldur einnig að efla siðferðiskennd og siðferðisþroska nemenda og alls skólasamfélagsins. Til að ná því markmiði þurfa stjórnendur, kennarar, nemendur og forsjáraðilar nemenda að leggjast á eitt.

Akademísk heilindi fela í sér:

 • Að skila eigin efni, bæði í einstaklingsvinnu og hópvinnu.
 • Að skýra frá hvaðan þekkingin er fengin með því að gera grein fyrir öllum heimildum, hvort sem er frá fyrstu, annarri eða þriðju hendi og hvort sem heimildir eru skriflegar, munnlegar, í mynd eða hljóðskrá.
 • Að vitna jafnt og þétt í heimildir á viðurkenndan hátt og gera heimildaskrá eftir viðurkenndum akademískum staðli.
 • Að nýta sér upplýsingatækni og samfélagsmiðla á ábyrgan hátt.
 • Að virða góða starfshætti í prófum: Nemendur skulu ekki taka með sér óleyfilegt efni í próf og hvorki tala við né trufla aðra nemendur í prófi. Kennarar skulu sitja yfir í prófum af ábyrgð. Þeir mega hvorki leyfa nemendum að vera lengur í prófi né hjálpa þeim. Stjórnendur skulu sjá til þess að farið sé að reglum skólans um próf.

Hvað telst akademískt misferli?

Andstæðan við akademísk heilindi er akademískt misferli. Í því felst hegðun sem leiðir til þess að nemandi nær betri árangri en hann á skilið í einum eða fleiri þáttum sem metnir eru til einkunnar eða hann eyðileggur fyrir öðrum nemendum. Þá gildir einu hvort ásetningur liggur að baki eða ekki. Það að vita ekki að um akademískt misferli er að ræða afsakar ekki slíka hegðun.

 1. Ritstuldur: Að setja viljandi eða óviljandi fram hugmyndir, orð eða hugverk annarra án þess að vísa skilmerkilega til heimilda.
 2. Samsekt: Að ýta undir misferli annars nemanda, til dæmis með því að leyfa honum að afrita verkefni og skila sem sínu eigin.
 3. Fjölföldun: Að skila sama hugverki oftar en einu sinni, t.d. í tveimur eða fleiri ólíkum áföngum eða sem mismunandi námsþáttum.
 4. Að fara ekki eftir reglum í prófi, t.d. taka með sér óleyfilegt efni í próf, valda truflun eða hafa samskipti við annan próftaka.
 5. Ósæmilegt athæfi, svo sem að bæta óviðeigandi efni við skilaverkefni eða haga rannsóknarvinnu þannig að hún samræmist ekki góðum starfsháttum.

Önnur dæmi um akademískt misferli:

 • Að afrita efni frá öðrum nemanda eða leyfa öðrum að afrita efni frá sér.
 • Að ljúka verkefni fyrir annan nemanda.
 • Að skila inn verkefni sem unnið er af öðrum, t.d. nemanda, foreldri, vini eða einkakennara.
 • Að vísa ekki til heimilda, hvort sem það er viljandi gert eða ekki.
 • Að falsa gögn sem notuð eru í verkefni.
 • Að stela prófgögnum.
 • Að koma með óleyfilegt efni inn í próf, svo sem óleyfilegan hugbúnað í reiknivélum, snjallsíma, snjallúr, fartölvur eða spjöld, þráðlaus heyrnartól eða önnur raftæki.
 • Að trufla próf eða fara ekki eftir reglum í prófsal.
 • Að villa á sér heimildir og taka próf í stað annars nemanda.

Afleiðingar af akademísku misferli

Fyrsta brot í minni háttar verkefni (svo sem heimanámi, vinnu í tíma, í tilraunastofu, í smáum verkefnum og skyndiprófum):

 • Kennari gerir nemanda ljóst hversu alvarlegt mál er um að ræða og nemandi skýrir sína hlið.
 • Nemandi er minntur á reglur skólans um akademísk heilindi.
 • Ef nemandi telst sekur um akademískt misferli má gefa honum færi á að vinna aftur verkefnið sem um ræðir, eða ekki (kennari ákveður það).
 • Gefist nemanda ekki færi á að endurvinna verkefnið fær hann núll í einkunn fyrir það.
 • Kennari skráir atvikið og heldur til haga í gögnum sínum.
 • Nemanda eru gerðar ljósar afleiðingar þess að brjóta aftur gegn akademískum heilindum.

Fyrsta brot í mikilvægu verkefni [1] (svo sem prófum yfir önnina og lokaprófum, ritgerðum og verkefnum) EÐA annað brot í minni háttar verkefni:

 • Kennari lætur stjórnendur vita (rektor, konrektor eða annan stjórnanda sem við á) og leggur fram gögn sem benda til akademísks misferlis.
 • Rektor fundar með nemanda eða gefur nemanda tækifæri til að svara fyrir sig munnlega eða skriflega. Ef nemandi er yngri en 18 ára býðst forsjáraðila að vera viðstaddur komi til fundar.
 • Nemanda býðst að leggja fram skriflega yfirlýsingu til að svara ásökun um akademískt misferli.
 • Teljist nemandi sekur um akademískt misferli fær hann engar einingar fyrir áfangann og gæti verið vísað úr skólanum.
 • Hvert tilvik er skráð í INNU og aðeins stjórnendur hafa aðgang að því.

[1] Hvað telst mikilvægt verkefni er undir kennara komið en öll verkefni sem gilda 25% eða meira af annareinkunn má líta á sem mikilvæg.

Réttindi nemanda sem grunaður er um akademískt misferli

Nemanda sem grunaður er um akademískt misferli býðst að skýra mál sitt fyrir kennara og/eða stjórnanda.

Eigi nemandi á hættu að missa einingar fyrir áfanga eða vera vikið úr skóla á hann rétt á að hafa foreldri eða annan málsvara með sér á fund um málið. Áður en niðurstaða fæst skulu nemandi og forsjáraðilar hans eða málsvari fá að skoða öll gögn í málinu og leggja fram mótmæli eða eigin rök, í samræmi við 13. grein stjórnsýslulaga.

Hvernig er best að stuðla að akademískum heilindum og forðast akademískt misferli?

Ábyrgð nemenda

Nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð ástunda sjálfstæð vinnubrögð og skólinn ætlast til að þeir virði akademísk heilindi í öllu námi sínu, í kennslustundum og utan þeirra sem og í lokaprófum. Hér er átt við hvers kyns verkefni, munnleg og skrifleg, tilraunir og skýrslur um þær, ritgerðir, rannsóknarritgerðir, skapandi verkefni og heimavinnu. Þegar viðhöfð eru vönduð akademísk vinnubrögð er ávallt getið heimilda og vísað til þeirra í heimildaskrá sem unnin er á viðurkenndan hátt. Heimildir geta verið af ýmsu tagi, t.d. prentað efni, efni á neti eða upptaka, hvort sem er í hljóðskrá eða mynd. Það er á ábyrgð nemenda að kynna sér stefnu skólans um akademísk heilindi. Það er engin afsökun fyrir nemanda sem grunaður er um akademískt misferli að hafa ekki vitað betur.

Nemendur skulu einnig bregðast við ef þeir sjá merki um akademískt misferli annarra nemenda eða óvönduð vinnubrögð af skólans hálfu og láta kennara og/eða rektor vita.

Hvernig geta nemendur varast akademískt misferli?

Með því að:

 • Kynna sér stefnu skólans varðandi akademísk heilindi og akademískt misferli.
 • Leggja sig fram um að ljúka verkefnum á eigin spýtur.
 • Afhenda ekki öðrum nemanda verkefni sín.
 • Afrita ekki verkefni frá öðrum nemanda.
 • Forðast að fá of mikla hjálp við verkefnaskil eða yfirlestur, svo sem frá vinum, ættingjum, samnemendum, í einkatímum, frá ritgerðabönkum eða aðilum sem bjóða prófarkalestur, eða nýta gögn af deilisíðum á netinu.
 • Varast að hjálpa samnemendum sínum of mikið við að ljúka verkefnum.
 • Geta alltaf heimilda, hvaðan sem þær eru fengnar (á prenti, af neti eða annars staðar).
 • Segja alltaf frá heimildum í munnlegum kynningum.
 • Láta ekki meta sama verk oftar en einu sinni til einkunnar.
 • Læra hvernig á að vísa til heimilda á réttan hátt og gera heimildaskrá.
 • Spyrja kennara eða bókasafns- og upplýsingafræðing um vafaatriði.
 • Skila verkefni í gegnum Turnitin-kerfið.
 • Nýta netið og samfélagsmiðla á ábyrgan hátt.
 • Láta kennara eða rektor vita af akademísku misferli nemanda, kennara eða af hálfu skólans.

Turnitin-kerfið

Skólinn hefur nú aðgang að Turnitin-kerfinu sem kemur upp um ritstuld og eru bæði kennarar og nemendur hvattir til að nota það þegar við á. Kennarar geta krafist þess að verkefnum sé skilað gegnum Turnitin og það sé skilyrði þess að farið sé yfir verkefni og þeim gefin einkunn.

Skyldur skólans

Skólinn ber ábyrgð á því að nemendum sé leiðbeint um hvað felst í akademískum heilindum og þeir hljóti þjálfun í réttri meðferð heimilda. Þessi leiðsögn fer fram í ýmsum námsgreinum og á ýmsum stigum námsins: Í byrjendaáföngum svo sem lífsleikni, í kennslustundum í hverri grein fyrir sig þegar kynnt eru mikilvæg skilaverkefni, á bókasafni með hjálp bókasafns- og upplýsingafræðinga og í viðtölum nemenda við umsjónarkennara.

Skólinn skal einnig gera stefnu sína um akademísk heilindi aðgengilega nemendum, foreldrum, forsjáraðilum og kennurum á heimasíðu skólans.

Það er enn fremur á ábyrgð skólans að tryggja það að kennarar hljóti þjálfun í að nota þá tækni sem talin er stuðla að góðum vinnubrögðum og akademískum heilindum.

Ábyrgð foreldra og forsjáraðila

Foreldrar og forsjáraðilar skulu tryggja nemendum gott námsumhverfi heima við og hvetja börn sín til að viðhafa sjálfstæð og ábyrg vinnubrögð. En það er einnig ætlast til að nemendum sé leyft að gera mistök. Foreldrar og forsjáraðilar ættu því ekki að skrifa eða endurskrifa verkefni nemenda.

Önnur atriði

Nemendum MH er kynnt stefna skólans um akademísk heilindi í lífsleikniáfanga í upphafi námsferils síns. Í efri áföngum er aftur vísað til þessarar stefnu og ávallt þegar meiri háttar verkefni eru lögð fyrir nemendur.

Endurskoðun á stefnu skólans um akademísk heilindi

Endurskoða ætti stefnu skólans um akademísk heilindi reglulega, að minnsta kosti á fimm ára fresti.

Breytingar á stefnunni skulu samþykktar af stjórnendum og kennurum skólans.

 

(Byggt á handbók IB)

Síðast uppfært: 24. október 2023