Æviágrip Sverris Sigurjóns Einarssonar

Sverrir Sigurjón Einarsson lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og stúdentsprófi frá stærðfræðideild Kennaraskólans 1971. Hann lagði stund á stærðfræði, eðlis- og efnafræði við Stokkhólmsháskóla og lauk þaðan fil.cand.-prófi 1976 og adjunkt-prófi frá Kennaraháskólanum í Stokkhólmi 1977. Veturinn 1992 til 1993 var hann í skólastjórnunarnámi við Skolledarhögskolan í Örebro í Svíþjóð. Þann vetur hélt Sverrir fjölda fyrirlestra um íslenska áfangakerfið sem Svíar litu til þegar breyta átti sænska menntaskólanum.

Sverrir var stærðfræðikennari við Menntaskólann við Hamrahlíð frá 1979 til 1986 en þá var hann ráðinn áfangastjóri. Hann starfaði sem konrektor frá 1988 til 1995. Á haustönn 1995 kenndi hann stærðfræði við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Sverrir var skipaður rektor Menntaskólans við Hamrahlíð 1. janúar 1996.    

Sverrir þýddi og staðfærði kennsluefni í stærðfræði fyrir unglingastig og samdi kennslu-leiðbeiningar um efnið ásamt öðrum. Hann gegndi ýmsum trúnaðar- og nefndarstörfum um skólamál. Sverrir starfaði sem fararstjóri á Ítalíu, í Egyptalandi og Ísrael á árunum 1982 til 1989. Hann var félagi í Karlakór Reykjavíkur frá 1980 og formaður kórsins 1988.

 

Síðast uppfært: 28. september 2021