Málstefna

Málstefna Menntaskólans við Hamrahlíð

  1. Íslenska er fyrsta tungumál (L1) Menntaskólans við Hamrahlíð. Allir skulu vanda meðferð íslensku í ræðu og riti.
  2. Allir kennarar skólans eru málfyrirmyndir. Þeir tali og riti vandaða íslensku í kennslustundum og í samskiptum við nemendur og samstarfsfólk.
  3. Kennarar skólans sem eiga annað móðurmál en íslensku, eru líka mikilvægar málfyrirmyndir.   Nemendur heyra íslensku talaða með margs konar hreim og læri að vera umburðarlyndir í málfarsefnum, að gefnu tilefni.
  4. Kennarar noti íslensk fræðiorð í námsgreinum séu þau til.
  5. Nemendum á IB-braut og nemendum sem hafa íslensku að öðru máli standi til boða íslenskukennsla sem hæfir stöðu þeirra í málinu.
  6. Menntaskólinn við Hamrahlíð verði áfram leiðandi í kennslu erlendra mála á framhaldsskólastigi. Nemendur fái tækifæri til að dýpka kunnáttu sína í þeim þremur erlendu tungumálum sem heyra til kjarnans í náminu. Nemendur geti valið að fá innsýn í mörg tungumál og frá öllum heimshornum.
  7. Íslenskt táknmál er viðurkennt tungumál á Íslandi. Skólinn útvegi táknmálstúlka fyrir nemendur sem þess þurfa.
  8. Notendaviðmót algengs hugbúnaðar sem starfsfólk og nemendur nota innan skólans verði á íslensku sé því við komið.
  9. Máltækni verði nýtt til að aðstoða nemendur og starfsfólk við meðferð málsins og leiðbeina um málnotkun. Nemendur, kennarar og annað starfsfólk eigi kost á að nýta sér allan tiltækan máltæknibúnað fyrir íslensku, svo sem leiðréttingarforrit, talgervla, talgreina og þýðingarforrit. Sérstök áhersla verði lögð á máltæknibúnað sem nýtist fötluðu fólki í námi og daglegu lífi.
Síðast uppfært: 26. janúar 2023