Afreksíþróttaval

Afreksíþróttanemendur sem stunda nám við MH geta sótt um að íþróttaiðkunin verði hluti af náminu. Fyrirkomulagið er hugsað fyrir þá sem vilja ná langt í sinni íþróttagrein og skilgreina sig sem afreksíþróttafólk. Meginmarkmiðið er að nemandi hafi tækifæri til að tengja saman nám og íþróttaiðkun og tileinka sér um leið aga og skipulag til að standa sig vel í námi og afreksíþróttum.

Íþróttagreinin sem viðkomandi nemandi stundar þarf að vera viðurkennd af Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) og íþróttafélagið aðili að sérsambandi innan ÍSÍ.

Iðkun nemanda í afreksíþróttum getur numið 25 einingum, þ.e. einingar í afreksíþróttum geta komið í stað eininga í líkamsræktaráföngum og frjálsu vali á brautum skólans. Athugið að valeiningafjöldi er mismunandi eftir brautum, þ.e. frá 10-25 einingar. Nemendur með afreksíþróttaval þurfa alltaf að taka fyrsta líkamsræktaráfangann í MH, LÍKA2AA01.

Nemandi sem sækir um afreksíþróttaval þarf að láta fylgja með meðmælabréf frá þjálfara eða íþróttafélagi. Þar þurfa að koma fram upplýsingar um hvaða íþrótt nemandinn æfir og umfang æfinga og keppni (smelltu hér til að ná í eyðublaðið þegar það verður tilbúið). 

Að baki einni einingu eru 18-24 klukkustundir og geta nemendur fengið að hámarki 5 einingar á önn fyrir afreksíþróttaiðkun. Á bak við fimm einingar eru u.þ.b. 90-120 klukkustundir í æfingar og keppni.

Síðast uppfært: 04. mars 2024