Fréttir

Vegna kórónaveirunnar/COVID-19

Nokkuð er um ferðalög starfsmanna og nemenda og er mikilvægt að skoða hvaða svæði flokkast undir áhættusvæði þar sem meiri hætta er á samfélagssmiti. Við viljum vekja athygli á ráðleggingum sóttvarnarlæknis vegna kórónuveirunnar/COVID-19. Þær má finna inn á vef Landlæknisembættisins. Þess má geta að þessi áhættusvæði breytast reglulega en í augnablikinu eru þessi svæði Kína, fjögur héruð á Norður Ítalíu (Lombardía, Venetó, Emilia Rómanja og Píemonte), Suður-Kórea og Íran. Við hvetjum alla til að fara eftir ráðleggingum sóttvarnarlæknis sem eru uppfærðar reglulega eftir ástæðum.

MH fær styrk úr Lýðheilsusjóði

MH fékk nýlega afhentan styrk úr Lýðheilsusjóði en það var Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem afhenti styrkinn að upphæð kr. 1.000.000-. Bóas Valdórsson sálfræðingur skólans mun stýra verkefninu þar sem samið verður fræðsluefni um svefn fyrir framhaldsskólanema. Fræðsluefnið ætti að koma að góðum notum í kennslu í framhaldsskólum, t.d. í lífsleikni og sálfræði daglegs lífs. Að þessu sinni var úthlutað rúmum 90 milljónum úr Lýðheilsusjóði til 147 verkefna og rannsókna.

MH-ingurinn Krummi verðlaunaður

Krummi Uggason hlaut 3. verðlaun í árlegri smásagnasamkeppni FEKÍ, félags enskukennara á Íslandi. Smásaga hans, Dystopia, fjallar um málaliða í óræðri framtíðarveröld þar sem gleðin er óþekkt hugtak. Verðlaunaafhending fór fram á Bessastöðum í gær en frú Eliza Reid er verndari keppninnar. Þetta er þriðja árið í röð sem MH-ingur hlýtur verðlaun FEKÍ fyrir smásögu. Við óskum Krumma til hamingju með árangurinn.

Valtími

Föstudaginn 28.febrúar k. 14:15 verður valtími þar sem nemendum býðst að hitta umsjónarkennara / valkennara sinn og fá upplýsingar um valið fyrir næstu önn. Allir eru velkomnir og sérstaklega hvetjum við nýnema haustsins 2019 til að mæta og kynna sér málin. Tíminn byrjar kl. 14:15 og er hægt að sjá stofur hér í fréttinni. Valvika hefst 2. mars og stendur út vikuna. Lokað verður fyrir valið eftir mánudaginn 9.mars. Eins og komið hefur fram í bréfi til nemenda þá skiptir miklu máli að velja og velja rétt þar sem áfangaframboð haustannar mótast af valinu núna í mars.

Lagningardagar

Þá er komið að því, lagningardagar 2020 eru byrjaðir. Dagskrána má finna á lagno.org og er búið að bæta við nokkrum viðburðum fyrir fimmtudag og föstudag sem þið skuluð endilega kíkja á. Góða skemmtun.

Lagningardagar

Lagningadagar hefjast á miðvikudag og standa til föstudags. Þá liggur hefðbundin kennsla niðri en NFMH skipuleggur námskeið, fyrirlestra og aðra viðburði í samráði við kennara og stjórnendur. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku kennara og nemenda í dagskrá Lagningardaga. Nánari upplýsingareru hér um dagskrá Lagningardaga 2020. Nemendur mæta fyrir utan þá stofu sem auglýstur viðburður á að vera í og mynda þar röð þar sem oftast er takmarkaður sætafjöldi á viðburði.

Skólahald fellur niður 14. febrúar / All classes cancelled on the 14th of February

Í ljósi rauðrar veðurviðvörunar og ofsaveðurs sem er spáð á morgun mun skólahald falla niður og skólinn verður lokaður. Almannavarnir beina þeim tilmælum til fólks að það haldi sig heima. Við sjáumst svo á mánudag um leið og við óskum öllum góðrar helgar. Due to red weather warning from the Icelandic Met Office all classes will be cancelled tomorrow, 14th of February, and the school will be closed. We will see you all on Monday and have a good and safe weekend.

Þýskir kvikmyndadagar

Þýskir kvikmyndadagar hefjast í Bíó Paradís föstudaginn 14.febrúar og standa til 23. febrúar. Eins og undanfarin ár er nemendum boðið upp á ókeypis nemandasýningu ásamt poppi og coke. Sýningin verður þriðjudaginn 18. febrúar kl. 20 í Bíó Paradís og varð myndin BALLON fyrir vali. Sú mynd er heldur betur við hæfi þar sem við fögnum 30 ára sameiningu þýskalands og falls múrsins á þessu ári. Þýskukennarar MH hvetja alla til að mæta.

Verðlaunahafi í Crossfit á Reykjavíkurleikunum

Erla Guðmundsdóttir líkamsræktarkennari í MH sýndi fjölbreytta hæfileika í Crossfitkeppni Reykjavíkurleikanna þegar hún lenti í öðru sæti í sínum aldursflokki. Keppnin var jafnframt Íslandsmót í Crossfit og árangurinn því glæsilegur. Við óskum Erlu innilega til hamingju með árangurinn en það er óhætt að fullyrða að hún er góð fyrirmynd.

Japanska í MH

Japanska er eitt af 10 erlendu tungumálunum sem kennd eru í MH þessa vorönn. Í dag heimsóttu nokkrir nemendur í japönsku skrifstofuna og kynntu hugmyndir sínar um ferðaáfanga í japönsku. Kynningin var fín og féll vel í kramið hjá stjórnendum sem leggjast nú undir feld að kanna málið.