Skólinn

Menntaskólinn við Hamrahlíð var stofnaður 1966 og voru fyrstu stúdentarnir brautskráðir 1970. Fyrstu árin starfaði skólinn samkvæmt bekkjakerfi en 1972 var áfangakerfið tekið upp en það var þá alger nýjung hér á landi. Sama ár hófst kennsla í öldungadeild, hinni fyrstu í íslenskum framhaldsskóla. 
Skólinn var lengi vel skilgreindur sem tilraunaskóli og fékk heimild til að fara ótroðnar slóðir á ýmsum sviðum. Má þar nefna stofnun félagsfræðabrautar og síðar tónlistarbrautar til stúdentsprófs, mikla fjölbreytni valáfanga og kennslu ýmissa námsgreina sem ekki voru fyrir í námskrá.
Hamrahlíðarkórinn, kór eldri nemenda, var stofnaður til hliðar við skólakórinn árið 1982 og er ekki ofsagt að kórarnir séu þjóðþekktir.

Skólinn hefur byggt upp ýmsa þjónustu við fatlaða nemendur og þróað námsefni og sérkennslu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta nemendur sem stefna á stúdentspróf.

Árið 1997 hóf skólinn undirbúning að kennslu til alþjóðlegs stúdentsprófs, International Baccalaureate Diploma, og voru hinir fyrstu úr því námi brautskráðir sumarið 2000.

Haustið 2011 var stofnuð sérnámsbraut (starfsbraut) við skólann og fyrstu nemendur með framhaldsskólapróf af sérnámsbraut útskrifaðir vorið 2015.

Nemendafjöldi í dagskóla hefur síðustu annir verið um 1150-1200. Kennarar og aðrir starfsmenn eru kringum 130.
Síðast uppfært: 18. maí 2017