Fréttir

Prófin hafin

Jólaprófin eru hafin og eru öll lokapróf rafræn heimapróf þessi jólin, nema fyrir IB nemendur. Fagkennarar, prófstjóri og náms- og starfsráðgjafar sitja saman í stofu 12 og fylgjast með þegar nemendur streyma í rafrænu prófin. Ef nemendur eru ekki mætt tímanlega þá er hringt í þau og þau hvött til að skella sér í próf. Við minnum á að veikindaskráningar fara fram í Innu og að senda prófstjóra póst ef eitthvað er ekki rétt í ykkar próftöflu. Gangi ykkur sem best í prófunum og við sendum hlýjar kveðjur héðan úr Hamrahlíðinni.

Próftafla nemenda / Examination timetable

Próftaflan er komin á vefinn og í Innu og þurfa nemendur að skoða hana vel. Kennarar munu gefa allar nánari upplýsingar þegar nær dregur. Bréf verður sent út til allra frá prófstjóra MH og náms- og starfsráðgjöfum um fyrirkomulag prófanna.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er dagur íslenskrar tungu og honum bera að fagna. Af því tilefni höfum við í gegnum árin gert okkur dagamun eins og með söngstund á sal og upplestri úr bókum eftir íslenska rithöfunda. Í ár má skoða framlag íslenskukennara rafrænt bæði hér og á facebook-síðu skólans. Til hamgju með daginn.

Kennsla í annarlok og lokapróf í MH

Kennsla næstu tvær vikur verður áfram með sama fyrirkomulagi og hefur verið þ.e. stafræn kennsla. Núverandi sóttvarnarreglur útiloka að hægt sé að taka á móti nemendum eins og við vorum að vona, þar sem blöndun milli hópa er ekki í samræmi við sóttvarnarreglur. Það þýðir að nemendur mega ekki hitta tvo mismunandi hópa innan hvers dags eða milli daga. Áfram verður samt hægt að taka á móti smærri hópum þar sem engin blöndun á sér stað, t.d. í IB þar sem er bekkjarkerfi og nemendur eru alltaf með sama hópnum. Einnig hefur verið ákveðið að lokapróf í desember verði rafræn og ekki í húsi, að undanskildum prófum í IB sem fara fram innan veggja MH. Þessi ákvörðun er tekin í samræmi við sóttvarnarreglur. Sjá nánar í bréfi sem sent var á alla nemendur í dag. Prófstjóri og náms- og starfsráðgjafar munu senda út leiðbeiningar varðandi lokaprófin og umgjörð þeirra.

MH-ingar í rafrænni stærðfræðikeppni

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema er árlegur viðburður og fór forkeppni hennar fram rafrænt 13. október síðastliðinn. Á neðra stigi kepptu þeir sem hófu nám við framhaldsskóla í haust, en aðrir kepptu á efra stigi. Þeim sem hafna efst í forkeppninni, 20 á neðra stigi og 25 á efra stigi, er boðið að taka þátt í úrslitakeppni Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema sem fer fram í mars. Á neðra stigi kepptu 32 nemendur og af þeim voru tveir úr MH og hafnaði Helga Valborg Guðmundsdóttir í 15. sæti. Á efra stigi kepptu 76 nemendur og af þeim voru 19 úr MH. Efstir voru: Oliver Sanchez í 5. sæti, Bragi Þorvaldsson í 12.-13. sæti, Hálfdán Ingi Gunnarsson í 15. sæti, Flosi Thomas Lyons í 20. – 22. sæti, Matthildur Dís Sigurjónsdóttir og Andrés Nói Arnarsson lentu í 23.-25. sæti. Óskum við þeim öllum til hamingju með árangurinn. Nánar má lesa um keppnina hér.

Skólastarf á tímum hertra sóttvarnarreglna

Nýlega voru gefnar út hertar sóttvarnarreglur og í ljósi þeirra verður kennsla áfram með sama hætti og síðustu vikur, þ.e. kennt gegnum rafrænt kennsluumhverfi skólans. Núverandi reglur gilda til og með 17. nóvember og komi til breytinga á kennslufyrirkomulagi þá verða upplýsingar settar á heimasíðuna, facebook og sendar á nemendur.