Næring, hreyfing, geðrækt og lífsstíll

Áhersluþættir heilsustefnu MH eru næring, hreyfing, geðrækt og lífsstíll

Næring

Markmið:
Holl fæða skal vera í boði í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Markmiðið er að stuðla að aukinni vitund um gildi næringar fyrir líkamlega og andlega heilsu.

Leiðir að markmiðum:

  • bjóða upp á næringarríkan mat í mötuneyti nemenda og starfsmanna
  • takmarka aðgengi að sætindum og gosi
  • bjóða upp á gjaldfrjálsan hafragraut á morgnana fyrir nemendur og starfsfólk
  • efla vitund nemenda um gildi næringar með fræðslu og uppákomum
  • bjóða upp á grænmetis- og veganrétti

Hreyfing

Markmið:
Hvatt er til hreyfingar og heilsusamlegs lífernis í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Markmiðið er að auka vitund um gildi hreyfingar fyrir heilsu, líðan og árangur auk þess að hvetja alla til að gera hreyfingu að daglegum lífsstíl.

Leiðir að markmiðum:

  • nemendur og starfsfólk er hvatt til að hreyfa sig markvisst og reglulega til dæmis með því að taka þátt í ýmsum  hreyfiviðburðum eins og Hjólað í skólann/vinnuna og Lífshlaupinu
  • bjóða upp á fræðslu um jákvæð áhrif hreyfingar
  • bjóða upp á hreyfitengda viðburði eins og Gleðihlaup
  • hafa hjólagrindur og hjólaskýli við skólann
  • að fjalla um þátttöku nemenda og starfsfólks í hreyfitengdum viðburðum t.d. á heimasíðu skólans
  • að hvetja starfsmenn og nemendur til að nota heilsueflandi og umhverfisvæna ferðamáta til og frá skóla
  • að hvetja starfsfólk til að nýta sér líkamsræktarstöðu skólans utan vinnutíma

Geðrækt

Markmið:
Í Menntaskólanum við Hamrahlíð leggja allir sitt af mörkum til að efla góðan skólabrag. Markmiðið er að samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu og umburðarlyndi. Skólabragurinn endurspeglar virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og að hver einstaklingur fái tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum.

Leiðir að markmiðum:

  • bjóða upp á fræðslu og umræðu um jákvæð samskipti, líðan og geðrækt
  • miðla upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsfólks um hvert sé hægt að leita ef vandi steðjar að
  • gera eineltisstefnu skólans sýnilega
  • að virk námsráðgjöf og sálfræðiþjónusta sé við skólann
  • að nemendur fái aðstoð ef halla fer undan fæti í námi t.d. með stuðningshópum og viðtölum (við áfangastjóra, námsráðgjafa, sálfræðing eða aðra)
  • hafa námskeið og úrræði í boði sem stuðla að bættri líðan eins og prófkvíðanámskeið
  • að í skólanum sé aðgengilegt efni um möguleg úrræði vegna geðheilsu
  • bjóða upp á fræðslu sem eykur víðsýni og meðvitund t.d. frá ákveðnum hópum eins og Samtökunum 78

Lífsstíll

Markmið:
Í Menntaskólanum við Hamrahlíð gefst öllum kostur á að tileinka sér hollan og heilsusamlegan lífsstíl. Reynt er að stuðla að aukinni meðvitund um gildi heilsuræktar í víðum skilningi. Lögð er áhersla á að nemendum og starfsfólki skólans líði vel og taki upplýsta ákvörðun um hvaða lífsstíl þeir velja sér.

Leiðir að markmiðum:

  • að leggja áherslu á samfélagsvitund nemenda t.d. með verkefnum í lífsleikni, góðgerðadögum og þátttöku á lagningardögum
  • að jafnréttisstefna skólans sé sýnileg
  • að skólinn taki þátt í verkefnum tengdum umhverfisvitund t.d. Grænfánaverkefni skólans
  • að stuðla að forvarnafræðslu fyrir nemendur og starfsfólk
  • að forvarnafulltrúi sé virkur og forvarna- og heilsustefna skólans sýnileg
  • að bjóða upp á fræðslu og ráðgjöf sálfræðings og náms- og starfsráðgjafa
  • að skólinn sé tóbaks-, áfengis- og vímuefnalaus vinnustaður
  • að stuðla að heilbrigðri tölvunotkun
Síðast uppfært: 19. janúar 2022