Mat á námi utan MH

Ef nemandi hefur lokið áföngum í framhaldsskólum á Íslandi sem starfa skv. aðalnámskrá framhaldsskóla, er unnt að fá þá áfanga metna sem áfanga í MH eða til eininga í MH.  Hvernig áfangarnir eru metnir ræðst af því í hvaða grein þeir eru, á hvaða þrepi og hver fjöldi eininga er. Suma áfanga er unnt að meta í stað áfanga sem kenndir eru í MH en aðra er aðeins hægt að fá metnar einingar fyrir.  Mat á námi úr skólum í öðrum löndum er skoðað í hverju tilfelli fyrir sig.

I.  Áfangi metinn fyrir áfanga af áfangaframboði MH:

Til að áfangi verði metinn í stað áfanga í MH verður áfanginn að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1)  Áfanginn verður að taka fyrir sama eða sambærilegt efni og tekið er fyrir í þeim áfanga sem hann er metinn fyrir.

2)  Áfanginn verður að vera af sama eða hærra þrepi en áfanginn sem hann er metinn fyrir.

3)  Áfanginn verður að vera metinn til jafnmargra eða fleiri eininga en áfanginn sem hann er metinn fyrir.

4)  Áfanganum þarf að vera lokið með lágmarkseinkunn 5.

Ef þessi skilyrði eru uppfyllt er unnt að meta áfangann í stað áfanga í MH og getur hann þá gengið inn í námsbrautir MH með sama hætti og áfanginn í MH gerir.

II:  Áfangi metinn sem ótilgreint val í tiltekinni grein.

Ef áfangi úr öðrum skóla er sambærilegur við áfanga sem eru í áfangaframboði  MH þá er hann metinn sem slíkur. Ef áfangi í öðrum skóla er ekki til í áfangaframboði MH en fellur undir grein sem er kennd í MH og áfangastjóri/námstjórar telja matshæfan, þá skal hann metinn sem ótilgreint val greinarinnar. Dæmi um ótilgreinda áfanga í sögu væri SAGA2AÓ05, SAGA2BÓ05, SAGA3CÓ05 eftir þrepasetningu og undanfarareglum.

Áfangi sem er metinn með þessum hætti ber ávallt heiti greinarinnar og má því ráðstafa honum innan brautarinnar í frjálst val, brautarbundið val eða sem hluta af kjörgrein eins og gildir um aðra valáfanga greinarinnar.

III.  Áfangi metinn sem ótilgreint val.

Ef áfangi úr öðrum skóla er í grein sem ekki er kennd við MH er unnt að meta hann sem ótilgreint val.  Það á til dæmis við um greinar sem kenndar eru í iðnnámi.  Mat á slíku námi er skoðað í hverju tilfelli fyrir sig og er ekki metið einingu fyrir einingu heldur skoðað heildstætt.

Einingar sem metnar eru á þennan hátt er aðeins hægt að ráðstafa í frjálst val námsbrauta en þó aldrei meira en 25 einingum, mismunandi eftir brautum, sem hluta af 205 eininga stúdentsprófi MH. Ef einingarnar sem metnar eru verða fleiri en 25, þá verða þær  einingar viðbót við þær 205 einingar sem er lágmarksfjöldi eininga til stúdentsprófs.

Um mat á námi í tónlist og listdansi gilda sérreglur og fellur það ekki undir ofangreint.

IV.  Mat á námi í skólum í öðrum löndum.

Nemendur sem hafa lagt stund á nám í öðrum löndum vegna búsetu erlendis eða skiptináms geta fengið það að einhverju leyti metið.  Miðað er við að námið sé á sambærilegu stigi og nám í MH (t.d. seinni hluta high school í Bandaríkjunum eða gymnasium í Danmörku) en þó er tekið tillit til þess ef nemendur hafa verið í námi á yngri stigum sem teygir sig upp í framhaldsskólastigið.  Það getur t.d. átt við um AP, IB eða Honors nám í Bandaríkjunum.

Nemendur sem hafa búið erlendis eða hafa verið í skiptinámi geta tekið stöðumat í tungumálum en í öðrum greinum er mikilvægt að nemendur framvísi gögnum sem sýna hvaða námi þeir hafa verið í (kennsluáætlunum, glósum, bókum osfrv) og staðfestingu á að þeir hafi lokið náminu.

Hámarkseiningafjöldi sem nemendur geta fengið metið í stöðumati eru eftirfarandi eftir tungumálum:

Norðurlandamál:        10 einingar

Enska:                          15 einingar

Önnur tungumál:        15 - 20 einingar.

Athugið að nám sem ekki er viðurkennt og vottað sem nám á framhaldsskólastigi er ekki metið sem hluti af stúdentsprófi MH.

Öll frávik frá ofangreindum viðmiðunarreglum verður að sækja um til áfangastjóra.

Síðast uppfært: 31. ágúst 2023