03.12.2018
Um helgina fór fram úrslitakeppni Mennta Maskínu sem er nýsköpunarhraðall framhaldsskólanema. Í þetta skiptið var áhersla sett á nýsköpun í velferðatækni. Teymi voru mynduð í framhaldskólunum sem unnu saman að því að finna tækifæri á sviði velferðartækni, fóru í gegnum hönnunarsprett þar sem lausnin þeirra var skoðuð frá öllum sjónarhornum og þróuðu að lokum frumgerð í Fab Lab Reykjavík. Í liði MH sem tók þátt voru Orri Starrason, Hekla Aradóttir, Fannar Þór Einarsson, Stefán Logi Baldursson og Þorsteinn Sturla Gunnarsson sem stóðu sig mjög vel en liðið sem vann kom frá Tækniskólanum. Lið MH naut leiðsagnar Jóns Ragnars Ragnarssonar hagfræðikennara.
26.11.2018
Þann 1. des nk. mun kór skólans taka þátt í tónleikum í Hörpu sem bera yfirskriftina „Íslendingasögur: Sinfónísk sagnaskemmtun“ sem er haldin í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins en það er ríkisstjórn Íslands sem býður þjóðinni til veislu sem verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst kl. 20:00. Það er sannarlega heiður fyrir kór skólans að vera þátttakandi í þessari tónlistarveislu sem stór hluti þjóðarinnar mun horfa á.
19.11.2018
Helga Jóhannsdóttir sem er settur konrektor í MH á haustönn hefur verið ráðin konrektor frá 1. janúar 2019.
Helga hefur víðtæka reynslu af kennslu, af námsefnis- og námskrárgerð í framhaldsskóla og hefur verið settur áfangastjóri 2017-2018. Helga útskrifaðist sem stúdent frá MH 1985 og hóf kennslu við MH 1993 að loknu háskólanámi.
19.11.2018
Stöðupróf í norsku/sænsku verða haldin laugardaginn 8. des. kl. 10:00. Próftakan kostar kr. 12.000-.
Próftakar þurfa að millifæra prófgjaldið inn á 0323-26-106, kt. 460269-3509, fyrir kl. 12:00 7. desember og mæta með kvittun fyrir millifærslunni í prófið, ásamt skilríkjum. Þegar millifærsla á sér stað, þá vinsamlega tilgreinið í skýringu kennitölu próftaka. Skráning fer fram í gegnum viðburðir sem er að finna hægra megin á heimasíðu skólans.
Óski próftaki eftir að þreyta próf í öðrum skóla en MH þá þarf viðkomandi að fá leyfi fyrir próftöku í eigin skóla.
16.11.2018
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð verður með tónleika í kvöld 16. nóvember kl. 21:00 í Fríkirkjunni í Reykjavík. Aðgangur er ókeypis.
16.11.2018
Í dag er dagur íslenskrar tungu. Við í MH munum halda hann hátíðlegan með uppákomu á sal. Hringt verður á sal klukkan 8:45 þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og íslenskufræðingur, mun heiðra okkur með nærveru sinni. Þar verður dagskrá undir stjórn íslenskudeildar MH.
Hafragrauturinn verður aðeins seinna á ferðinni en vanalega eða kl. 10:10
08.11.2018
Leikhússport keppnin Leiktu betur fór fram í Þjóðleikhúskjallaranum í gærkvöldi. Það er ánægjulegt að segja frá því að MH-ingarnir María Kristín Árnadóttir, Diljá Nanna Guðmundsdóttir, Hólmfríður Hafliðadóttir og Inga Steinunn Henningsdóttir lentu í 3. sæti í spunakeppni framhaldsskólanna. Til gamans má geta þess að þjálfari sigurliðs MA er MH-ingurinn Hákon Jóhannesson. Til hamingju með okkar flotta fólk.
05.11.2018
Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram 10 október síðastliðinn. Okkar nemendur stóðu sig með ágætum og eigum við alls 5 fulltrúa af þeim 46 sem boðið er til þátttöku í lokakeppninni sem fram fer í mars á næsta ári; 2 á neðra stigi og 3 á efra stigi. Það er sérlega ánægjulegt að segja frá því að Tómas Ingi Hrólfsson og Emil Fjóluson Thoroddsen urðu í 1.-3. og 7. sæti á efra stigi. Einnig hlutu Bragi Þorvaldsson, Flosi Tómas Lyons og Heimir Páll Ragnarsson viðurkenningar fyrir góðan árangur. Við óskum þeim öllum til hamingju og góðs gengis í mars.
26.10.2018
Dagana 7. til 21. október tóku MH-ingarnir Margrét Helga Snorradóttir og Sesselja Friðriksdóttir þátt í „Chinese Bridge“ sem er alþjóðleg keppni í kínversku fyrir framhaldsskólanemendur víðsvegar úr heiminum og fór fram í Kína. Að þessu sinni tóku 216 nemendur þátt frá 99 löndum en 6000 nemendur tóku þátt í undankeppninni. Þær Margrét Helga og Sesselja stóðu sig mjög vel og fengu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur og fá þær skólastyrk til að stunda nám í Kína í eina önn. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.