Fréttir

Páskafrí

Páskafrí hefst eftir daginn í dag og stendur til og með 6. apríl. Skrifstofan verður lokuð og opnar ekki aftur fyrr en kl. 8:30 miðvikudaginn 7. apríl. Við hvetjum ykkur til að njóta páskanna eins og hægt er og safna orku fyrir síðustu vikurnar sem eftir eru af önninni. Við vonumst til að sjá ykkur öll hress eftir páska, gleðilega páska.

Kennsla 25. og 26. mars

Því miður munu hertar sóttvarnarreglur taka gildi á miðnætti. Kennslan næstu tvo daga verður ekki í húsnæði skólans en fer fram rafrænt. Kennarar munu láta nemendur vita hvernig kennslu verður háttað næstu tvo daga og mikilvægt er að vakta INNU og tölvupóst. Nemendur geta sótt bækur og annað dót í skápana sína í skólanum á morgun og föstudag frá 8:00-17:00. Við minnum alla á að fylgja sóttvarnareglum og gerum allt sem við getum til að geta hist í skólanum eftir páska.

Skólakynningu dagsins er frestað

Vegna aukinna smita í samfélaginu ætlum við að fresta skólakynningu dagsins. Aukakynningum hefur verið bætt við og er hægt að skoða tímasetningar og skrá sig hér eða undir viðburðir í dálki hægra megin á heimasíðunni.

Góður árangur í eðlisfræðikeppni

Forkeppni í Landskeppni í eðlisfræði 2021 er lokið og tóku 255 nemendur frá 9 framhaldsskólum þátt. MH-ingar létu sig ekki vanta og stóðu sig vel. Oliver Sanches lenti í fimmta sæti og Hálfdán Ingi Gunnarsson í því sjötta. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Næsta morð á dagskrá… (Sagan af því hvernig Gréta hætti að gráta)

Leikfélag MH frumsýnir leikritið ,,Næsta morð á dagskrá… (Sagan af því hvernig Gréta hætti að gráta)’’ föstudaginn 19. mars. Leikritið er búið til af leikhópnum alveg frá grunni og hefur það orðið til í gegnum spuna og ýmsar aðrar æfingar. Öll tónlist, danshreyfingar og karakterar í sýningunni eru skapaðir af leikhópnum. Leikritið fjallar í stuttu máli um þrjár morðráðgátur sem eiga sér stað á Hellu. Þeir Helgi Grímur Hermannsson og Tómas Helgi Baldursson, útskrifaðir MH-ingar og útskrifaðir sviðshöfundar af sviðshöfundabraut LHÍ, eru leikstjórar sýningarinnar. Leikritið er sýnt í Undirheimum í MH og hefur leikhópur leikfélagsins unnið hörðum höndum að sýningunni síðan í janúar. Sýnt verður mjög þétt, bæði fyrir og eftir páskafrí, alveg fram að síðustu kennsluviku skólaársins. Sýningarnar eru fleiri en vanalega þar sem færri áhorfendur komast fyrir í salnum vegna sóttvarnarlaga. Miðasalan fer fram á Tix.is. Hér er hlekkurinn á miðasöluna: https://tix.is/is/event/11069/n-sta-mor-a-dagskra/ Vegna sóttvarnarlaga þá geta áhorfendur ekki setið jafn þétt og vanalega. Það á þó aðeins við um almenna áhorfendur en ekki nemendur. Þess vegna verða skipulagðar sérstakar nemendasýningar sem eru einungis fyrir nemendur í MH, þar sem hægt er að fylla salinn.

Grænasta lausnin

Lið frá MH vann í gær sinn flokk í Evrópuverkefni um umhverfisvænustu lausnina í skólastarfi. Verkefnið þeirra snérist um að setja upp verkefnamiðað nám þar sem nemendur gætu verið hvar sem er í heiminum og stundað nám í skólanum. Til hamingju með þetta.

Frábær árangur MH-inga í landskeppninni í efnafræði

Landskeppnin í efnafræði fór fram í framhaldsskólum landsins fimmtudaginn 25. febrúar sl. Alls tóku 88 nemendur þátt, úr fimm skólum. Sigurvegari var Oliver Sanchez MH-ingur, en hann hlaut 67 stig af 100 mögulegum. Telma Jeanne Bonthonneau einnig úr MH varð í 5.-6. sæti. Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Fyrsta græna skrefið

MH tekur þátt í verkefninu Græn skref. Það er skipulagt fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Verkefninu er skipt í fimm skref. Um miðjan febrúar náði skólinn að stíga fyrsta skrefið þegar starfsmaður Umhverfisstofnunar tók út þær aðgerðir sem tilgreindar eru í gátlista fyrsta skrefs. Viðurkenningarskjal barst svo í hús í vikunni því til staðfestingar. Þegar er hafist handa við að uppfylla kröfur annars skrefs en skólinn stefnir að því að ljúka öllum skrefunum fimm á árinu.

Hvernig á að bregðast við jarðskjálfta?

Við viljum minna á leiðbeiningar Almannavarna um hvernig eigi að bregðast við stórum jarðskjálftum. Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað: ● Haltu kyrru fyrir ● Farðu undir borð eða önnur sterkbyggð húsgögn og haltu þér í ● Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða hurðarop við burðarvegg ● Verðu höfuð þitt og andlit ● Haltu þig frá gluggum ● Láttu vita af þér þegar jarðskjálftinn hættir