Skólasóknarreglur

Skólasóknarreglur frá og með haustönn 2023

Meginregla

  • Nemendur skulu mæta stundvíslega í allar kennslustundir og próf nema réttmæt forföll hamli.
  • Lágmarksmæting, eftir að tekið hefur verið tillit til veikinda og/eða leyfa, er 90%. (Sjá nánari reglur um veikindaskráningar hér neðar).

Reglur um lágmarksmætingu í hvern áfanga

  • Ef raunmæting nemanda í áfanga er undir 60% þegar fimm vikur eru liðnar af önninni telst nemandi fallinn í áfanganum og verður skráður hættur.
  • Ef raunmæting nemanda í áfanga er undir 70% þegar tíu vikur eru liðnar af önninni telst nemandi fallinn í áfanganum og verður skráður hættur.
  • Vegna sérstakra aðstæðna nemenda er heimilt að víkja frá reglu um raunmætingu.

Almennar reglur varðandi veikindi nemenda

Veikindatilkynningar eru gerðar í Innu:

  • Veikindi skal skrá samdægurs. Ekki er hægt að færa inn veikindi aftur í tímann.
  • Forsjáraðilar nemenda yngri en 18 ára skrá veikindi en nemendur 18 ára og eldri geta sjálf skráð veikindi.

Kennari skráir fjarveru nemenda í Innu með bókstafnum F. Hafi veikindi verið tilkynnt bætist bókstafurinn V við skráninguna og þar með telst fjarveran útskýrð. Góð regla er að nemendur geri kennurum sínum grein fyrir fjarveru úr tíma, næst þegar þau mæta, þar sem fjarveran gæti t.d. haft áhrif á verkefnaskil.

Vottorð og veikindatímabil:

  • Ekki þarf að skila læknisvottorðum vegna tilfallandi veikinda.
  • Vottorð vegna langtímaveikinda, sem og greiningar, eiga að berast til náms- og starfsráðgjafa.
  • Nemendur sem geta ekki tekið þátt í íþróttum, t.d. vegna tímabundinna meiðsla, skulu skila læknisvottorði til íþróttakennara.
  • Ef samanlögð veikindi á einni önn fara fram yfir 12 skóladaga ber nemanda að gera náms- og starfsráðgjafa grein fyrir aðstæðum sínum.

Fjarvera vegna veikinda útilokar ekki ein og sér nemanda frá því að þreyta lokapróf. Nemandi sem aðeins getur sótt skólann að hluta vegna langvarandi veikinda þarf að hafa nána samvinnu við náms- og starfsráðgjafa um skipulagningu námsins.

Leyfi

Fjarvera vegna leyfa er á ábyrgð nemenda og ekki er hægt að ætlast til tilhliðrunar á námsmati eða verkefnaskilum vegna hennar. Nemandi skal upplýsa kennara tímanlega um væntanlegt leyfi.

Almennt skal sækja um leyfi úr skóla í gegnum Innu:

  • Forsjáraðilar sækja um leyfi fyrir nemendur yngri en 18 ára.
  • Nemendur 18 ára og eldri geta sótt um leyfi.
  • Þegar sótt er um leyfi þarf alltaf að tilgreina ástæðu.

Sérstakar tegundir leyfa:

  • Sótt er um leyfi vegna starfa fyrir NFMH hjá félagsmálafulltrúa.
  • Afreksfólk, t.d. í listdansi, íþróttum, tónlist o.fl., getur sótt um leyfi frá skólasókn til áfangastjóra, vegna þátttöku í viðburðum.

Skólasóknareinkunn

Gefin er einkunn fyrir skólasókn á hverri önn. Einkunnin ákvarðast bæði af tímasókn og stundvísi og er óútskýrð fjarvera úr kennslustund metin til jafns við að koma þrisvar of seint.

Skólasóknareinkunn er gefin sem hér segir eftir að tekið hefur verið tillit til veikinda og/eða leyfa:

  • Staðið, S, 90%-100% skólasókn.
  • Fallið, F, undir 90% skólasókn.

ATH- Ef nemandi fær V í skólasókn, þá þýðir það að búið er að skoða og rýna mætingu nemandans með tilliti til mikilla veikinda viðkomandi.

Fall á önn
Nemandi telst fallinn á önn ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:

a) Nemandi nær ekki lágmarksfjölda eininga, þ.e. 15 einingum.
b) Nemandi fellur í skólasókn.
c) Nemandi hættir í skóla áður en önn er lokið.

Nemanda er skylt að eiga fund með náms- og starfsráðgjafa fyrir upphaf næstu annar og gera vinnuáætlun fyrir námið á komandi önn. Sé nemandi undir 18 ára aldri kemur forsjáraðili með á þann fund.

Sérreglur
Deildir hafa heimild til að setja sérstök ákvæði um mætingu og aðra ástundun. Slík ákvæði skulu tilgreind í námsáætlunum einstakra áfanga. Brot á slíkum ákvæðum jafngilda falli í viðkomandi áfanga.

Síðast uppfært: 07. desember 2023