01.10.2021
Í MH velja nemendur áfanga út frá brautarskipulagi og ráða sjálf hverju sinni, hvaða áfanga þau taka og í hvaða röð. Í dag var opnað fyrir valið fyrir vorönn 2022 og hafa nemendur til og með 11. október til að ganga frá því. Það fer eftir niðurstöðum valsins hvaða áfangar verða endanlega í boði á vorönn. Nemendur geta kynnt sér áfangaframboðið á heimasíðunni þar sem hægt er að skoða lista með öllum áföngum sem boðið er uppá og einnig glærur sem sýna hvaða valáfangar eru í boði. Við hvetjum alla nemendur til að skoða þetta vel og leita sér aðstoðar, ef þeir þurfa, hjá umsjónarkennurum, námstjórum, áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjöfum.
29.09.2021
Vikuna 4.-10. september kom hópur 9 nemenda og tveggja kennara frá Bielefeld, Þýskalandi í heimsókn í MH. Þau hittu 12 nemendur og 3 kennara í Erasmus+ samstarfsverkefni sem hverfist um lýðræði og umhverfismál. Hér voru haldnar þrjár málstofur og hitti skemmtilega á að báðar þjóðir voru að upplifa kosningabaráttu í sínu landi sem setti mark sitt á umræðuna. Gestirnir voru mjög ánægðir með það sem þau sáu í MH og fengu meðal annars að heyra kórinn syngja og sáu kynningu stjórnmálaflokkanna fyrir skuggakosningarnar. Hópurinn heimsótti einnig Hellisheiðarvirkjun, Þingvelli, Gullfoss, Geysi og gosstöðvarnar, sem þeim fannst mikið til um. Eftir skemmtilega og fróðlega samveru hér í MH og utan skólans höfðu íslenski og þýski hópurinn kynnst og hlakka til að sjást aftur í vor, þegar Bielefeld verður heimsótt.
24.09.2021
Í dag á Menntaskólinn við Hamrahlíð 55 ára afmæli. Skólinn var settur í fyrsta skipti 24. september 1966 af Guðmundi Arnlaugssyni fyrsta rektor skólans. Í ræðu Guðmundar kom fram að það hafi verið mikið tilfinningamál að stofna annan menntaskóla í Reykjavík. Í máli dr. Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra kom fram að það væru merk tímamót þegar nýr menntaskóli er tekin í notkun. Hann óskaði þess „að íslensk æska mætti sækja í skólann visku og þroska.“ Skólinn hefur svo sannarlega dafnað og vaxið á þessum rúmu fimm áratugum en í dag stunda rúmlega 1000 nemendur af 30 þjóðernum nám við skólann og er starfsfólk vel á annað hundrað. Það er spennandi að hugsa til þess hvernig skóli MH verður eftir önnur 55 ár.
21.09.2021
Í morgun mætti hafragrauturinn á Miðgarð við mikil fagnaðarlæti nemenda sem kláruðu hann upp til agna. Grauturinn verður í boði þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá kl. 9:50-10:10 og föstudaga 10:05 til 10:25. Nemendur eru hvattir til að koma með margnota ílát fyrir grautinn en þeir sem gera það ekki eiga að hreinsa vel úr pappaskálunum og setja þær í rusl fyrir pappír og skeiðarnar eru úr efni sem brotnar niður og mega því fara í lífrænu tunnuna.
20.09.2021
Norðurkjallari er félagsaðstaða nemenda í MH og þar er hægt að vera og hafa það notalegt í góðra vina hópi. Stjórn NFMH hverju sinni, hefur umsjón með Norðurkjallara og sér um að halda utanum alla starfsemi sem þar fer fram. Í dag skrifaðu Elva María forseti nemendafélagsins og Steinn rektor undir samning þess efnis. Nokkrir viðburðir hafa nú þegar litið dagsins ljós í Norðurkjallara þetta skólaárið og í þessari viku er von á tveimur böllum í þessari fínu aðstöðu nemenda.
08.09.2021
Á morgun, fimmtudaginn 9. september, verða skuggakosningar í MH. Af því tilefni fengu MH-ingar heimsókn frá fulltrúm flestra flokka sem bjóða fram í alþingiskosningum 25. september 2021. Nemendur sýndu þeim mikinn áhuga og mættu á Miklagarð í hádegishléinu og ræddu við þá um landsins gagn og nauðsynjar. Kjörstjórn skipa tveir kennarar og nemendur sem eru í stjórnmálafræðiáfanga. Vonandi fengu sem flestir svör við spurningum sínum og eru einhvers vísari um hvern skal kjósa í skuggakosningunum á morgun.
08.09.2021
Í gærkvöldi var haldinn rafrænn foreldrafundur með foreldrum og aðstandendum nýnema haustsins 2021. Rektor flutti ávarp, Fríður náms-og starfsráðgjafi sagði frá stoðþjónustu skólans og Ásdís Lovísa tók alla í lífsleiknitíma og kynnti námið í MH. Næst söng kór Menntaskólans við Hamrahlíð 3 lög undir stjórn Hreiðars Inga og í þriðja laginu bættust nýjustu kórmeðlimirnir við og tóku undir. Eftir kórsögninn talaði Bóas sálfræðingur skólans og í lokin sagði Kristín Finndís frá foreldrafélaginu. Hægt er að horfa á streymið frá fundinum hér, ef einhver missti af.
07.09.2021
Gamla myndlistarstofan hefur fengið nýtt hlutverk eftir kennslu á þriðjudögum og fimmtudögum. Þá breytist stofan í saumastofu nemenda MH. Þar hittast nemendur sem áhuga hafa á saumaskap og ýmiss konar handavinnu. Hópurinn hefur til umráða nokkrar saumavélar sem nemendafélagið hefur eignast og er ætlunin að sauma mark sitt á MH. Allir sem áhuga hafa eru velkomnir að bætast í hópinn.
07.09.2021
Íþróttakennsla hefur verið utanhúss það sem af er önninni en færist nú inn í hús frá og með miðvikudeginum 8. september. Við hvetjum nemendur til að mæta með viðeigandi íþróttafatnað og skó til notkunar innanhúss. Í MH er góð aðstaða til íþróttaiðkunar í þremur íþróttasölum. Stór salur fyrir bolta- og badmintonáfanga, minni salur fyrir jógaáfanga og lyftingaraðstaða fyrir lyftingar- og þrekáfanga. Einnig er í boði að taka fjallgönguáfanga og áfangann hjólað í skólann.
01.09.2021
Jöfnunarstyrkur er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir jöfnunarstyrks fyrir námsárið 2021-2022 og eru nemendur hvattir til að sækja um strax fyrir báðar annir námsársins. Umsóknarfrestur haustannar er til og með 15. október n.k. og vorannar til og með 15. febrúar n.k. Sótt er um á MITT LÁN og ISLAND.is með rafrænum skilríkjum.
Ef nemendur óska eftir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á menntasjodur@menntasjodur.is. Nánar má lesa um jöfnunarstyrk á síðu Menntasjóðs.