Kennslustefna

Kennslustefna MH

Kennslustefna MH byggir á fjölbreytni og framsækni, bæði hvað snertir nám og kennslu. Kennarar eru hvattir til þess að vera sívirkir í þróunarstarfi og stefna skólans er að hlúa að nýbreytnistarfi á vegum einstakra kennara og kennarahópa bæði með fjárhagslegum og faglegum stuðningi.

Áfangakerfið gegnir veigamiklu hlutverki í skólastarfinu, bæði hvað varðar ábyrgð nemenda og fjölbreytni námsins. Nemendur skipuleggja sjálfir áfangaval sitt að því marki sem framboð og undanfarareglur leyfa. Þeir geta haft áhrif á framboð valáfanga og komið með hugmyndir að nýjum áföngum. Þá gefst nemendum einnig kostur á að ljúka áfanga án þess að sitja kennslustundir og að vinna sjálfstæð verkefni sem telja til eininga.

Framboð valáfanga miðar annars vegar að því að gefa kost á breidd í námi og hins vegar dýpkun á afmörkuðu sviði, t.d. með tilliti til áætlaðs háskólanáms.

Leitast er við að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og virkja nemendur bæði í skóla og heima fyrir. Nám nemandans er í brennidepli sem og ábyrgð hans á eigin námi.

Tölvunotkun og upplýsingatækni koma við sögu í flestum námsgreinum og leggur skólinn áherslu á greiðan aðgang nemenda að tölvum í skólanum. Heimildaöflun, ritgerðir, verkefnavinna, tilraunir og notkun kennsluforrita eru órofa hluti námsins.

Í nær öllum áföngum byggist námsmat bæði á vinnu nemandans yfir önnina og lokaverkefni eða lokaprófi í annarlok.

Síðast uppfært: 11. janúar 2022