Þróunarverkefni og erlent samstarf

Unnið er að nokkrum þróunarverkefnum í MH á hverju ári. Flest þeirra tengjast einstökum kennslugreinum og mörg eru unnin í samstarfi við erlenda aðila. Annars konar þróunarvinna fer einnig fram í skólastarfinu, bæði á kennslusviði, þjónustusviði og í stjórnsýslu skólans.

__________________________________

Þróunarverkefni og erlent samstarf sem hefst haustið 2025

Nordplus junior: „Geomorphological formations – impact of the past, present and future in Nordic countries“

Menntaskólinn við Hamrahlíð tekur þátt í Nordplus Junior þróunarverkefni í samstarfi við framhaldsskóla í Finnlandi á tímabilinu haust 2025 til vors 2027. Verkefnið felur í sér nemendaskipti og samstarf þar sem áhersla er lögð á jarðfræði, landslagsmótun, loftslagsbreytingar og sjálfbæra þróun í norrænu samhengi.

Verkefnið skiptist í fjórar vinnulotur þar sem nemendur og kennarar heimsækja hvort annað til skiptis. Í hverri lotu er sérstakt þema sem snýr að jarðfræðilegri þróun annars landsins, með áherslu á fortíð, nútíð og framtíð. Nemendur vinna í blönduðum hópum að þverfaglegum verkefnum þar sem tenging er við vísindi, samfélag og umhverfi.

Markmið verkefnisins er að styrkja þekkingu, gagnrýna hugsun, þvermenningarlega samvinnu og vitund um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Með því að skoða hvernig eldgos, jöklar, hreyfing jarðskorpunnar og veðurfar hafa mótað (og munu móta) norðurlöndin, öðlast nemendur dýpri skilning á því hvernig náttúran og samfélagið tengjast – í fortíð, nútíð og framtíð.

_____

Þróunarverkefni og erlent samstarf sem hófst veturinn 2022-2023

Nordplus junior: "Designing services for a greener future" er samstarfsverkefni milli MH og skóla í Svíþjóð, Lettlandi og Eistlandi. Verkefnið stendur fram í ágúst 2025. Tengiliðir MH eru annars vegar fjármála- og þjóðhagfræðikennari og hins vegar jarðfræðikennari.  Haustið 2022 hittust kennarar og nemendur samstarfsskólanna í Riga í Lettlandi og þar var viðfangsefnið "Green Education". Vorið 2023 hittust þeir í Kalmar í Svíþjóð og þar var viðfangsefnið "Green eCommerce" og haustið 2023 komu nemendur og kennarar frá samstarfsskólunum til Íslands og hér var viðfangsefnið "Green Ocean". Í apríl 2024 var haldinn fundur í Tartu í Eistlandi  og þar var viðfangsefnið "Green/Eco Farming".

___________________________________

Þróunarverkefni og erlent samstarf sem hófst veturinn 2020-2021

Erasmus+: "Sustainable lifestyle in digital environments" er þverfaglegt verkefni milli MH og skóla í Finnlandi, Rúmeníu, Tékklandi og á Ítalíu. Verkefnið hlaut styrk til tveggja ára. Tengiliðir MH eru annars vegar tungumálakennari og hins vegar raungreinakennari. Nemendur sem taka þátt í verkefninu eru á ólíkum brautum, bæði brautum til stúdentsprófs í MH og af IB-braut. Verkefnið var enn í gangi veturinn 2022-2023 og komu gestir í MH í annarri viku októbermánaðar 2022.

__________________________________

Framhaldsskólakennarinn á krossgötum - vorönn 2021

Menntavísindasvið HÍ bauð upp á fjarnámskeið fyrir kennara sem bar nafnið „Framhaldsskólakennarinn á krossgötum“. Námskeiðið hófst 25. janúar 2021. Tveir kennarar frá MH tóku þátt en hver skóli fékk 2-4 pláss á námskeiðinu. Ásdís Þórólfsdóttir úr spænsku og Hildur Ísberg úr íslensku voru fulltrúar MH. Horft var til þess að þátttakendur yrðu leiðtogar í sínum faggreinum og gætu miðlað efninu til samkennara að loknu námskeiði.

 

Enska: Developing Democratic Sustainability eða lýðræði og samfélagsþátttaka, er Erasmus verkefni sem enskukennararnir Íris Lilja Ragnardóttir, Eva Hallvarðsdóttir og Þórhalla Steinþórsdóttir eru að vinna að með 15 nemendum á fyrsta ári í framhaldsskóla. Verkefnið er unnið í samvinnu við þýskan skóla. Viðfangsefnið tengir saman ensku, lýðræði og umhverfismál. Verkefnið stendur yfir í tvö skólaár.

Þróunarverkefni og erlent samstarf sem hófst veturinn 2019-2020

Danska:  Unge i Nordatlanten er þróunarverkefni milli 6 dönskukennara í þremur menntaskólum; MH, GUX í Nuuk (Grænland) og Miðnám í Kambsdal, Fuglafirði (Færeyjar). Verkefnið er styrkt af NORDSPRÅK í formi ferðastyrks kennara milli landa. Þetta er tveggja ára samstarf sem byrjaði haustið 2019 og lýkur vorið 2021. Markmiðið er annars vegar að útbúa kennsluefni á dönsku í tengslum við sjálfsmynd nemenda og þau kynni sitt land með innsýn í þeirra eigin menningu. Hitt markmiðið er að mynda tengslanet milli landanna með áframhaldandi samvinnu í huga.

IB: Finnskir kennarar heimsóttu MH í janúar 2020. 

Erasmus+: Jafnrétti og samfélagsþátttaka í gegnum listir og margmiðlun er verkefni sem mun standa yfir í tvö ár, frá hausti 2019 fram á vor 2021. Þátttakendur í verkefninu eru frá sex löndum: Íslandi, Hollandi, Danmörku, Spáni, Ungverjalandi og Þýskalandi. Kennarar í verkefninu eru Hugrún Hólmgeirsdóttir, Karen Ástu- og Kristjánsdóttir og Ólafur Guðmundsson. Covid-19 hefur sett mark sitt á verkefnið frá árinu 2020. Ekki hefur verið unnt að fara í allar ferðir sem voru á dagskrá og gera hefur þurft breytingar á ýmsum liðum verkefnisins.

Þróunarverkefni og -vinna sem hófst skólaárið 2018-2019:

Þróunarverkefni í kennslugreinum:

Félagsfræði – Í framhaldsáfanga í afbrotafræði FÉLA3CA05 vinna nemendur tvö rannsóknarverkefni sem eru eins konar þróunarverkefni.
Kennari: Björn Bergsson.

Íslenska – Stöðvavinna í íslensku 3DD05. Þróuð er vinnuaðferð til að dýpka skilning nemenda á bókmenntaverkinu Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Kiljan Laxness.
Kennari: Guðlaug Guðmundsdóttir og fleiri íslenskukennarar.

Jarðfræði og líffræði – Alþjóðlegt verkefni um loftslagsmál.
Kennarar: Auður Ingimarsdóttir og Sigurkarl Stefánsson.

Leiklist – Verkefnið nefnist The Overwhelmed Generation - Family Developments in the Globalization Age og er samstarfsverkefni leiklistarkennara í 10 löndum: Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi, Litháen, Íslandi, Bandaríkjunum, Brasilíu, Taiwan, Togo og Uganda.

Verkefninu er stjórnað af Dr. Marion Küster professor við háskólann í Rostock í Þýskalandi í samstarfi við Young IDEA (Internatioal Drama and Education Association) og háskólann í Lomé í Togo.

Árið 2018 var ráðstefna og námskeið í Rostock í Þýskalandi þar sem kennarar sem taka þátt í verkefninu og nemendur þeirra hittust og unnu með aðferðir og markmið verkefnisins. Á næsta ári, 2020, verður ráðstefna og fjölskyldumót í Lomé í Togo þar sem unnið verður að viðfangsefnum verkefnisins út frá aðferðum leiklistar. Þar munu fjölskyldur frá öllum þátttökulöndum hittast í vinnuferli ásamt nemendum og kennurum frá viðkomandi löndum. Niðurstaða verkefnisins verður svo kynnt á alheimsráðstefnu IDEA í Kína 2020. 

Spænska – Verkefni sem nefnist Sammtalk, nemendur víðs vegar um heiminn hafa samskipti gegnum stafræna miðla. Sjá vefsíðu verkefnisins: https://sammtalk.com
Kennari: Ásdís Þórólfsdóttir.

Önnur þróunarvinna:

  • Kennsluráðstefna - haldin í fyrsta sinn á vorönn 2018 og endurtekin á vorönn 2019. Kennarar skýra frá nýbreytni og tilraunum í kennslu.
    Markmið:  
    Að auka samræðu um nýbreytni í kennslu, um kennsluhætti, námsmat og skólaumhverfið í MH. 
    Að gefa kennurum/starfsfólki tækifæri á að kynna það sem er að gerast í áfangaflóru MH. 
    Að hvetja til þverfaglegrar umræðu um kennslu og kennsluhætti. 
    Að kynna tæki/hugbúnað sem getur nýst í kennslu ólíkra greina. 
    Að ráðstefnan sé kennurum hvatning til nýbreytni í kennslu. 
    Að kennarar fræði hvern annan um ólíkar greinar og aðferðafræðina sem þeir styðjast við í kennslu. 
    Yfirumsjón: Rektor MH.
  • Innleiðing á Office 365 í skólastarfinu.
    Yfirumsjón: Netstjóri MH.
  • Inna – samstarf við Advania í þróun og prófunum á Innu.
    Yfirumsjón: Konrektor MH.
  • Turnitin-forritið – vörn gegn ritstuldi.
    Yfirumsjón: Ásdís Hafstað, bókasafns- og upplýsingafræðingur.
  • Umfang stúdentsprófsins – unnið að breytingum á umfangi stúdentsprófs MH.
    Yfirumsjón: Rektor MH.
  • Umhverfismál – flokkun á lífrænum úrgangi og plasti hófst á vorönn 2019.
    Yfirumsjón: Húsvörður MH.
  • Sálfræðiaðstoð fyrir nemendur – þriggja ára tilraunaverkefni er lokið og hefur sálfræðingur nú verið ráðinn í fasta stöðu við skólann.
    Sálfræðingur: Bóas Valdórsson.
  • Skjalastjórn – innleiðing á rafrænu skjalastjórnarkerfi, GoPro.
    Yfirumsjón: Dagný S. Jónsdóttir og Halldóra S. Sigurðardóttir skjalastjórar.
  • Jafnlaunavottun – innleiðing jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012 og undirbúningur fyrir jafnlaunavottun.
    Yfirumsjón: Fjármálastjóri MH.

 

Síðast uppfært: 26. september 2025