Saga skólans

Menntaskólinn við Hamrahlíð var stofnaður 1966 og voru fyrstu stúdentarnir brautskráðir 1970. Fyrstu árin starfaði skólinn samkvæmt bekkjakerfi en 1972 var áfangakerfið tekið upp. Það var þá alger nýjung hér á landi. Fyrsti rektor MH var Guðmundur Arnlaugsson.

Kennsla hófst í öldungadeild MH, hinni fyrstu í íslenskum framhaldsskóla, í janúar 1972. Hátt á annað þúsund stúdenta á ýmsum aldri, allt frá liðlega tvítugum upp í 76 ára, hafa útskrifast úr öldungadeild. Öldungadeildin var lögð niður í árslok 2014. Kom þar tvennt til, þverrandi aðsókn og fjárskortur.

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð kom fyrst saman 18. október 1967. Hamrahlíðarkórinn, kór eldri nemenda, var stofnaður til hliðar við skólakórinn árið 1982 og eru kórarnir þjóðþekktir.

Skólinn var lengi vel skilgreindur sem tilraunaskóli og fékk heimild til að fara ótroðnar slóðir á ýmsum sviðum. Má þar nefna stofnun félagsfræðabrautar og síðar tónlistarbrautar til stúdentsprófs, mikla fjölbreytni valáfanga og kennslu ýmissa námsgreina sem ekki voru fyrir í námskrá.

Skólinn hefur byggt upp ýmsa þjónustu við fatlaða nemendur og þróað námsefni og sérkennslu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta nemendur sem stefna á stúdentspróf.

Árið 1997 hóf skólinn undirbúning að kennslu til alþjóðlegs stúdentsprófs, International Baccalaureate Diploma, og voru hinir fyrstu úr því námi brautskráðir sumarið 2000.

14. febrúar 2007 var nýbygging við skólann vígð.

Haustið 2011 var stofnuð sérnámsbraut (starfsbraut) við skólann og fyrstu nemendur með framhaldsskólapróf af sérnámsbraut voru útskrifaðir vorið 2015. Fyrsti deildarstjóri sérnámsbrautar var Soffía Unnur Björnsdóttir og hætti hún vorið 2020. Linda Dröfn Jóhannesdóttir tók þá við. Nafni brautarinnar var breytt í ársbyrjun 2021 og heitir nú fjölnámsbraut.

Haustið 2015 hófst kennsla á nýjum námsbrautum sem eru skipulagðar þannig að nemendur geti lokið stúdentsprófi á þremur árum. Skólinn er kjarnaskóli í listdansi og er eini skólinn á landinu sem býður upp á stúdentspróf á listdansbraut í samráði við samstarfsskóla í listdansi.

Sérstaða skólans er fólgin í fjölbreyttu námi, auðugu áfangaframboði, alþjóðlegu námi og víðtækri þjónustu.

Nemendafjöldi hefur síðustu annir verið um 1050-1150. Kennarar og aðrir starfsmenn eru kringum 120.

 

Rektorar MH

Tímabil

Guðmundur Arnlaugsson

1966-1980

Hjálmar Ólafsson (vegna leyfis Guðmundar)

1975 haustönn

Örnólfur Thorlacius

1980-1995

Sverrir Einarsson (vegna leyfis Örnólfs)

1990-1991

Sverrir Einarsson

1996-1998

Wincie Jóhannsdóttir (vegna leyfis Sverris)

1996-1998

Lárus Hagalín Bjarnason

1998-2018

Sigurborg Matthíasdóttir (vegna leyfis Lárusar)  

2007-2008

Sigurborg Matthíasdóttir (vegna leyfis Lárusar)  

2012 vorönn

Steinn Jóhannsson (vegna leyfis Lárusar) 

1.2.2018-30.4.2018

Steinn Jóhannsson

2018-

Síðast uppfært: 29. janúar 2021