Fréttir

Myndbandið „Samþykki, mörk og náin samskipti“ sýnt í MH

Í hádeginu 18. apríl var myndbandið „Samþykki, mörk og náin samskipti“ sýnt nemendum og starfsfólki skólans. Höfundar myndbandsins eru Sólborg Guðbrandsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson. Viðburðinum var stjórnað af nemendum og ávarp fluttu Urður Bartels nemandi og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra. Auk þeirra komu fram jafnréttisfulltrúi skólans og fulltrúar feminstafélags NFMH, Emblu. Myndbandið fjallar um samþykki, mörk og náin samskipti nemenda í framhaldsskólum. Efnið er í samtalsformi og út frá reynsluheimi og orðfæri nemendanna og var því vel tekið af MH-ingum.

Söngvaseiður

Við getum ekki hætt að tala um söngleikinn okkar, Söngvaseið. María Hjörvar og Sara Gunnlaugsdóttir, oddvitar leikfélagsins mættu í bítið í morgun og sögðu frá söngleiknum sem er að gera allt vitlaust þessa dagana. Nú þegar hefur verið uppselt á 3 fyrstu sýningarnar og er að seljast upp á þá fjórðu sem er á fimmtudaginn. Sýningin er alveg stórkostleg upplifun og ótrúlegir hæfileikar sem eru þarna á ferð.

Viltu vinna frían Interrail passa og flug til Evrópu?

16. apríl hefst nýtt Discover EU happdrætti. Með DiscoverEU passanum fá 50 íslensk ungmenni tvisvar á ári frían Interrail passa og flug til Evrópu. Síðustu tvö ár hafa 200 Íslendingar unnið í happdrættinu.

Ný kjarnastjórn fyrir haustið 2024

Í gær fóru fram kosningar til embætta í nemendafélagi MH, NFMH. Niðurstöðu kosninga í kjarnasjórn eru þannig að nýr forseti er Arnaldur Halldórsson, nýr varaforseti er Benedikt Freyr Þorvaldsson, nýr gjaldkeri er Valgerður Birna Magnúsdóttir og nýr markaðsstjóri er Helga Birna Hauksdóttir. Við óskum þeim til hamingju með kosninguna og hlökkum til að vinna með ykkur næsta vetur.

Viltu bæta árangur þinn á prófum?

Í næstu viku munu námsráðgjafar bjóða upp á námskeið í prófundirbúningi fyrir nemendur í MH. Nemendur geta valið um þrjú námskeið, þriðjudaginn16. apríl, miðvikudaginn 17. apríl eða fimmtudaginn 18. apríl.

Söngvaseiður

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð og Menntaskólinn í tónlist kynna með stolti söngleikinn Söngvaseið. Að verkinu kemur fjöldinn allur af nemendum beggja skóla ásamt leikstjóra, aðstoðarleikstjóra/danshöfundi, tónlistarstjóra og kórstjóra. Þessi ástríka sýning er stærsta sýning MH í fleiri áratugi og er fullkomin fyrir alla aldurshópa. Miðasala er inni á Tix.is og geta NEMENDUR MH OG MÍT KEYPT MIÐA Á AFSLÆTTI.

Páskafrí

Páskafríið er hafið og stendur til og með 2. apríl. Skrifstofan verður lokuð og opnar ekki aftur fyrr en kl. 8:30 miðvikudaginn 3. apríl. Við hvetjum ykkur til að njóta páskanna eins og hægt er og safna orku fyrir síðustu vikurnar sem eftir eru af önninni. Við vonumst til að sjá ykkur öll hress eftir páska, gleðilega páska.

Sigur í Gettu betur 2024

Gettu betur lið skólans gladdi okkur mikið í kvöld þegar þau unnu það frækilega afrek að sigra Gettu betur. Liðið hefur lagt á sig mikla vinnu og uppskar glæsilegan sigur í kvöld þegar þau unnu lið MR í skemmtilegri og fjölbreyttri keppni. Til hamingju kæra Gettu betur lið og þjálfarar og varamenn. Atli, Una og Hálfdan þið eruð hetjurnar okkar og við óskum ykkur innilega til hamingju. 

Frönsk myndbandaverðlaun

Í gær, miðvikudaginn 20. mars, var haldin mikil frönskuhátíð í Veröld, húsi Vigdísar. Hátíðin var haldin í tilefni af viku franskrar tungu og 50 ára afmælis Félags frönskukennara. Viðstödd voru frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi í Félagi frönskukennara og sendiherra Frakka á Íslandi. Sýnd voru myndbönd nemenda sem tóku þátt í keppni grunn- og framhaldsskóla um bestu myndböndin á frönsku.

Ólympíukeppni í efnafræði

Úrslitakeppni í 23. Almennu landskeppninni í efnafræði var haldin helgina 2. - 3. mars. Þar áttum við fjóra keppendur og tókst okkur að ná þriðja sæti og komast þar með í Ólympíukeppnina sem verður í Saudi Arabíu í júlí. Til hamingju með þetta.