01.11.2021
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og nýstofnaður kór útskrifaðra menntaskólanema flutti kórverk í Háteigskirkju síðastliðinn sunnudag. Kórstjórinn Hreiðar Ingi Þorsteinsson leiddi kórana og getur hann verið stoltur af sínu fólki og flutningi þeirra á verkum tónskáldanna. Flumflutt voru verkin "Fimm mislangar Míníatúrur" og verkið "Kvöldljóð". Miðað við fallegu tónana sem ómuðu í kirkjunni er framtíð tónlistar mjög björt á Íslandi.
01.11.2021
Nú hefur verið sett upp aðstaða til að skola einnota og margnota ílát. Aðstaðan er á Matgarði við annan innganginn að salernunum. Skolvaskurinn er til að geta skolað margnota ílát eða til að skola einnota ílát áður en þau eru sett í flokkunartunnu. Við skolvaskinn er sigti til að auðvelda það að sigta vökva frá matarleifum og setja svo matarleifarnar í lífrænan úrgang. Þetta er enn eitt skrefið í átt að betri flokkun sem við erum að stíga með þátttöku í grænum skrefum.
29.10.2021
Okkur í MH finnst ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Nú er langt liðið á seinni hluta haustannar 2021. Eitt af því sem þá þarf að huga að er próftaflan. Hún hefur nú verið birt nemendum í Innu og hér á heimasíðunni.
25.10.2021
Í MH fá nemendur hafragraut, grjónagraut og súpu í einnota umbúðum. Eftir áramótin munum við fara yfir í margnota umbúðir og leysast þá mörg flokkunarvandamálin. Í umhverfisvikunni, þar sem nemendur flokkuðu og flokkuðu og stóðu sig almennt mjög vel, kom í ljós að við þurfum að gera betur í flokkun einnota skála og þess sem eftir er í þeim. Því höfum við ákveðið að þangað til margnota skálar koma í hús hættum við að setja þessar skálar í pappírstunnuna og ætlum við að biðja alla um að setja þær og skeiðarnar á borð sem búið er að koma fyrir við báða enda Matgarðs og eitt á Miðgarði. Á borðunum eru lífrænir dallar þar sem tæma má afganga úr einnota skálunum og skilja svo skálarnar eftir á borðinu.
20.10.2021
Haustfrí verður í MH fimmtudaginn 21. október og föstudaginn 22. október. Kennsla hefst aftur mánudaginn 25. október.
Við óskum öllum góðs haustfrís.
01.10.2021
Í MH velja nemendur áfanga út frá brautarskipulagi og ráða sjálf hverju sinni, hvaða áfanga þau taka og í hvaða röð. Í dag var opnað fyrir valið fyrir vorönn 2022 og hafa nemendur til og með 11. október til að ganga frá því. Það fer eftir niðurstöðum valsins hvaða áfangar verða endanlega í boði á vorönn. Nemendur geta kynnt sér áfangaframboðið á heimasíðunni þar sem hægt er að skoða lista með öllum áföngum sem boðið er uppá og einnig glærur sem sýna hvaða valáfangar eru í boði. Við hvetjum alla nemendur til að skoða þetta vel og leita sér aðstoðar, ef þeir þurfa, hjá umsjónarkennurum, námstjórum, áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjöfum.