Skipulagsskrá

Skipulagsskrá fyrir Minningarsjóð um Sverri S. Einarsson

1. gr.

Sjóðurinn heitir Minningarsjóður um Sverri S. Einarsson og er stofnaður til minningar um Sverri Sigurjón Einarsson, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð frá 1996 til 1998. Hann var fæddur 29. júlí 1948 og lést 13. apríl 1998.

2. gr.

Menntaskólinn við Hamrahlíð leggur til stofnupphæð í sjóðinn, kr. 477.000, fjögur hundruð sjötíu og sjö þúsund krónur. Karólína Hulda Guðmundsdóttir, leggur fjárhæð í sjóðinn og jafnframt gefst velunnurum úr hópi samstarfsmanna Sverris í Menntaskólanum við Hamrahlíð að leggja stofnfé í sjóðinn.

Eignir sjóðsins við staðfestingu eru 587.000.00, fimmhundruð áttatíu og sjö þúsund krónur, þar af höfuðstóll kr. 500.000.00, fimm hundruð þúsund krónur. Höfuðstóll skal ávallt haldast óskerðanlegur að raungildi. Við hann skal leggja allar verðbætur. Vöxtum skal jafnan varið til að verðlauna nýstúdent við útskrift stúdenta. Þó er heimilt að víkja frá þeirri reglu og fella út verðlaunaafhendingu við útskrift ef rök mæla með því.

3. gr.

Markmið sjóðsins er að veita ár hvert viðurkenningu nýstúdent sem hefur á framúrskarandi hátt nýtt möguleika áfangakerfisins í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

4. gr.

Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum til tveggja ára í senn. Rektor skal sitja í stjórn, einn fulltrúi úr hópi starfsmanna skólans, kosinn á fundi starfsmannafélagsins, og einn nemandi valinn úr hópi skólastjórnarfulltrúa. Stjórnin skal varðveita eignir sjóðsins og ávaxta þær á þann hátt sem telja má öruggan og arðvænlegan. Rektor Menntaskólans við Hamrahlíð er vörslumaður sjóðsins. Fjármálastjóri skólans annast árlega endurskoðun reikninga sjóðsins.

5. gr.

Sjóðsstjórn skal skila tillögu um verðlaunahafa fyrir hverja þá stúdentaútskrift er stjórnin sér ástæðu til að verðlauna stúdentsefni. Viðurkenning skal veitt við brautskráningu stúdenta. Viðurkenningin skal staðfest með sérstöku skjali, bókargjöf og verðlaunafé. Sjóðsstjórn ber ábyrgð á framkvæmd allri og skal árlega skila skýrslu til Skólanefndar MH.

6. gr.

Breytingar á skipulagsskrá þessari má því aðeins gera að þær hljóti samþykki allra stjórnarmanna sjóðsins.

7. gr.

Verði sjóðurinn lagður niður skal fé hans renna óskipt til að styrkja stöðu fatlaðra nemenda Menntaskólans við Hamrahlíð.

8. gr.

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari.

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist skv. lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 28. mars 2000.

f. h. r.

Síðast uppfært: 28. september 2021