Fréttir

Fullt staðnám frá 1. febrúar nk.

Fullt staðnám hefst 1. feb. nk. með örfáum undantekningum. Nemendur mæta í alla tíma í hús samkvæmt stundatöflu vorannar. Það er langþráð stund að sækja alla tíma í staðnámi en við minnum á að aðstæður geta breyst mjög skyndilega eins og gerðist á haustönn. Því er mikilvægt að virða sóttvarnarreglur og vera alltaf með grímuna uppi, muna að spritta sig og virða nálægðarmörk. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu skólans undir Kennsla í COVID-19.

Myndlistarsýning

Síðastliðinn föstudag voru nemendur á lokaári í IB með myndlistarsýningu þar sem þau prófuðu að sýna verkin sín í því skyni að undirbúa sig undir að halda stærri sýningu í vor. Sýningin var haldin í einum af íþróttasölum skólans og stóðu listamennirnir sig með prýði. Thank you for a good show.

Lið MH áfram í þriðju umferð Gettu betur

Lið MH sigraði lið Fjölbrautaskóla Suðurlands í annarri umferð Gettu betur. Fóru leikar þannig að lið MH hlaut 30 stig á móti 17 stigum Sunnlendinga. Lið MH skipa Ari Hallgrímsson forseti NFMH, Júlía Helga Kristbjarnardóttir og Ísleifur Arnórsson. Við óskum þeim enn og aftur innilega til hamingju með sigurinn. Liðið er núna búið að tryggja sig inn í 8 liða úrslit sem fara fram í sjónvarpinu á næstu vikum.

Úrsögn úr áfanga

Töflubreytingum lýkur alveg í dag mánudaginn 11. janúar. Eftir það hafa nemendur tækifæri til 22. janúar til að segja sig úr áfanga eftir samtal við náms- og starfsráðgjafa, námstjóra eða áfangastjóra. Við þá úrsögn kemur úrsögnin fram á ferli nemenda og telst sem seta í áfanga. Eftir að 5 vikur eru liðnar af önninni þá mun áfangastjóri taka stöðuna á ástundun nemenda og fara yfir stöðuna í samráði við kennara viðkomandi nemenda. Nánar má lesa um skólasóknarreglur á heimasíðu skólans.

Dansandi nemendur í MH

Í MH er staðkennsla fyrir hádegi mánudaga til fimmtudaga. Í gær rölti Bóas, sálfræðingur skólans, um skólann og ræddi við nemendur, kennara og rektor og hægt er að hlusta á upptökuna í dótakassanum. Í dag voru nemendur hjá Ásdísi Þórólfsdóttur að læra að dansa Salsa í valáfanga í spænsku. Tilþrifin má sjá á myndinni sem fylgir fréttinni.

Góð byrjun liðs MH í Gettu betur

Þriðjudaginn 5. janúar keppti lið MH í Gettu betur en andstæðingurinn var lið Framhaldsskólans á Húsavík. Leikar fóru þannig að lið MH sigraði með 32 stigum gegn þremur stigum Húsvíkinga. Lið MH skipa Ari Hallgrímsson forseti NFMH, Júlía Helga Kristbjarnardóttir og Ísleifur Arnórsson. Við óskum þeim innilega til hamingju með sigurinn.

Fyrsti skóladagurinn

Kennsla hefst í MH miðvikudaginn 6. janúar og hefst fyrsti tíminn kl. 09:00. Nemendur mæta í stofur skv. stundaskrá hvers og eins. Í byrjun tímans verður ávarpi rektors streymt í allar kennslustofur. Ávarpið og nánari lýsingu á fyrstu dögunum má lesa undir Covid-19 hnappnum. Lokað verður fyrir töflubreytingar í gegnum Innu í kvöld (5. janúar) og ef einhver þarf enn á töflubreytingu að halda þá eru námstjórar við eftir tímann kl. 10:15, 6. janúar, og geta aðstoðað. Við bíðum spennt eftir að fá ykkur í hús.

Nýnemar vorannar 2021

Nemendur sem eru að hefja nám í MH, vorið 2021, eru boðaðir á kynningarfund í skólanum þriðjudaginn 5.janúar kl. 13:00. Kynningarfundurinn fer fram í hátíðarsal skólans. Þar munu rektor, nokkrir starfsmenn skólans og umsjónarkennarinn ykkar, taka á móti ykkur og fara yfir helstu atriðin sem skipta máli við skólabyrjun.