Fjölnámsbraut

Fjölnámsbraut

Fjölnámsbraut MH er fyrir nemendur sem notið hafa verulegrar sérkennslu í grunnskóla og þurfa einstaklingsmiðað nám. Markmið brautarinnar er að auka sjálfstæði, ábyrgð og frumkvæði nemenda. Unnið er út frá styrkleikum hvers og eins með áherslu á að efla sjálfsmynd þeirra. Námið er á fyrsta þrepi og byggir á almennri og hagnýtri þekkingu sem miðast við stöðu hvers og eins. Nám á fjölnámsbraut er fjögur ár að því gefnu að nemendur ástundi námið. Á brautinni gilda almennar skólareglur MH og fylgir starfsemi brautarinnar skóladagatali skólans. Nemendur á fjölnámsbraut útskrifast með framhaldsskólapróf að þessum fjórum árum liðnum.

  • Nemendum er að miklu leyti kennt saman inn á brautinni en þar sem því verður við komið sækja þeir nám á öðrum brautum í einstökum áföngum. Mikið er lagt upp úr að brautin sé hluti af skólaheildinni. 
  • Kennslan er byggð á námsáætlun fyrir nemendahóp eða einstakling. Hún er unnin út frá námskrá ásamt upplýsingum um þarfir og óskir nemenda og mati á stöðu þeirra í námi.
  • Námið er einstaklingsmiðað og því geta áherslur og þátttaka nemenda í áföngum verið mismunandi á tímabilinu. 
  • Í boði er, auk kjarnagreina, nám í listgreinum, hússtjórn, íþróttum og heilsueflingu, upplýsingatækni og lífsleikni.
  • Nemendur sem hafa getu og hæfni eru hvattir til að sækja áfanga á öðrum brautum skólans.
  • Nemendur sækja kennslustundir á öðrum brautum án stuðnings og taka samhliða áfanga í námsstuðningi þar sem þeir nýta tímana til að vinna heimanám í þeim áföngum sem þeir eru skráðir í.
  • Kennarar brautarinnar veita nemendum námsstuðning, aðstoða þá við að halda utan um námið og eru í samskiptum/samvinnu við viðkomandi fagkennara.

 

Forsenda fyrir inntöku nemanda á brautina er að greining sérfræðinga fylgi umsókn. 

Innritun fer fram á vef Menntamálastofnunar og er innritunartímabil í febrúar ár hvert.

 Nánari upplýsingar veitir Linda Dröfn Jóhannesdóttir, linda@mh.is

Síðast uppfært: 26. janúar 2023