01.12.2025
Lokaprófin hófust í dag 1. desember skv. próftöflu. Nemendur sjá sína eigin próftöflu í Innu og þar kemur líka fram klukkan hvað prófin byrja. Nemendur sem hafa sótt um að breyta prófi þurfa að athuga að próftaflan í Innu hefur ekki breyst og allar upplýsingar um breyttan próftíma eru í tölvupósti til hvers og eins frá prófstjóra. Passið vel upp á að skoða þetta vel svo þið missið ekki af prófi. Allir nemendur hafa fengið tölvupóst frá prófstjóra þar sem farið er yfir helstu atriði varðandi próftöku í MH.
28.11.2025
Nemendur í MH kjósa skólastjórnarfulltrúa einu sinni á ári. Nýr skólastjórnarfulltrúi fyrir næstu tvær annir er Dagur Ingason og er hann nemandi á öðru ári í MH. Skólastjórnarfulltrúi er fulltrúi nemenda á skólastjórnarfundum og kemur hann hugmyndum nemenda á framfæri. Um leið og við bjóðum Dag velkominn til starfa þá þökkum við Guðrúnu Lilju fyrir vel unnin störf í þágu NFMH.
14.11.2025
Þann 2. nóvember síðastliðinn veitti forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, 26 skátum forsetamerkið. Í þeirra hópi voru fjórir núverandi MH-ingar, þeir Aðalsteinn Ingi Jónasson, Andri Rafn Ævarsson, Daníel Þröstur Pálsson (forseti NFMH) og Helgi Þórir Sigurðsson. Í hópnum var einnig Elí Hrönn Hákonar, sem útskrifaðist frá MH í vor.
Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátana til persónulegs vaxtar í gegnum 24 fjölbreytt verkefni sem skátarnir þurfa að vinna að, eins og segir í umfjöllun skátanna um athöfnina.
Við óskum skátunum okkar innilega til hamingju með árangurinn.
03.11.2025
MH tók í gær þátt í Leiktu betur og lenti lið skólans í öðru sæti. Saga Davíðsdóttir fékk einnig verðlaun sem leikkona kvöldsins, en lið MH skipuðu ásamt Sögu, Alda Örvarsdóttir, Bjarki Ingason og Halldór Gauti Tryggvason.
Á hverju ári keppa framhaldsskólar landsins í leikhússporti og spuna undir merkjum Leiktu betur. Keppnin er einn af viðburðum Unglistar, listahátíðar ungs fólks, sem er vettvangur fyrir ungt upprennandi listafólk. Keppnin í gær var haldin í Tjarnarbíói.
Við óskum Öldu, Bjarka, Halldóri Gauta og Sögu innilega til hamingju með árangurinn.
02.11.2025
Í mars fengum við í MH heimsókn frá þýskum nemendum frá Leipzig og í haustfríinu var komið að MH-ingum að heimsækja Þýskaland. Þýskudeildin sótti um Erasmus-styrk til fararinnar og sóttu 9 nemendur um að taka þátt. Ferðin gekk framar vonum og innsiglaði enn betur tengslin á milli nemendanna síðan í vor.