Fréttir

Loksins meiri flokkun á rusli

Í byrjun þessarar viku fjölguðum við ruslatunnum svo hægt væri að flokka m.a. plast og lífrænan úrgang. Búið er að setja tunnur fyrir plastúrgang inn á Matgarð, inn á Miðgarð og í Norðurkjallara. Tunnur fyrir lífrænan úrgang má finna inni á Matgarði og Miðgarði. Einnig verður eftir sem áður hægt að flokka pappír, dósir/plastflöskur og almennt rusl. Athugið að hreinsa matarleyfar eins vel og þið getið úr plastílátum áður en þau eru sett í þar til gerða tunnu. Verum dugleg að flokka þannig að skólinn sé til fyrirmyndar í umhverfismálum.

Sigur í smásagnasamkeppni

Melkorka Gunborg Briansdóttir sigraði í Smásagnakeppni félags enskukennara, annað árið í röð. Melkorka útskrifaðist frá MH núna um jólin. Við óskum henni til hamingju með árangurinn og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.

MH í MORFÍS

Þann 9. janúar keppti lið MH í MORFÍS á móti Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Eftir hörkukeppni sigraði lið MH með 108 stiga mun og er komið í aðra umferð. Lið MH skipa Ari Hallgrímsson, Elínborg Una Einarsdóttir, Grettir Valsson og Inga Steinunn Henningsdóttir. Þjálfarar eru Tumi Björnsson og Bjartmar Magnússon. Ari Hallgrímsson var jafnframt valinn ræðumaður kvöldsins. Við óskum liðinu til hamingju með sigurinn.

Lið MH áfram í aðra umferð Gettu betur

Lið MH keppti í vikunni í fyrstu umferð Gettu betur og var andstæðingurinn Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Leikar fóru þannig að lið MH sigraði með 26 stigum gegn 9 stigum Mosfellinga. Lið MH skipa í ár þau Gunnar Ólafsson, Jenný María Jóhannsdóttir og Tómas Ingi Hrólfsson. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn. MH keppir næst 15. janúar á móti Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefst viðureignin kl. 20:30 og er útvarpað á RÁS2.

Upphaf vorannar 2019 / Beginning of spring semester 2019

Skrifstofa skólans opnar 3. janúar kl. 10:00. Kennsla á vorönn 2019 hefst mánudagurinn 7. janúar samkvæmt stundatöflu. Kynningarfundur fyrir nýja nemendur verður haldinn föstudaginn 4. janúar kl. 13:00 í stofu 11 og er afar mikilvægt að nýir nemendur mæti á þann fund. Stundatöflur nemenda verða aðgengilegar í INNU fimmtudaginn 3. jan eftir kl. 16:00. Nemendur athugið að til þess að sjá heila viku af stundatöflu þarf að skoða vikuna 7.-13. janúar. The school´s main office will open on 3rd of January at 10:00AM First day of teaching on new year is 7th of January. An orientation for new students will be 4th of January at 1PM in classroom 11. It is very important for new students to attend the meeting. Student timetables will be accessable in INNA 3rd of January after 4PM.

Brautskráning haust 2018

Brautskráðir voru 130 nemendur frá skólanum af sex námsbrautum. Brautskráðir voru 25 af félagsfræðabraut, 1 af listdansbraut, 8 af málabraut, 25 af náttúrufræðibraut, 70 af opinni braut og 1 af tónlistarbraut. Stúlkur eru í drjúgum meirihluta, þ.e. eru 60% móti 40% pilta. Sex nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans, Melkorka Gunborg Briansdóttir, með einstakan árangur, þ.e. 9,91 í meðaleinkunn sem er önnur til fjórða hæsta einkunn í sögu skólans en hún lauk jafnframt 281 einingu. Melkorka hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í félagsgreinum, sögu og þýsku. Semidúx var Hugi Kjartansson sem útskrifast af opinni braut með áherslu á stærðfræði og íslensku með 9,30 í meðaleinkunn. Nemendur með ágætiseinkunn voru: Aróra Erika Luciano og hlaut viðurkenningur fyrir ágætan námsárangur í frönsku. Kjartan Skarphéðinsson og hlaut hann jafnframt raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík og viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í jarðfræði. Steinunn Björg Hauksdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn á stúdentsprófi. Tristan Ferrua Edwardsson og hlaut hann jafnframt viðurkenningu frá Stærðfræðingafélagi Íslands fyrir ágætan námsárangur í stærðfræði. Aðrir nemendur sem fengu viðurkenningu voru: Agata Jóhannsdóttir; jarðfræði Anna Soffía Grönholm; líffræði Davíð Örn Auðunsson; efnafræði Snorri Freyr Vignisson; danska Sóley Dúfa Leósdóttir; myndlist Valgerður Birna Jónsdóttir; íslenska Þorsteinn Sturla Gunnarsson; enska Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Kári Arnarsson og Melkorka Gunborg Briansdóttir. Við athöfnina frumfluttu nýstúdentar úr Kór Menntaskólans við Hamrahlíð tónverkið „Kulda“ eftir Iðunni Einarsdóttur sem útskrifaðist frá MH sl. vor.

Opnun skrifstofu yfir jólahátíðirnar

Þann 28. desember nk. er skrifstofa skólans opin 10:00-14:00. Skrifstofan verður opnuð 3. janúar á nýju ári kl. 10:00. Gleðilega hátíð og njótið jólanna með fjölskyldu og vinum.

Brautskráning föstudaginn 21. des. kl. 14:00

Brautskráning fer fram föstudaginn 21. desember kl. 14:00. Alls verða brautskráðir 130 nemendur af sex námsbrautum. Dagskráin verður fjölbreytt samkvæmt hefðinni og verður m.a. boðið upp á tónlistarflutning nemenda, nýstúdenta og kórs Menntaskólans við Hamrahlíð.

Staðfestingardagur / Course selection day

Þann 19. desember er staðfestingardagur. Einkunnir verða birtar eftir kl. 16:00 þriðjudaginn 18. desember. Dagskrá staðfestingardags er eftirfarandi: Viðtalstímar valkennara verða frá 10:00 - 11:00 Prófasýning verður frá 11:15 - 12:15. Nemendur eru hvattir til þess að nýta sér þetta tækifæri til þess að skoða prófin því eftir þennan tíma fara prófin í geymslu. Staðfestingu og nauðsynlegri lagfæringu á vali þarf að vera lokið kl. 14:00 og skila þarf inn P-umsóknum fyrir kl. 14:00. Hægt er að sækja um P á heimasíðunni. Athugið að ekki verður hægt að sækja um P-áfanga í janúar. Áfangar sem falla niður vor 2019: EÐLI4CV05, FÉLA3CS05, ÍSLE3CP05, HÚSS3BF05, ÍTAL2EE05, JAPA2DD05, LEIK3CS05, SAG3CU05, SPÆN2EF05, STÆR2BH05, STÆR3CQ05 RÚSS1AA05, RÚSS1BB05 Grades will be published in INNA Monday 19th of Dec. at 16.00. Timetable on course selection day Wednesday Dec. 19th: Teachers assisting with course selection will be available from 10:00 - 11:00. Viewing of exams is possible from 11:15 - 12:15. Students are encouraged to use this opportunity to view the exams. Confirmation or adjustment of the course selection for spring semester has to be completed by 2 o´clock.

Hátt hlutfall MH-inga með 10 í skólasóknareinkunn

Á haustönn 2018 voru 500 nemendur með 10 í skólasóknareinkunn eða 43% nemenda. Til að fá 10 í skólasóknareinkunn þurfa nemendur að vera með a.m.k. 95% skólasókn. Tæplega 800 nemendur voru með 90% skólasókn og er það mjög jákvæð niðurstaða og sýnir hversu einbeittir nemendur eru að mæta vel í skólann. Alls voru 45 nemendur með óaðfinnanlega skólasókn, þ.e. mættu 100% í alla tíma yfir önnina. Við óskum nemendum til hamingju með mjög góða skólasókn á haustönn.