Fréttir

Útskriftarefni kveðja skólann

Í dag gafst útskriftarefnum skólans kostur á að kveðja kennara, starfsfólk og samnemendur. Dagurinn byrjaði með morgunverði á Matgarði í boði útskriftarefna, næst var skemmtun á sal fyrir alla og að lokum fóru nemendur út í vorið og gerður sér glaðan dag. Til hamingju með síðasta kennsludaginn öll og gangi ykkur vel í prófunum.

Íþróttakarl KR er MH-ingur

Í gær var tilkynnt um val á íþróttafólki ársins hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Skemmst er frá því að segja að íþróttakarl ársins var valinn taekwondo-maðurinn og MH nýneminn Guðmundur Flóki Sigurjónsson en það hefur ekki farið fram hjá lesendum MH síðunnar að hann hefur náð frábærum árangri að undanförnu.

Nemenda- og hollvinasamtök MH, NHMH

Þann 13. mars s.l. var haldinn aðalfundur fulltrúaráðs Nemenda- og hollvinasamtaka Menntaskólans við Hamrahlíð (NHMH). Aðalfund skal halda á þriggja ára fresti og kjósa samtökunum fimm manna stjórn úr hópi fulltrúaráðs en það skipa fyrrverandi forsetar Nemendafélags MH eða staðgenglar þeirra. Félagsmenn NHMH eru aftur á móti allir útskrifaðir nemendur frá MH, starfsmenn skólans fyrrverandi og núverandi, sem og fyrrverandi nemendur, sem ekki luku stúdentsprófi en óska eftir því að verða teknir upp á félagaskrá.

Búið að opna fyrir umsóknir nýnema haustið 2025

Innritun í framhaldsskóla stendur yfir frá 25. apríl til og með 10. júní 2025. Sótt er um framhaldsskóla í gegnum Ísland.is, island.is/umsokn-um-framhaldsskola og þar eru allar helstu upplýsingar um umsóknarferlið.

Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla í Smáralind

Junior Achievement á Íslandi stendur á hverju ári fyrir fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla en þar vinna nemendur að ýmsum sjálfstæðum verkefnum þar sem þau sýna frumkvæði og stofna fyrirtæki utan um vöru eða þjónustu. Einn liður í því verkefni er að kynna vöruna í Smáralind á svokallaðri vörumessu sem fór fram um síðustu helgi.

Áróra Líf er fulltrúi MH í söngkeppni framhaldsskólanna

Áróra Líf Sigurþórsdóttir sigraði söngkeppni Óðríks Algaula sem haldin var í febrúar og keppir fyrir hönd NFMH/MH í söngkeppni framhaldskólanna sem verður haldin næstkomandi laugardag 12. apríl í Háskólabíói. Áróra Líf mun syngja lagið Óskarsverðlaunatár eða Oscar winning tears með Raye. Við hvetjum nemendur til að kaupa miða á keppnina og styðja Áróru Líf áfram, stuðningur skiptir svo miklu máli. Keppnin verður einnig sýnd í beinni á RÚV kl 19:45 og hvetjum við öll til þess að fylgjast með keppninni. Miðasala er inn á tix.is (https://tix.is/event/19285/songkeppni-framhaldsskolanna-2025)

Tónelskir nemendur á útskriftarhátíð MÍT

Í síðustu viku fór fram sannkölluð tónlistarveisla á vegum Menntaskóla í tónlist í Hörpu. Dagskráin stóð frá morgni til kvölds dagana 31. mars til 2. apríl og sýndu nemendur snilldartakta. Útskriftarnemendur MÍT sem einnig stunda bóklegt nám í MH sýndu þar afrakstur síðustu ára úr námi sínu við MÍT. Sannkölluð tónlistarveisla. Á myndinni má sjá Snævar Örn Kristmannsson sem er að ljúka námi af stúdentsbraut MÍT með áherslu á klassískan gítar. Til hamingju öll með árangurinn.

Sigurvegarar í Músíktilraunum 2025

Við vekjum athygli allra á úrslitum í Músíktilraunum sem fóru fram um helgina. MH-ingar voru á meðal þeirrra sem sýndu þar snilldartakta og tóku með sér nokkur verðlaun. Til hamingju með ykkur. Nánari fréttir af Músíktilraunum unga fólksins má lesa hér.

Galdrar í MH

Það var hvorki langferðabíll né rúta heldur Nimbus 2000 sem tók nemendur í galdrabókmenntum alla leið á Galdrasafnið á Hólmavík og til baka á einum degi. 25 galdranemendur MHogwarts tóku flugið frá MH á laugardagsmorgni og slúttuðu annasömum galdraáfanga með ferð á alvöru galdraslóðir. Hólmavík tók á móti hópnum með blankalogni og spegilsléttum sjó, það var töfrum líkast. Nemendur fengu frábæra leiðsögn safnstjórans Önnu Bjargar Þórarinsdóttur og er gaman að geta tvinnað saman áhugamál og nám á þennan hátt.

Andlát - Sif Bjarnadóttir

Sif Bjarnadóttir fyrrverandi dönskukennari í MH verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag föstudag kl. 13:00. Skrifstofan verður því lokuð eftir hádegi í dag. MH-ingar senda fjölskyldu Sifjar sínar dýpstu samúðarkveðjur.