Fréttir

Fyrsta gangan

Í MH eru í boði margar gerðir af líkamsræktaráföngum. Einn þeirra er fjallgönguáfangi þar sem nemendur kynnast hinum ýmsu gönguleiðum sem umhverfi borgarinnar hefur upp á að bjóða. Miðvikudaginn 7. september var lagt af stað í fyrstu göngu vetrarins og var förinni heitið í Búrfellsgjá. Hópurinn var einstaklega heppinn með veður og náttúran skartaði sínu fegursta.

Brunaæfing

Brunaæfing var haldin í MH síðasta miðvikudag. Brunakerfið fór í gang upp úr kl. 9 og þegar búið var að slökkva á því fór það strax aftur í gang og þá vitum við í MH að við eigum að rýma húsið eins hratt og við getum. Rýming tók 4 mínútur og 15 sekúndur og erum við nokkuð sátt við það. Eftir æfinguna var farið yfir ferlana og þeir endurbættir fyrir næstu æfingu eða ef raunverulega hættu ber að garði. Við vonum að svo verði ekki en ef svo verður þá erum við viðbúin. Rýmingaráætlun skólans má finna á heimasíðu skólans ásamt öðrum stefnum og áætlunum.

Norðurkjallari í góðum höndum

Norðurkjallari er félagsaðstaða nemenda í MH og þar er hægt að vera og hafa það notalegt í góðra vina hópi. Stjórn NFMH hverju sinni, hefur umsjón með Norðurkjallara og sér um að halda utanum alla starfsemi sem þar fer fram. Í dag skrifuðu Hrefna Tryggvadóttir forseti nemendafélagsins og Steinn rektor undir samning þess efnis. Nokkrir viðburðir hafa nú þegar litið dagsins ljós í Norðurkjallara tengdir nýnemaviku og kynningum á félagslífinu.

Kynningarfundur í kvöld 30. ágúst

Stjórnendur MH bjóða foreldrum og aðstandendum nýnema til kynningarfundar í skólanum í kvöld þriðjudaginn 30. ágúst kl. 17:30. Dagskrá fundarins er sýnileg hér fyrir neðan og eftir dagskrá á Miklagarði er öllum boðið að fara í kennslustofur með umsjónarkennurum MH-inganna og heyra meira um starfið í MH. Athugið að örlitlar breytingar hafa verið á stofum frá því póstur var sendur út í síðustu viku.

Hafragrauturinn

Fyrsti hafragrautur haustannar var framreiddur í MH í dag og vakti mikla gleði hjá öllum. Grauturinn er nú borinn fram í fyrsta skipti í margnota skálum. Með grautnum er hægt að fá ýmiskonar útálát eins og kanil, salt, mjólk eða soyamjólk. Grautinn eiga nemendur að borða á Matgarði eða Miðgarði og setja svo skálar á þar til gerða vagna eða borð við enda salanna eftir að þau hafa klárað grautinn.

Dagskrá nýnemaviku 22.-26. ágúst

Nemendafélag MH, NFMH, heldur úti þéttskipaðri dagskrá fyrir nýnema vikuna 22.-26. ágúst. Dagskráin er eftirfarandi: MÁNUDAGUR - 22. ÁGÚST: Hádegi: Kökusala og bollasala á Matgarði. Kvöld: LEYNIKVÖLD í Norðurkjallara. ÞRIÐJUDAGUR - 23. ÁGÚST: Hádegi: BUSARAVE í Undirheimum. MIÐVIKUDAGUR - 24. ÁGÚST: Hádegi: Karaoke á Matgarði. Kvöld: BUSADJAMM í Norðurkjallara. FIMMTUDAGUR - 25. ÁGÚST: Eftir skóla: Skotbolti í íþróttahúsinu. FÖSTUDAGUR - 26. ÁGÚST: BUSAFERÐ, mæting hjá rútum kl 12:30 og brottför kl 13:00. Athugið að um dagsferð er að ræða (ekki gisting). Nánari upplýsingar um nýnemaferðina voru sendar á nemendur og aðstandendur í dag.

Stöðumat

Stöðumat fyrir nemendur MH í ensku, frönsku, ítölsku, japönsku, spænsku og þýsku verður haldið fimmtudaginn 25.8. kl. 16.00. Skráning fer fram hjá Jóhönnu Guðrúnu Gunnarsdóttur, námstjóra erlendra tungumála jog@mh.is.

Tvíþátta auðkenni og Office 365

Áður en nemendur skólans setja upp Office365 hugbúnaðarpakkann þurfa allir að virkja tvíþáttaauðkenni. Eldri nemendur gerðu það á síðustu önn en nýir nemendur þurfa að gera það núna. Leiðbeiningar um það má finna á heimasíðunni. Eftir það geta nemendur fylgt leiðbeiningum um Office 365 pakkann. Nemendur hafa verið að lenda í vandræðum en vonandi fá allir lausn sinna mála.

Skólasetning og upphaf kennslu fimmtudaginn 18. ágúst kl. 9:00

Skólasetning er kl. 9:00 á Miklagarði fimmtudaginn 18. ágúst og í kjölfar skólasetningar hefst kennsla. Á skólasetningu munu rektor og forseti NFMH flytja stutt ávörp. Við hvetjum alla nemendur skólans til að fjölmenna á Miklagarð og fagna upphafi skólaársins.

Stundatöflur tilbúnar í Innu

Stundatöflur eru núna sýnilegar í Innu. Endilega lesið vel pósta sem sendir hafa verið á alla nemendur skólans og má einnig finna hér á heimasíðunni undir Skólinn. Gleðilega haustönn 2022.