Öryggismyndavélar (rafræn vöktun)

Rafræn vöktun með öryggismyndavélum í og við húsnæði MH byggir á lögmætum hagsmunum og er metin nauðsynleg í öryggis- og eignavörsluskyni. Tilgangur vöktunarinnar er að varna því að eigum sé stolið, þær skemmdar eða farið sé um húsnæði skólans í leyfisleysi.

Öryggismyndavélarnar eru 13 talsins. Þær eru staðsettar við innganga, á göngum skólans og á Matgarði. Lóð skólans er einnig vöktuð á völdum stöðum. Sérstakar merkingar eru við innganga skólans til að þeir sem eiga leið um húsnæðið viti af tilvist myndavélanna.

Myndefni sem verður til við vöktun er vistað á sérstökum netþjóni sem rektor, konrektor, kerfisstjóri og tæknistjóri hafa aðgang að. Myndefnið er eingöngu skoðað ef upp koma atvik sem varða eignavörslu eða öryggi, s.s. ef þjófnaður hefur átt sér stað, skemmdarverk eða slys. Myndefnið er geymt í 7 daga og eyðist sjálfkrafa. Myndefni sem verður til við vöktun er ekki afhent öðrum og ekki unnið með það nema með samþykki þess sem upptakan er af eða með heimild Persónuverndar. Undantekning frá þessu er að heimilt er að afhenda lögreglu upptökur, varði þær upplýsingar um slys eða refsiverða háttsemi, eins og kveðið er á um í reglum nr. 50/2023 um rafræna vöktun.

Síðast uppfært: 28. apríl 2023