Íþróttakarl KR er MH-ingur

 
Í gær var tilkynnt um val á íþróttafólki ársins hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Skemmst er frá því að segja að íþróttakarl ársins var valinn taekwondo-maðurinn og MH nýneminn Guðmundur Flóki Sigurjónsson en það hefur ekki farið fram hjá lesendum MH síðunnar að hann hefur náð frábærum árangri að undanförnu.
Á árinu 2024 varð Guðmundur Flóki bikarmeistari, Íslandsmeistari, Norðurlandameistari og Evrópumeistari smáþjóða og fékk auk þess gull á Balkanbikarnum í Rúmeníu. Var hann þá kominn í 10. sæti evrópska styrkleikalistans í sínum flokki. Hann var valinn taekwondomaður ársins af taekwondodeild KR og efnilegasti keppandi ársins af Taekwondosambandi Íslands.
Á þessu ári hefur hann haldið áfram að gera góða hluti, vann Opna Slóveníumótið, byrjaði að keppa í fullorðinsflokki þrátt fyrir að vera líka gjaldgengur í unglingaflokki út þetta ár og hefur skrifað undir afrekssamning við taekwondodeild KR og Taekwondosamband Íslands um að vinna saman að þátttökurétti á Ólympíuleikunum 2028 í Los Angeles.
Auk þess að taka þátt í fjölda æfingabúða og erlendra móta þjálfar Guðmundur Flóki iðkendur í KR og stundar fullt nám við MH en það kemur kannski ekki á óvart að hann er á afreksíþróttalínu skólans.
Við óskum Guðmundi Flóka til hamingju með heiðurinn og hlökkum til að fylgjast með honum á komandi stórmótum ársins og óskum honum ásamt örðum MH-ingu góðs gengis í prófunum sem eru framundan.