Fréttir

Gleðilega vorönn - stundatöflurnar eru tilbúnar

Stundatöflurnar eru tilbúnar í Innu og sýnilegar þeim sem greitt hafa skólagjöldin. Nýir greiðslulistar eru keyrðir inn að morgni dags virka daga og opnast stundatöflur í kjölfarið. Nýnemar vorannar geta sótt um töflubreytingar hjá námstjórum eftir kynningarfundinn 5. janúar. Aðrir nemendur sem telja sig þurfa töflubreytingu eiga að sækja um sem allra fyrst í gegnum Innu. Leiðbeiningar um það eru í Innu undir Aðstoð. Breyttar töflur birtast í Innu eftir því sem þær vinnast. Ef töflubreytingu er hafnað þá er það oftast vegna þess að hópar eru fullir. Ekki er hægt að sækja um P-áfanga í töflubreytingum. Þeir sem hafa sótt um P-áfanga ættu að fá þá inn eftir fyrstu kennsluvikuna. Hægt er að senda inn beiðni um töflubreytingu til og með þriðjudeginum 5. janúar. Eftir það þarf að fara til námstjóra eða áfangastjóra til að breyta töflum. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 6. janúar kl. 9:00. Námsgagnalisti/bókalisti er aðgengilegur í Innu. 

Opnunartími skrifstofu fram að byrjun vorannar / Opening hours of the school until beginning of spring semester

Skrifstofan skólans verður lokuð frá og með 23. desember til og með 3. janúar 2021. Þann 4. janúar verður skrifstofan opin frá 10:00-15:00. Nýnemar vorannar koma í skólann 5. janúar kl. 13:00. Kennsla hefst miðvikudaginn 6. janúar kl. 9:00 skv. stundaskrá en nánari upplýsingar verða birtar á heimasíðunni þegar nær dregur en stundatöflur nemenda verða birtar 30. desember. Við þökkum fyrir árið sem er að líða og óskum öllum gleðilegra jóla.

116 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum við Hamrahlíð

Í dag voru brautskráðir 116 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af fjórum námsbrautum. Að þessu sinni útskrifuðust flestir af opinni braut eða 80 nemendur, 22 af náttúrufræðibraut, 11 af félagsfræðabraut og 3 af málabraut. Brautskráningin fór fram í samræmi við sóttvarnarreglur. Nemendur gengu í 10 manna hópum úr kennslustofum inn á Miklagarð til að taka á móti skírteinum. Athöfninni var streymt svo að fólk heima í stofu gæti horft á. Tveir nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn var yfir 9,00. Hekla Martinsdóttir Kollmar var dúx skólans. Hún útskrifaðist af opinni braut með 9,33 í meðaleinkunn. Hekla hlaut einnig verðlaun fyrir ágætan námsárangur í frönsku og íslensku. Semidúx var Ragnheiður M. Benediktsdóttir sem útskrifaðist af opinni braut með 9,24 í meðaleinkunn. Hún hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í dönsku og íslensku. Þess má geta að dúx og semidúx voru með íslensku sem fyrstu kjörgrein á opinni braut. Aðrir sem hlutu verðlaun voru: Eygló Rut Hákonardóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur félagsgreinum. Maia Snorradóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur í spænsku. Ragnheiður Helga Guðjónsdóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur í líffræði. Sylvía Frans Skúladóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur í þýsku og jarðfræði. Ávörp fyrir hönd nýstúdenta fluttu þau Jökull Ingi Þorvaldsson og Móeiður Una Ingimarsdóttir. Nýstúdentar fluttu tónlist undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Myndir og fréttir frá athöfninni er að finna inni á facebooksíðu MH. Við óskum öllum gleðilegra jóla og nýstúdentum til hamingju með áfangann.

Brautskráning 19. desember kl. 13:00

Brautskráning nemenda verður laugardaginn 19. desember kl. 13:00. Að þessu sinni útskrifast tæplega 120 nemendur af fjórum námsbrautum. Flestir útskrifast af opinni braut, þ.e. 80 nemendur. Vegna sérstakra aðstæðna er útskriftarnemendum dreift í 10 stofur og munu þeir ganga í hópum inn á Miklagarð þar sem þeir taka á móti skírteinum. Athöfninni er varpað á skjá í hverri stofu þar sem útskriftarefnin fylgjast með athöfninni.

Einkunnir og staðfesting á vali/Grades and Course selection day

Einkunnir verða birtar eftir kl. 16:00 í dag. Þá opnast einnig fyrir að nemendur geti staðfest valið sitt fyrir vorönn 2021. Staðfestingu þarf að vera lokið fyrir kl.14:00 á morgun miðvikudaginn 16 .desember. Nánir upplýsingar um prófsýningu og staðfestingu vals fyrir vorönn má finna hér. Greiðsluseðill fyrir greiðslu skólagjalda vorannar verður sendur út á morgun. Eindaginn er 28.12 2020 og eftir hann leggst á vanskilagjald kr. 1500.

Framtíðarsýn um geðheilbrigðismál

Á þingi heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum talaði Bóas Valdórsson sálfræðingur í MH um að við myndum aldrei láta einstakling bíða í eitt til eitt og hálft ár til að athuga hvort hann væri beinbrotinn. Bóas tiltók þar fimm atriði sem hann myndi vilja sjá verða að veruleika eftir tíu ár, árið 2030, varðandi þróun geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk. Þau eru: Sálfræðiþjónusta í alla framhaldsskóla, efling stoðþjónustu í framhaldsskólum, að fjárhagur verði ekki fyrirstaða fyrir ungt fólk sem þarf geðheilbrigðisþjónustu, aðgengi að greiningum á ADHD og námserfiðleikum yrði bætt og að uppfæra yrði þau sálfræðilegu mælitæki sem notuð eru hér á landi. Nánar má lesa um fyrirlesturinn á vef rúv.

Prófin hafin

Jólaprófin eru hafin og eru öll lokapróf rafræn heimapróf þessi jólin, nema fyrir IB nemendur. Fagkennarar, prófstjóri og náms- og starfsráðgjafar sitja saman í stofu 12 og fylgjast með þegar nemendur streyma í rafrænu prófin. Ef nemendur eru ekki mætt tímanlega þá er hringt í þau og þau hvött til að skella sér í próf. Við minnum á að veikindaskráningar fara fram í Innu og að senda prófstjóra póst ef eitthvað er ekki rétt í ykkar próftöflu. Gangi ykkur sem best í prófunum og við sendum hlýjar kveðjur héðan úr Hamrahlíðinni.