Jafnlaunakerfi MH - jafnlaunavottun

Jafnlaunakerfi MH uppfyllir kröfur jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 og hlaut vottun 5. júní 2020. Hér má sjá vottunarskírteini MH frá vottunarstofunni iCert. MH er opinber stofnun og hlítir lögum nr. 56/2017 sem og reglugerð nr. 1030/2017 (með síðari breytingum) um jafnlaunavottun.

Jafnlaunakerfið var í smíðum frá því snemma árs 2019 þegar stýrihópur um jafnlaunakerfi var skipaður. Í honum sitja Helga Jóhannsdóttir, konrektor og formaður hópsins, Signý Marta Böðvarsdóttir fjármálastjóri og Halldóra S. Sigurðardóttir skjalastjóri. Steinn Jóhannsson rektor fylgdist með starfi hópsins og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, var hópnum til aðstoðar og ráðgjafar.

Jafnlaunakerfi MH nær til allra starfsmanna MH. Meginmarkmið þess er að tryggja að starfsfólk óháð kyni njóti sömu launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Kerfið inniheldur stefnuskjöl, verklagsreglur, gátlista og form (eyðublöð). Öll skjöl bera númer sem vísa til númera greina jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.

Jafnlaunakerfið hefur verið skjalfest og þannig hefur umgjörð verið sköpuð til að viðhalda því, tryggja stöðugar umbætur, eftirlit og viðbrögð.

Meginstoðir jafnlaunakerfisins eru fimm:

Jafnlaunastefna

Skipulagning

Innleiðing og starfræksla

Gátun

Rýni stjórnenda

Vottun kerfisins er til þriggja ára í senn en vottunaraðili mun fylgja vottun eftir með árlegum eftirlitsúttektum.

Vilji starfsfólk eða aðrir hagsmunaaðilar koma erindum í tengslum við jafnlaunakerfi MH á framfæri skulu þeir fylla út eftirfarandi eyðublað: Athugasemd vegna jafnlaunakerfis MH.

Síðast uppfært: 19. apríl 2021