Móttökuáætlun

Móttökuáætlun Menntaskólans við Hamrahlíð

Reglugerð nr. 654/2009 fjallar um rétt nemenda í framhaldsskólum sem hafa annað móður­mál en íslensku, eða hafa dvalist langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku. Í 3. gr. hennar segir að framhaldsskólar skuli setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Áætlunin skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veitt er. Gera skal grein fyrir móttökuáætlun í skólanámskrá og hún skal vera aðgengileg nemendum og foreldrum, t.d. á vef skóla.

Stefna skólans
Stefna skólans er að nemendur með annað móðurmál en íslensku einangrist ekki frá öðrum nemendum skólans. Því eru ekki sérstakir áfangar í boði fyrir þessa nemendur nema í íslensku. Hins vegar býður skólinn nemendum með annað móðurmál en íslensku upp á víðtækan stuðning í náminu. Nemendur hafa aðgang að kennara í námsveri skólans á skólatíma, alla daga vikunnar.

Sérfræðiráðgjöf
Allir nemendur hafa aðgang að náms- og starfsráðgjöfum skólans. Þeir eru tengiliðir nemenda við aðra starfsmenn og miðla upplýsingum eftir þörfum og óskum nemenda. Náms- og starfsráðgjafar eru einnig tengiliðir foreldra/forsjáraðila við aðra starfsmenn skólans og gegna lykilhlutverki við að veita upplýsingar og skipuleggja fundi með þeim eftir því sem þörf krefur.

Náms- og starfsráðgjafar ásamt forstöðumanni námsvers hafa samráð við stofnanir utan skólans um málefni nemenda ef það á við.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku
Stoðþjónusta Menntaskólans við Hamrahlíð gegnir lykilhlutverki í að taka á móti og þjóna nemendum með annað móðurmál en íslensku. Stoðþjónustan samanstendur af náms- og starfsráðgjöfum, sálfræðingi og starfsmönnum námsvers; sérkennurum og fagkennurum.

Skólinn reynir með ýmsum hætti að ná sambandi við nemendur með annað móðurmál en íslensku til að upplýsa þá um stuðninginn sem í boði er. Allir nýnemar skólans fá kynningu á námsveri þar sem veittur er stuðningur við nemendur skólans, m.a. nemendur með annað móðurmál en íslensku. Forstöðumaður námsvers, í samvinnu við náms- og starfsráðgjafa, fær upplýsingar frá stjórnendum um nýnema sem hafa annað móðurmál en íslensku í upphafi hverrar annar. Hann bregst við og hefur samband við þá nemendur sem hann telur að gætu þurft á stuðningi að halda. Náms- og starfsráðgjafar ásamt kennurum gegna einnig hlutverki í að upplýsa nemendur um stoðþjónustu skólans.

Móttökuviðtal
Forstöðumaður námsvers tekur viðtal við nemendur sem koma í námsverið og aflar upplýsinga um bakgrunn þeirra, skólagöngu, tungumálakunnáttu, hæfni í móðurmáli og íslensku. Þörf nemandans fyrir stuðning í íslensku og öðrum námsgreinum er metin í kjölfarið.

Stuðningur
Nemendum er boðinn stuðningur í samræmi við þarfir þeirra. Stuðningurinn fer einkum fram í námsveri þar sem sérkennarar og fagkennarar starfa. Aðstoðað er við heimanám, lestur, verkefnavinnu, ritgerðarskrif, yfirlestur og annað sem nemendur óska eftir. Tungumálakennarar skólans gegna í einstökum tilvikum hlutverki túlka, þegar nauðsyn ber til.

Metið er í samráði við nemendur hvaða námsleið í íslensku skuli valin. Skólinn býður nám í íslensku sem öðru máli til stúdentsprófs og einnig íslenskuáfanga sem miðaðir eru við nemendur sem hafa íslensku að móðurmáli. Flæði er milli þessara leiða, nemendur geta byrjað í annarri leiðinni en flutt yfir í hina ef í ljós kemur að það henti betur.

Nemendur geta farið í stöðumat í móðurmáli sínu og fengið kunnáttuna metna til eininga. Boðið er upp á valáfanga í yndislestri á móðurmáli nemenda. Markmiðið er að efla móðurmálskunnáttu og styrkja færni nemenda í móðurmálinu þar sem góður grunnur í móðurmáli eflir námsgetu.

Einnig eru nemendur aðstoðaðir við skipulag námsins, t.d. í hvaða röð námsgreinar eru valdar, einkum með tilliti til kunnáttu í íslensku.

Ýmis valfög skólans höfða vel til innflytjenda, styrkja sjálfsmynd þeirra og fræða þá um upprunalönd sín, menningu og tungumál. Þar má nefna valáfanga í sögu og ýmsa tungumálaáfanga.

Starfsfólk námsvers kappkostar að hvetja nemendur til þátttöku í félagslífi skólans og veitir upplýsingar um það, sem og margt annað sem tengist þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Menningartúlkun er mikilvægur þáttur í stuðningi við þessa nemendur.

Síðast uppfært: 15. júní 2023