20.04.2021
Núna eru tæpar tvær vikur eftir af kennslu og þurfum við að standa saman í því að klára þær hér í MH. Við ítrekum því að allir hugsi um sínar persónulegu sóttvarnir því það er það sem skiptir mestu máli og rektor ítrekaði í pósti til allra í dag.
20.04.2021
MH-ingurinn Ragnhildur Björt Björnsdóttir sigraði í þýskuþraut framhaldsskólanna 2021 en um er að ræða landskeppni í þýsku. Verðlaunin eru tveggja vikna dvöl í Þýskalandi þar sem Ragnhildur Björt mun taka þátt í skemmtilegum verkefnum með nemendum víðsvegar að úr heiminum. Við óskum henni innilega til hamingju með árangurinn.
19.04.2021
Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir nemandi á fyrsta ári í MH fékk verðlaunin Bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum sl. laugardag. Guðlaug Sóley sem kemur fram undir nafninu Gugusar var einnig tilnefnd til verðlauna fyrir bestu raftónlistarplötuna. Við óskum Guðlaugu Sóleyju innilega til hamingju með verðlaunin og tilnefninguna.
16.04.2021
Næsta mánudag, 19. apríl, mætum við öll í MH og tökum staðkennsluna upp aftur. Að vísu fellur kennsla niður fimmtudaginn 22. apríl en þá er sumardagurinn fyrsti. Skólinn er tilbúinn og vonandi allir nemendur líka og við tökum þessar síðustu tvær kennsluvikur með trompi. Góða helgi og sjáumst á mánudaginn.
15.04.2021
Þrír nýir sófar bættust við í Norðurkjallara í dag og bíða spenntir eftir að þjóna nemendum. Steinn rektor og Pálmi áfangastjóri nutu þess að setjast í þá eftir að hafa borið þá inn í skólann. Til hamingju með fínu sófana.
13.04.2021
Lið MH er komið í úrslit í framhaldsskólaleikum Rafíþróttasamtaka Íslands en liðið mætir liði Tækniskólans nk. fimmtudag. Lið MH skipa Guðbjartur Daníelsson, Ísak Jón Einarsson, Jakob Viðar Sævarsson, Katrín Ýr Rósudóttir, Rakel Ása Ingólfsdóttir, Unnar Freyr Sigurðarson, Bjarni Smári Nordby Bjarnason, Karólína Ósk Erlingsdóttir, Stefán Arnar Einarsson, Birkir Steinarsson, Knútur Karl Víðisson og Kristinn Halldórsson. Alls tóku fjórtán skólar þátt í keppninni sem er með útsláttarfyrirkomulagi. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport.
Við óskum liðinu góðs gengis í úrslitum.
13.04.2021
Kennslan í MH verður rafræn frá og með miðvikudeginum 14. apríl til og með föstudeginum 16. apríl. Kennarar munu gefa nemendum allar leiðbeiningar í gegnum Innu og halda uppi kennslu í rafrænu umhverfi. Þetta eru varúðarráðstafanir sem við teljum rétta að grípa til. Bókasafnið er opið frá 8:10 til 16:00 ef nemendur þurfa að nálgast bækur eða prenta út. Náms- og starfsráðgjafar eru til viðtals í gegnum tölvupóst eða síma.
12.04.2021
Nýlega fór fram samkeppni milli nemenda MH um vegglistaverk á gang milli Norðurkjallara og Undirheima. Fjöldi verka barst í samkeppnina og voru verk eftir eftirtalda nemendur valin: Noru Evu Sigurdsson, Hannes Hreim Arason Nyysti, Freyju Stígsdóttur, Elísabetu Maríu Hákonardóttur, Kötlu Björgu Sigurjónsdóttur og Auði Grétu Þórisdóttur. Við óskum þessum nemendum innilega til hamingju með verkin og viðurkenninguna. Í dómnefnd sátu fulltrúar nemenda, kennara og stjórnenda. Alls bárust rúmlega 50 verk í samkeppnina sem staðfestir enn og aftur sköpunarkraftinn sem ríkir á meðal nemenda MH.
08.04.2021
MH-ingurinn Oliver Sanchez sigraði í úrslitum landskeppni í efnafræði en hann sigraði einnig forkeppnina sem fór fram fyrir skömmu. MH-ingurinn Telma Jeanne Bonthonneau varð í fjórða sæti og óskum við þeim innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Oliver stundar nám á IB-braut og Telma Jeanne á náttúrufræðibraut.
Fjórum stigahæstu keppendum er boðin þátttaka í íslenska landsliðinu í efnafræði 2021. Þeir sem þiggja sæti munu taka þátt í 5. Norrænu efnafræðikeppninni sem (vonandi) verður haldin í Reykjavík dagana 19. - 23. júlí og í 53. Alþjóðlegu Ólympíukeppninni í efnafræði sem verður haldin gegnum netið frá Japan, dagana 24. Júlí -1. ágúst 2021.