Fréttir

Opið bréf til nemenda MH frá stjórnendum

Menntaskólinn við Hamrahlíð lítur kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi mjög alvarlegum augum. Stjórnendur, starfsfólk MH og allt skólasamfélagið stendur með þolendum ofbeldis og ef upp koma mál sem tengjast ofbeldi, af hvaða tagi sem er, viljum við taka á þeim. Þessi mál eru viðkvæm, við erum að læra og við viljum gera betur. Þá hörmum við að núverandi og fyrrverandi nemendur hafa upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni sem hafa komið upp og ekki var tekið á með viðunandi hætti. Við biðjumst innilegrar afsökunar á því. Við munum leggjast á eitt við að vinna vel úr þeim málum sem hafa verið tilkynnt til skólans og bregðast við í samræmi við áætlanir. Skólastjórnendur hafa tekið á móti tillögum nemenda um úrbætur og hvernig megi bæta ferlið þegar upp koma mál af ofangreindum toga. Eftir fund í dag með fulltrúum Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, var ákveðið að skólinn yrði einn af samstarfsaðilum þeirra í aðgerðum gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. SÍF er langt komið með áætlunina sem unnin er af þeirra sérfræðingum og við erum tilbúin í samstarf. Kæru nemendur við viljum jafnframt biðjast afsökunar á fyrstu viðbrögðum okkar á klósettunum á Matgarði. Kveðja Steinn, Helga og Pálmi

Geðlestin kom við í MH

Dagur íslenskrar náttúru

Í dag 16. september er Dagur íslenskrar náttúru. Við í MH byrjuðum daginn á því að hugleiða ýmislegt um náttúruna og umhverfi okkar, skoða myndir af náttúru landsins, flóru og fánu. Á Íslandi var byrjað að halda upp á Dag íslenskrar náttúru 16. sept. 2010 að tillögu Svandísar Svavarsdóttur þáverandi umhverfisráðherra. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar og stofnaður til heiðurs því mikla starfi sem Ómar hefur lagt til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og öllum þeim sem lagt hafa sitt af mörkum til fræðslu og verndar um íslenska náttúru. Síðan þá hefur 16. september verið haldinn hátíðlegur ár hvert og erum við í MH að taka þátt í því í dag. Áherslur okkar eru nærumhverfið okkar í MH og að flokka rusl sem frá okkur fellur á rétta staði. Flokkunartunnur eru á Miðgarði og Matgarði og vonum við að dagurinn í dag verði góður dagur til að flokka rétt.

Fyrsta gangan

Í MH eru í boði margar gerðir af líkamsræktaráföngum. Einn þeirra er fjallgönguáfangi þar sem nemendur kynnast hinum ýmsu gönguleiðum sem umhverfi borgarinnar hefur upp á að bjóða. Miðvikudaginn 7. september var lagt af stað í fyrstu göngu vetrarins og var förinni heitið í Búrfellsgjá. Hópurinn var einstaklega heppinn með veður og náttúran skartaði sínu fegursta.

Brunaæfing

Brunaæfing var haldin í MH síðasta miðvikudag. Brunakerfið fór í gang upp úr kl. 9 og þegar búið var að slökkva á því fór það strax aftur í gang og þá vitum við í MH að við eigum að rýma húsið eins hratt og við getum. Rýming tók 4 mínútur og 15 sekúndur og erum við nokkuð sátt við það. Eftir æfinguna var farið yfir ferlana og þeir endurbættir fyrir næstu æfingu eða ef raunverulega hættu ber að garði. Við vonum að svo verði ekki en ef svo verður þá erum við viðbúin. Rýmingaráætlun skólans má finna á heimasíðu skólans ásamt öðrum stefnum og áætlunum.

Norðurkjallari í góðum höndum

Norðurkjallari er félagsaðstaða nemenda í MH og þar er hægt að vera og hafa það notalegt í góðra vina hópi. Stjórn NFMH hverju sinni, hefur umsjón með Norðurkjallara og sér um að halda utanum alla starfsemi sem þar fer fram. Í dag skrifuðu Hrefna Tryggvadóttir forseti nemendafélagsins og Steinn rektor undir samning þess efnis. Nokkrir viðburðir hafa nú þegar litið dagsins ljós í Norðurkjallara tengdir nýnemaviku og kynningum á félagslífinu.

Kynningarfundur í kvöld 30. ágúst

Stjórnendur MH bjóða foreldrum og aðstandendum nýnema til kynningarfundar í skólanum í kvöld þriðjudaginn 30. ágúst kl. 17:30. Dagskrá fundarins er sýnileg hér fyrir neðan og eftir dagskrá á Miklagarði er öllum boðið að fara í kennslustofur með umsjónarkennurum MH-inganna og heyra meira um starfið í MH. Athugið að örlitlar breytingar hafa verið á stofum frá því póstur var sendur út í síðustu viku.

Hafragrauturinn

Fyrsti hafragrautur haustannar var framreiddur í MH í dag og vakti mikla gleði hjá öllum. Grauturinn er nú borinn fram í fyrsta skipti í margnota skálum. Með grautnum er hægt að fá ýmiskonar útálát eins og kanil, salt, mjólk eða soyamjólk. Grautinn eiga nemendur að borða á Matgarði eða Miðgarði og setja svo skálar á þar til gerða vagna eða borð við enda salanna eftir að þau hafa klárað grautinn.

Dagskrá nýnemaviku 22.-26. ágúst

Nemendafélag MH, NFMH, heldur úti þéttskipaðri dagskrá fyrir nýnema vikuna 22.-26. ágúst. Dagskráin er eftirfarandi: MÁNUDAGUR - 22. ÁGÚST: Hádegi: Kökusala og bollasala á Matgarði. Kvöld: LEYNIKVÖLD í Norðurkjallara. ÞRIÐJUDAGUR - 23. ÁGÚST: Hádegi: BUSARAVE í Undirheimum. MIÐVIKUDAGUR - 24. ÁGÚST: Hádegi: Karaoke á Matgarði. Kvöld: BUSADJAMM í Norðurkjallara. FIMMTUDAGUR - 25. ÁGÚST: Eftir skóla: Skotbolti í íþróttahúsinu. FÖSTUDAGUR - 26. ÁGÚST: BUSAFERÐ, mæting hjá rútum kl 12:30 og brottför kl 13:00. Athugið að um dagsferð er að ræða (ekki gisting). Nánari upplýsingar um nýnemaferðina voru sendar á nemendur og aðstandendur í dag.

Stöðumat

Stöðumat fyrir nemendur MH í ensku, frönsku, ítölsku, japönsku, spænsku og þýsku verður haldið fimmtudaginn 25.8. kl. 16.00. Skráning fer fram hjá Jóhönnu Guðrúnu Gunnarsdóttur, námstjóra erlendra tungumála jog@mh.is.