21.04.2012
Sýnt verður beint frá Söngkeppni framhaldsskólanna á RÚV í kvöld. Nemendur MH eru meðal 12 efstu keppenda og hér má
sjá myndband MH. Flytjandi/endur: Karen Andreassen Þráinsdóttir, Guðmundur Þórir Hjaltason,
Bryndís Þorleifsdóttir, Ása Kolbrún Ásmundsdóttir, Elín Sigurvinsdóttir, Þórey Unnur Árnadóttir, Ingvar Haukur
Jóhannsson. Vel gert!
20.04.2012
Í dag fengu samtökin Göngum saman afhentar 250 þúsund krónur til stuðnings grunnrannsóknum á
brjóstakrabbameini. Formaður félagsins Gunnhildur Óskarsdóttir tók við framlaginu og var þakklát nemendum fyrir stuðning við
þetta mikilvæga málefni.
20.04.2012
Í dag tóku fulltrúar skólans við silfurviðurkenningu í næringarhluta átaksins Heilsueflandi
framhaldsskóli. Karen María Magnúsdóttir forseti nemendafélags MH og Áshildur Arnarsdóttir verkefnisstjóri átaksins í MH
tóku við viðurkenningunni úr hendi Héðins Svarfdal Björnssonar frá Lýðheilsustöð. Vel gert MH-ingar!
12.04.2012
Próftafla nemenda fyrir vorönn 2012 er nú aðgengileg í Innu.Hægt er að sjá próftöfluna með því að fara í Innu
og smella á Próftafla á lista vinstra megin.
Athugið að próftaflan er einungis aðgengileg í Innu.
Dagskólanemar mega sækja um að hliðra próftöflu sinni ef:
Tvö próf eru á sama tíma
Þrjú próf eru á sama degi
Ef tvö löng próf, lengri en ein klukkustund hvort próf, eru á sama degi.
Ekki er leyft að breyta próftöflu vegna ferðalaga!
Ef þú þarft að láta færa til próf og uppfyllir ofangreind skilyrði getur þú sent prófstjóra tölvupóst.
Umsókn um tilhliðrun ásamt útskýringu þarf að berast í tölvupósti til prófstjóra (gud@mh.is) í síðasta lagi föstudaginn 13. apríl.
29.03.2012
Föstudagurinn 30. mars er síðasti kennsludagur fyrir páska. Í dymbilviku og um páskahelgina verður skrifstofa skólans lokuð. Eftir
páska verður skrifstofan opnuð kl. 8:30 þriðjudaginn 10. apríl. Kennsla hefst aftur að loknu páskaleyfi miðvikudaginn 11. apríl
kl. 8:10.
26.03.2012
Kórinn sem áætlað var að kæmi heim að kvöldi mánudags var veðurteptur á Bíldudal þar sem gist var í
nótt.
Nú er gert ráð fyrir brottför frá Bíldudal um kl. 16, því veður hefur aðeins lægt á
heiðunum í kring, og áætluð heimkoma undir miðnótt.
23.03.2012
Kórinn heldur tónleika í Félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd laugardaginn 24. mars kl. 16.30.
Sunnudaginn 25. mars syngur kórinn við messu kl. 14 í Tálknafjarðarkirkju og um kvöldið kl. 20 verða almennir tónleikar í
Félagsheimili Patreksfjarðar.
Mánudaginn 26. mars heldur kórinn þrenna skólatónleika, fyrir Patreksskóla.Tálknafjarðarskóla og í Bíldudalsskóla en
þeir tónleikar verða haldnir í Bíldudalskirkju.
Aðgangur er ókeypis á alla tónleikana.
Stjórnandi kórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir. Þetta er í fyrsta sinn sem Kór Menntaskólans við Hamrahlíð
heimsækir suðursvæði Vestfjarða. Fararstjóri er Orri Páll Jóhannsson, fulltrúi Reykjavíkurborgar í skólanefnd MH.
Á efnisskrá kórsins í tónleikaferðinni um Vesturland eru íslensk og erlend tónverk m. a. eftir J. S. Bach, E. Grieg, Pál
Ísólfsson, Hallgrím Helgason, Jón Þórarinsson, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Huga Guðmundsson
auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Efnisskráin er svo fjölbreytt að kórinn flytur ólík verk eftir því hvort um er
að ræða t. d. kirkjutónleika eða skólatónleika. Margir hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga.
Á þessari vorönn er Kór Menntaskólans við Hamrahlíð skipaður 88 nemendum á aldrinum 16 - 20 ára.
20.03.2012
Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskólanna var haldin um helgina. Þar komu fram fulltrúar frá fjölmörgum
tónlistarskólum. Níu atriði fengu sérstaka viðurkenningu, þar á meðal strengjakvartett frá Tónlistarskólanum í
Reykjavík. Þá valdi dómnefnd eitt atriði sem þótti skara fram úr og hlaut að launum verðlaunagripinn Nótuna. Þetta var
strengjakvartettinn, sem er skipaður:
Sólveigu Steinþórsdóttur á fiðlu,
Nínu Leu Z. Jónsdóttur á fiðlu,
Rannveigu Mörtu Sarc á víólu og
Geirþrúði Önnu Guðmundsdóttur á selló
Við óskum þeim hjartanlega til hamingju með þennan sigur!
18.03.2012
Nemendur skólans tóku við verðlaunum úr hendi forseta Íslands í dag á Bessastöðum í hugmyndasamkeppni nemenda í
framhaldsskólum um fræðslu- og áróðursefni varðandi umferðaröryggi fyrir jafnaldra þeirra.
Úr frétt af mbl.is (sjá fréttina hér)
Besta ljósmyndin: „Þetta er í raun glæpur“ Sindri Benediktsson, nemandi í MH, bar sigur úr býtum fyrir bestu ljósmyndina. Að mati Umferðarstofu ber ljósmynd Sindra
góðri hugmynd og þekkingu á ljósmyndatækni gott vitni. Það er sérlega eftirtektarvert að Sindri undirstrikar í þessari mynd
það viðhorf að áhættuhegðun í umferðinni sem leiðir til líkamstjóns eða dauða sé í raun glæpur. Þetta
gerir höfundur með því að setja í götuna teikningu af fórnarlambi umferðarslyss líkt og lögregla gerir á vettvangi morðs.
Önnur verðlaun í flokknum besta slagorðið hlaut Hjalti vigfússon en það hljómar svona: Ekki leggja líf þitt í hendur þess sem er kenndur.
Besti skólinn: Menntaskólinn við Hamrahlíð. Varaforseti nemendafélags MH, Sverrir Páll Sverrisson, veitti viðurkenningunni um
besta skólann viðtöku. Menntaskólinn við Hamrahlíð hlaut sérstaka viðurkenningu frá Reykjavíkurborg en að öðrum
ólöstuðum þóttu nemendur skólans sýna sérlega mikinn áhuga á keppninni og frá nemendum MH komu fram mjög
góðar og margar hugmyndir.
15.03.2012
Fimmtudaginn 15. mars verður opið hús í MH frá kl. 17:00-19:00 fyrir grunnskólanema og forráðamenn þeirra.
Haustið 2012 verður innritað á breyttar brautir til stúdentsprófs - opna braut, félagsfræðabraut, málabraut og
náttúrufræðibraut. Sjá upplýsingar hér. Einnig verður innritað á listdansbraut og
IB-braut.
Upplýsingar um umsókn um skólavist, inntökuskilyrði námsbrauta og viðmiðunarreglur MH við inntöku nýnema má finna í
valstikunni hér efst til vinstri.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð mun bjóða gestum upp á kaffi og með því og syngur nokkur lög kl. 18:00.
Meira um opna húsið...