Umhverfis- og loftslagsstefna

Umhverfis- og loftslagsstefna MH

Framtíðarsýn
Menntaskólinn við Hamrahlíð stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Skólinn vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamkomulagsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. 

Yfirmarkmið
Fram til 2030 mun Menntaskólinn við Hamrahlíð draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2019.

Gildissvið
Stefna þessi tekur til umhverfisáhrifa af almennri starfsemi Menntaskólans við Hamrahlíð.

Umfang
Umhverfis- og loftslagsstefna MH fjallar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt leiðbeiningum um loftslagsstefnur opinberra aðila. Stefnan nær til samgangna, orkunotkunar, úrgangsmyndunar, innkaupa og efnanotkunar sem og umhverfisfræðslu.

Eftirfylgni
Umhverfis- og loftslagsstefna MH er rýnd reglulega af stýrihópi umhverfismála og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Stefnan er samþykkt af yfirstjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu MH.

Tenging við núverandi skuldbindingar
Stefna þessi tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu. Skólinn tekur þátt í verkefnunum Græn skref, sem Umhverfisstofnun skipuleggur, og grænfánaverkefninu Skólar á grænni grein sem er á vegum Landverndar.

Kolefnisjöfnun
MH mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun, t.d. með kaupum á vottuðum kolefniseiningum.

 

Síðast uppfært: 03. nóvember 2021