Launa- og jafnlaunastefna

Launastefna MH

Markmið Menntaskólans við Hamrahlíð er að búa starfsfólki sínu góð launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu. Skólinn greiðir laun samkvæmt kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga og í samræmi við kröfur sem starfið gerir um hæfni, ábyrgð og álag. Laun starfsfólks  eru enn fremur ákveðin með hliðsjón af stofnanasamningum við viðkomandi stéttarfélög.  Að því leyti sem kjara- og stofnanasamningar veita svigrúm til umbunar umfram lágmarkskjör skulu forsendur launaákvarðana studdar rökum, vera gagnsæjar og tryggja að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf. Rektor ber ábyrgð á launastefnunni, að henni sé framfylgt og að starfsfólki skólans sé kunnugt um hana. Jafnlaunastefna MH er órjúfanlegur hluti launastefnunnar.

Jafnlaunastefna MH

Markmið Menntaskólans við Hamrahlíð er að starfsfólk óháð kyni njóti sömu launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun og ákvörðun um aukastörf mega ekki fela í sér kynjamismunun eða aðrar ómálefnalegar ástæður.

Til þess að ná því markmiði mun skólinn:

  • Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem í gildi eru hverju sinni og snúa að þeirri meginreglu að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
  • Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012, í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008, sbr. lög nr. 56/2017.
  • Skapa umgerð til að setja fram og rýna jafnlaunamarkmið með því að skjalfesta jafnlaunakerfið, viðhalda því og tryggja stöðugar umbætur, eftirlit og viðbrögð.
  • Framkvæma launagreiningu einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf til þess að kanna hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
  • Vinna eftir verklagsreglum sem fjalla um viðbrögð við óútskýrðum launamun.
  • Framkvæma innri úttekt á jafnlaunakerfinu.
  • Láta fara fram árlega rýni æðstu stjórnenda á hlítingu við lög og reglur um jafnlaunakerfi.
  • Kynna stefnuna árlega fyrir starfsmönnum skólans. Stefnan skal einnig vera aðgengileg almenningi á heimasíðu skólans. 

Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu Menntaskólans við Hamrahlíð.

Síðast uppfært: 18. febrúar 2020