Fréttir

Mín Framtíð 2019

Dagana 14. - 16. mars standa yfir framhaldsskólakynningar í Laugardalshöll. Þar eru framhaldsskólar landsins að kynna sig og starfsemi sína. Námsráðgjafar verður á svæðinu og taka vel á móti gestum. Miðvikudaginn 20. mars verður svo opið hús í MH frá kl. 17:30 - 19:00

Góður árangur í landskeppni í efnafræði

18. almenna landskeppnin í efnafræði fór fram í framhaldsskólum landsins fimmtudaginn 28. febrúar. Alls tók 141 nemandi þátt, úr sex skólum. Tómas Ingi Hrólfsson hafnaði í 6. sæti og Jón Klausen í 12. sæti. Þeir Tómas Ingi og Jón hafa unnið sér þátttökurétt í úrslitakeppninni sem fer fram í Háskóla Íslands 23.-24. mars nk. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Leikfélag NFMH

Leikfélag NFMH sýnir söngleikinn "Ógleymanlegur söngleikur um ást , dauða og vonbrigði" í MH. Þetta er mjög skemmtileg sýning og hvetjum við alla til að líta við. Sýningin er í MH og miðar eru seldir á tix.is. Nú er rétti tíminn til að skella sér á söngleik. Sýningar standa yfir til 28. mars.

Suðurlandsferð að baki

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð hefur nú lokið tónleikaferð sinni um Suðurland sem lukkaðist vel. Sungið var fyrir aldraða á dvalarheimili á Hellu, fyrir grunnskóla á Hvolsvelli og í Reykholti, Biskupstungum. Sungið var fyrir menntaskólanema á Laugarvatni og haldnir voru tónleikar í Vík, á Selfossi og í Skálholti. Í Skálholti hélt kórinn sameiginlega tónleika með Kór Menntaskólans að Laugarvatni og Kór Kvennaskólans.

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema

Tómas Ingi Hrólfsson, nemandi í MH, vann Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna sem fram fór á laugardaginn. 35 nemendur tóku þátt í keppninni og var sigur Tómasar Inga afgerandi þar sem hann hlaut 59 stig af 60 mögulegum. Til hamingju Tómas Ingi. Nánar má lesa um keppnina á mbl.

Listaverkið Krossá

Óli Hilmar Briem Jónsson arkitekt og málari og eignkona hans Kristín Salóme Jónsdóttir gáfu skólanum málverk eftir Óla Hilmar. Þau útskrifuðust frá MH fyrir rúmlega 40 árum og vilja þakka fyrir sig með því að afhenda skólanum málverkið Krossá. Við þökkum fyrir okkur sömuleiðis og munum finna málverkinu góðan stað í skólanum.

Heimsókn frá Den Rytmiske Højskole

Í hádeginu 1.mars fá nemendur MH heimsókn á Matgarð frá dönskum tónlistarskóla. Í bréfi frá skólanum stendur "The event will be a mix of music and information about the concept of the Danish Folk Highschool (højskolen) and Den Rytmiske Højskole". Með í för er "... Anna Hansen who is a musician and will play some songs. Anna has some Icelandic connections so she should speak Icelandic". Við tökum vel á móti dönsku gestunum á Matgarði í hádegishléinu.

Fræðslukvöld 27. febrúar kl. 20:00

Foreldraráð minnir á fræðslukvöldið miðvikudag 27.2. n.k. Dr. Erla Björnsdóttir mun fjalla um mikilvægi svefns fyrir líkamlega og andlega heilsu, dægursveiflu og áhrif hennar á frammistöðu, fara yfir algeng svefnvandamál hjá ungu fólki og gefa góð ráð sem stuðla að bættum nætursvefni. Hvaða áhrif hefur svefn á líkamlega og andlega vellíðan? Hversu mikið þurfum við að sofa og hver eru áhrif þess að sofa of lítið? Hvaða áhrif hefur svefn á frammistöðu okkar og árangur? Kaffiveitingar verða í boði og foreldraráðið vonast til að sjá sem flesta.

Minningarstund um Sigurbjörgu Einarsdóttur

Í morgun var haldin minningarstund um Sigurbjörgu Einarsdóttur íslenskukennara sem lést síðastliðinn föstudag. Við sendum samúðarkveðjur og hlýja strauma til fjölskyldu Sigurbjargar.

Ræðukeppni

Ræðukeppni English-Speaking Union á Íslandi fór fram í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 16. febrúar. Þrír nemendur kepptu fyrir hönd MH og stóðu sig frábærlega. Þeir voru Árni Dagur Andrésson, Jesus Emilio Zarate Eggertsson og Dagbjartur Kristjánsson. Dagbjartur náði sérlega góðum árangri og lenti í öðru sæti. Við erum ákaflega stolt af nemendum okkar og þökkum þeim fyrir þátttökuna í keppninni. The English Speaking Union's National Public Speaking Competition was held this weekend and MH had three participants: Árni Dagur Andrésson, Jesus Emilio Zarate Eggertsson and Dagbjartur Kristjánsson. They did very well and we are proud of all of them. Dagbjartur Kristjánsson came very close to winning and came in second place. Congratulations to all participants.