Almennar skólareglur

Innan vébanda skólans gilda landslög sem skólareglur án þess að þeirra sé sérstaklega getið. 
Sýna ber háttvísi og prúðmennsku í skólanum og alls staðar þar sem komið er fram í nafni hans.

Umgengni

 • Ganga skal vel um muni, hús og lóð skólans. Húsgögn má ekki flytja til án leyfis umsjónarmanna. Enginn má skilja eftir sig rusl, hvorki innan dyra né utan.
 • Í frímínútum og töflugötum eiga allir nemendur að hafa jafnan rétt til aðgangs að sætum á bókasafni, Miðgarði, Matgarði og í Norðurkjallara.
 • Í kennslustofum, á bókasafni og við tölvur má hvorki neyta matar né drykkjar.
 • Gæta skal þess að leggja bifreiðum þannig að ekki hindri umferð og vörumóttöku. Virða skal sérmerkt stæði fatlaðra við suðurhlið og önnur stæði þar sem ætluð eru starfsfólki.
 • Reykingar, önnur tóbaksnotkun og notkun rafretta er óheimil í skólanum og á lóð hans.

Kennslustundir

 • Í kennslustundum skulu nemendur vera vakandi, virða verkstjórn kennara og gæta þess að valda ekki ónæði.
 • Notkun farsíma er óheimil.

Tölvunotkun

 • Tölvur skólans má aðeins nota við vinnu sem tengist skólastarfinu.
 • Óheimilt er að lána notendanafn eða að fá slíkt að láni.
 • Nánari reglur um tölvunotkun og umgengni við tölvur eru auglýstar í upphafi annar.
 • Sérstök athygli er vakin á höfundarétti efnis sem birst hefur á Netinu eða í öðrum ritsmíðum.

Verkefnaskil

 • Verkefnum ber að skila innan tilskilins frests og vinna samkvæmt fyrirmælum sem um þau gilda.
 • Sé verkefni að hluta til fengið að láni eða unnið með hjálp annarra ber að geta þess sérstaklega og auðkenna skv. viðteknum reglum um heimildanotkun.

Vímugjafar

 • Í skólanum og á samkomum hans er óheimilt að hafa um hönd áfengi eða önnur vímuvaldandi efni eða að vera undir áhrifum þeirra.
 • Ákvæði þetta nær einnig til námsferða á vegum skólans.

Útgáfa og dreifing á rituðu efni

 • Nemendafélag MH hefur leyfi til almennrar dreifingar í skólanum á blöðum sem það gefur sjálft út. Öðru rituðu efni er óheimilt að dreifa nema með sérstöku leyfi stjórnenda. Höfundar efnis, ritstjórar og stjórn NFMH bera ábyrgð á því að útgefið efni á vegum NFMH fari ekki í bága við lög, höggvi ekki nærri nafngreindu fólki og geti talist samboðið opinberri menntastofnun. Þeir sem brjóta gegn reglum þessum sæta viðurlögum eftir því hve alvarlegt brotið er (sbr. upphaf næstu greinar), auk þess sem dreifing kann að verða stöðvuð.

Viðurlög

 • Brjóti nemandi reglur skólans ber að veita honum/henni munnlega ábendingu eða áminningu, við alvarlegri brot kemur til skrifleg áminning frá rektor og við ítrekað eða mjög gróft brot er nemanda vísað úr skóla. Ennfremur gildir að nemanda sem raskar góðri reglu í kennslustund eða annars staðar kann að vera vísað úr kennslustund eða öðrum þeim stað sem atvikið á sér stað.
 • Nemandi sem hefur rangt við í prófi, ritgerð eða öðru verkefni sem gildir til lokaeinkunnar telst fallinn í þeim áfanga.
 • Ef nemandi vanrækir stórkostlega nám í einstökum áfanga er heimilt að vísa honum/henni úr þeim áfanga að undangenginni aðvörun.
 • Þá skal þess getið að bifreiðar sem lagt er ólöglega við skólann kunna að verða fjarlægðar á kostnað umráðamanna.

Vanþekking á reglum leysir nemanda ekki undan ábyrgð.

Síðast uppfært: 20. mars 2019