Vorvítamín í MH á Sumardaginn fyrsta: Hamrahlíðarkórarnir kalla á vorið

Vorvítamín
Vorvítamín
Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25.apríl, halda kórarnir í Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur upp á sumarkomu með skemmtun í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð. Kórfélagar kalla skemmtunina Vorvítamín. Kórfélagar, sem eru 111 talsins á þessari vorönn, halda tvenna tónleika. Þeir fyrri hefjast kl.14.00 og hinir seinni hefjast um kl.16.00. Á milli tónleikanna og á eftir verða seldar kaffiveitingar en ágóði af sölu veitinga renna í ferðasjóð Hamrahlíðarkóranna.  Þá verða ýmis skemmtiatriði og uppákomur m.a.leikir fyrir börn,bangsa- og dúkkuspítali, hljóðfærastofa, vísinda- og tilraunastofa, ljósmyndastofa og fatamarkaður. Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir að syngja inn vorið með kórunum í Hamrahlíð. Efnisskrár tónleikanna eiga að vekja með öllum vorhug og sumargleði. Þar er að finna blöndu gamalla gersema og nýrra og m.a. verða flutt nokkur sumar- og ættjarðarlög, sem allir ættu að geta sungið með kórunum.

Kórarnir flytja fjölda tónverka, sem hafa verið æfð á þessu skólaári  s.s.Våren eftir Edvard Grieg og er Álfheiður Erla Guðmundsdóttir einsöngvari, Rhythmische Rondospiele eftir Carl Orff, Til eru fræ eftir Elemér Szentirmay í raddsetningu Snorra S. Birgissonar fyrir karlakór, Íslenskt rapp eftir Atla Heimi Sveinsson fyrir kór og básúnu og einleikari er Bergur Þórisson. Þá verða flutt íslensk og erlend þjóðlög og tónverk eftir Jón Ásgeirsson, Jón Þórarinsson og Þorkel Sigurbjörnsson. Tvö ný tónverk verða frumflutt eftir unga kórfélaga sem eru í tónlistarnámi, Kvöld eftir Steinar Loga Helgason við ljóð Snorra Hjartarsonar og Vorkveðja eftir Örnólf Eldon Þórsson við ljóð Tómasar Guðmundssonar. Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir að syngja inn vorið með kórunum í Hamrahlíð.