Fréttir og tilkynningar

MH í öðru sæti í Leiktu betur

03.11.2025
MH tók í gær þátt í Leiktu betur og lenti lið skólans í öðru sæti. Saga Davíðsdóttir fékk einnig verðlaun sem leikkona kvöldsins, en lið MH skipuðu ásamt Sögu, Alda Örvarsdóttir, Bjarki Ingason og Halldór Gauti Tryggvason. Á hverju ári keppa framhaldsskólar landsins í leikhúsisporti og spuna undir merkjum Leiktu betur. Keppnin er einn af viðburðum Unglistar, listahátíðar ungs fólks sem er vettvangur fyrir ungt upprennandi listafólk. Keppnin í gær var haldin í Tjarnarbíói. Við óskum Öldu, Bjarka, Halldóri Gauta og Sögu innilega til hamingju með árangurinn.

MH í Leipzig

02.11.2025
Í mars fengum við í MH heimsókn frá þýskum nemendum frá Leipzig og í haustfríinu var komið að MH-ingum að heimsækja Þýskaland. Þýskudeildin sótti um Erasmus-styrk til fararinnar og sóttu 9 nemendur um að taka þátt. Ferðin gekk framar vonum og innsiglaði enn betur tengslin á milli nemendanna síðan í vor.

Opið fyrir umsóknir um skólavist fyrir vorönn 2026

30.10.2025
Þeir nemendur sem hafa hug á að sækja um skólavist í MH fyrir næstu önn geta gert það núna. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í gegnum Ísland.is og er hægt að sækja um skólavist út nóvember. Kynningarefni er aðgengilegt á heimasíðunni og hvetjum við ykkur öll til að skoða það vel. Einnig er hægt að kíkja í heimsókn og ræða við okkur um möguleikana sem eru í boði í MH. Kynningar á áföngum sem verða í boði á næstu vorönn má finna á heimasíðunni.

Nemendur vilja og ráða við flókin verkefni

29.10.2025
Framhaldsskólanemendur vilja láta gera kröfur til sín og þeir ráða við erfið og flókin verkefni, líkt og lestur bóka á borð við Sjálfstætt fólk, fái þeir stuðning til þess og öruggt umhverfi til að prófa sig áfram. Þetta segir Halldóra Björt Ewen í viðtali við Morgunblaðið sem birtist 14. október sl.

Ófærð í og við MH - kennsla hefst kl. 12:50

29.10.2025
Við seinkum kennslu þar til kl. 12:50 þar sem ófærð er mikil í kringum MH og planið hefur ekki verið mokað. Skólinn er opinn og hér er hlýtt.

Haustfrí í MH

23.10.2025
Föstudaginn 24. október hefst langþráð haustfrí starfsfólks og nemenda MH. Við hvetjum ykkur öll til að nota fríið til að endurnærast fyrir lokatörnina fram að prófum sem hefjast 1. desember. Skrifstofan verður lokuð og opnum við aftur miðvikudaginn 29. október. Njótið haustfrísins.

Kór MH og Kammerkórinn Huldur héldu tónleika í Háteigskirkju

20.10.2025
BRÁTT MUN BIRTAN DOFNA - Kór Menntaskólans við Hamrahlíð (103) og Kammerkórinn Huldur (32) kvöddu haustið í gær með tónleikunum í Háteigskirkju. Sérstakir gestir voru einsöngvararnir Kristjana Stefánsdóttir og Hafsteinn Þórólfsson. Frumflutt var kórverk eftir Arvid Ísleif, Oddný Þórarinsdóttir kom fram sem einsöngvari og píanómeðleikari í lokaverki tónleikanna var Erlendur Snær Erlendsson. Uppselt var á tónleikana og voru gestir í skýjunum á eftir.

Fylgdu okkur á Instagram @menntaskolinn_hamrahlid