Námsmatsstefna

Námsmatsstefna Menntaskólans við Hamrahlíð - English

Námsmat miðar að því að afla vitneskju um árangur nemenda og hvernig einstaklingum og hópum gengur að ná settum markmiðum. Námsmat á að veita nemendum, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi sem má hafa að leiðarljósi við skipulagningu og uppbyggingu náms. Til að geta gegnt þessu margþætta hlutverki þarf námsmat að uppfylla þau skilyrði að vera réttmætt, raunhæft og áreiðanlegt.

Stefnt skal að því að hafa námsmat í öllum áföngum fjölbreytt þar sem reynir á ólíka þekkingu, leikni og hæfni. Leitast skal við að beita ólíkum matsaðferðum sem geta m.a. falið í sér mat á einstaklings- eða hópverkefnum, ritgerðum, skyndiprófum, tímaverkefnum, skýrslum, tilraunum, vinnubókum, gagnaprófum, lokaprófum, virkri þátttöku í tímum, mætingu o.fl. Í áföngum þar sem margir smærri námsþættir mynda námsmat er eðlilegt að miða við meðaleinkunn viðkomandi námsþátta til að ná námsmati og að vægi einstakra þátta sem koma í veg fyrir að nemendur nái mati í áfanga sé ekki minna en 10%. Nemendur eiga rétt á sjúkraprófi í prófum sem hafa þetta vægi.

 Í námsáætlun áfanga skal koma skýrt fram

  • hvaða námsþættir eru metnir
  • hvenær þeir eru metnir
  • hvert er vægi þeirra í lokaeinkunn
  • mætingaskylda (t.d. í verklegum æfingum)
  • hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að ljúka áfanga á fullnægjandi hátt

Námsáætlanir skulu vera aðgengilegar öllum í INNU.

Námsmat getur verið ólíkt eftir námsgreinum og áföngum en fagstjórar tryggja að samræmis sé gætt í námsmati innan áfanga og að kennarar hafi samvinnu um yfirferð prófa þar sem því verður viðkomið. Ef nemendur hafa val um mismunandi námsmatsleiðir í áfanga skal það koma skýrt fram í námsáætlun. Að jafnaði eru einkunnir gefnar í tölum í áföngum í MH en á því eru þó einstaka undantekningar og er þá notað Staðið/Fall í stað tölugildis. Einkunnagjöf skal fylgja umsögn til útskýringar þar sem það á við eins og í mati á ritgerðum. Námsmati skal að jafnaði dreift yfir önnina en lokapróf eru að jafnaði haldin á sérstökum prófatíma í lok annar.  Ekki skal setja stærri próf á í síðustu kennsluviku. Skólinn setur ákveðnar reglur um framkvæmd prófa og er hún á ábyrgð prófstjóra. Skólinn líður ekki ritstuld og svindl og viðurlög við slíku eru birt á heimasíðu skólans undir skólareglur.

Að loknum prófum er haldinn staðfestingardagur þar sem prófasýning fer fram. Þá geta nemendur skoðað þau gögn sem námsmat byggir á og rætt það við kennara. Ef nemandi er ósáttur við námsmat getur hann vísað því til námstjóra. Vilji nemendur, sem ekki hafa náð lágmarkseinkunn, eigi una mati kennara eða fagstjóra geta þeir snúið sér til rektors og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Skólinn geymir lokapróf sem námsmat byggir á í eitt ár.

Síðast uppfært: 10. janúar 2022