Ábendingar um námsval eftir fyrstu önn (fyrir nýnema)

 Námsval nemenda á hverri önn takmarkast einkum af fernu:

  1. Undanfarareglum
  2. Áföngum brautar  
  3. Þrepaskilyrðum
  4. Áföngum í boði

Áfangakerfið setur litlar formlegar skorður við því í hvaða röð nemendur taka námsgreinarnar. Hins vegar er þeim eindregið ráðlagt að gera í upphafi áætlun um allt námið – og endurskoða síðan eftir þörfum. Til dæmis er brýnt að hefja snemma nám í grein með mörgum skylduáföngum (svo sem ensku eða þriðja máli á málabraut eða stærðfræði á náttúrufræðibraut). Eins er rétt að huga snemma að sérgreinum- og vali á hverri braut. Huga þarf að kjörgreinum á opinni braut sem fyrst eftir að fyrsta ári lýkur og þurfa nemendur að láta umsjónarkennarann sinn vita hverjar þær eiga að vera. Suma valáfanga er ekki unnt að stunda fyrr en að loknu talsverðu grunnnámi í viðkomandi námsgrein.

Ýmsir áfangar eru ekki í boði á öllum önnum, og nemandi sem hyggst taka slíka áfanga þarf að taka mið af því í áætlunum sínum.

Til þess að hefja nám í áfanga er skylt að hafa lokið ákveðnu námi. Það kallast undanfari. Um fyrstu áfangana í flestum greinum gildir að nóg er að hafa lokið grunnskólaprófum en þó eru í sumum áföngum gerðar kröfur um undanfara úr öðrum námsgreinum, t.d. er ætlast til að nemendur hafi lokið 2 áföngum í stærðfræði áður en þeir hefja nám í EÐLI2AA05. Innan hverrar greinar segir áfangaröðin oftast til um undanfara og t.d. er skylt að hafa lokið ÍSLE2AA05 áður en tekið er til við ÍSLE2BB05.

Í áfangaframboði er jafnan tekið fram í lýsingu hvers áfanga hver undanfarinn er. Nemendur eru beðnir að gefa sérstakan gaum að undanfarareglum við val sitt; ef brýna nauðsyn ber til m.t.t. áætlaðra námsloka er unnt að veita undanþágu frá undanfara. Sótt er um undanþágu frá undafara á heimasíðu skólans.

Þegar nær dregur stúdentsprófi og nemendur fara af alvöru að hugsa fyrir framhaldinu er sjálfsagt að athuga hvort einhverjir þeir valáfangar sem í boði eru henti sem undirbúningur fyrir háskólanám eða starf að loknum menntaskóla. Stundum er á þetta bent í áfangalýsingum en einnig er gott að spyrja náms-og starfsráðgjafa, námstjóra eða kennara ráða í þessu efni.Síðast uppfært: 14. júní 2023