Fréttir

Brautskráning 19. desember kl. 13:00

Brautskráning nemenda verður laugardaginn 19. desember kl. 13:00. Að þessu sinni útskrifast tæplega 120 nemendur af fjórum námsbrautum. Flestir útskrifast af opinni braut, þ.e. 80 nemendur. Vegna sérstakra aðstæðna er útskriftarnemendum dreift í 10 stofur og munu þeir ganga í hópum inn á Miklagarð þar sem þeir taka á móti skírteinum. Athöfninni er varpað á skjá í hverri stofu þar sem útskriftarefnin fylgjast með athöfninni.

Einkunnir og staðfesting á vali/Grades and Course selection day

Einkunnir verða birtar eftir kl. 16:00 í dag. Þá opnast einnig fyrir að nemendur geti staðfest valið sitt fyrir vorönn 2021. Staðfestingu þarf að vera lokið fyrir kl.14:00 á morgun miðvikudaginn 16 .desember. Nánir upplýsingar um prófsýningu og staðfestingu vals fyrir vorönn má finna hér. Greiðsluseðill fyrir greiðslu skólagjalda vorannar verður sendur út á morgun. Eindaginn er 28.12 2020 og eftir hann leggst á vanskilagjald kr. 1500.

Framtíðarsýn um geðheilbrigðismál

Á þingi heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum talaði Bóas Valdórsson sálfræðingur í MH um að við myndum aldrei láta einstakling bíða í eitt til eitt og hálft ár til að athuga hvort hann væri beinbrotinn. Bóas tiltók þar fimm atriði sem hann myndi vilja sjá verða að veruleika eftir tíu ár, árið 2030, varðandi þróun geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk. Þau eru: Sálfræðiþjónusta í alla framhaldsskóla, efling stoðþjónustu í framhaldsskólum, að fjárhagur verði ekki fyrirstaða fyrir ungt fólk sem þarf geðheilbrigðisþjónustu, aðgengi að greiningum á ADHD og námserfiðleikum yrði bætt og að uppfæra yrði þau sálfræðilegu mælitæki sem notuð eru hér á landi. Nánar má lesa um fyrirlesturinn á vef rúv.

Prófin hafin

Jólaprófin eru hafin og eru öll lokapróf rafræn heimapróf þessi jólin, nema fyrir IB nemendur. Fagkennarar, prófstjóri og náms- og starfsráðgjafar sitja saman í stofu 12 og fylgjast með þegar nemendur streyma í rafrænu prófin. Ef nemendur eru ekki mætt tímanlega þá er hringt í þau og þau hvött til að skella sér í próf. Við minnum á að veikindaskráningar fara fram í Innu og að senda prófstjóra póst ef eitthvað er ekki rétt í ykkar próftöflu. Gangi ykkur sem best í prófunum og við sendum hlýjar kveðjur héðan úr Hamrahlíðinni.

Próftafla nemenda / Examination timetable

Próftaflan er komin á vefinn og í Innu og þurfa nemendur að skoða hana vel. Kennarar munu gefa allar nánari upplýsingar þegar nær dregur. Bréf verður sent út til allra frá prófstjóra MH og náms- og starfsráðgjöfum um fyrirkomulag prófanna.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er dagur íslenskrar tungu og honum bera að fagna. Af því tilefni höfum við í gegnum árin gert okkur dagamun eins og með söngstund á sal og upplestri úr bókum eftir íslenska rithöfunda. Í ár má skoða framlag íslenskukennara rafrænt bæði hér og á facebook-síðu skólans. Til hamgju með daginn.

Kennsla í annarlok og lokapróf í MH

Kennsla næstu tvær vikur verður áfram með sama fyrirkomulagi og hefur verið þ.e. stafræn kennsla. Núverandi sóttvarnarreglur útiloka að hægt sé að taka á móti nemendum eins og við vorum að vona, þar sem blöndun milli hópa er ekki í samræmi við sóttvarnarreglur. Það þýðir að nemendur mega ekki hitta tvo mismunandi hópa innan hvers dags eða milli daga. Áfram verður samt hægt að taka á móti smærri hópum þar sem engin blöndun á sér stað, t.d. í IB þar sem er bekkjarkerfi og nemendur eru alltaf með sama hópnum. Einnig hefur verið ákveðið að lokapróf í desember verði rafræn og ekki í húsi, að undanskildum prófum í IB sem fara fram innan veggja MH. Þessi ákvörðun er tekin í samræmi við sóttvarnarreglur. Sjá nánar í bréfi sem sent var á alla nemendur í dag. Prófstjóri og náms- og starfsráðgjafar munu senda út leiðbeiningar varðandi lokaprófin og umgjörð þeirra.

MH-ingar í rafrænni stærðfræðikeppni

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema er árlegur viðburður og fór forkeppni hennar fram rafrænt 13. október síðastliðinn. Á neðra stigi kepptu þeir sem hófu nám við framhaldsskóla í haust, en aðrir kepptu á efra stigi. Þeim sem hafna efst í forkeppninni, 20 á neðra stigi og 25 á efra stigi, er boðið að taka þátt í úrslitakeppni Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema sem fer fram í mars. Á neðra stigi kepptu 32 nemendur og af þeim voru tveir úr MH og hafnaði Helga Valborg Guðmundsdóttir í 15. sæti. Á efra stigi kepptu 76 nemendur og af þeim voru 19 úr MH. Efstir voru: Oliver Sanchez í 5. sæti, Bragi Þorvaldsson í 12.-13. sæti, Hálfdán Ingi Gunnarsson í 15. sæti, Flosi Thomas Lyons í 20. – 22. sæti, Matthildur Dís Sigurjónsdóttir og Andrés Nói Arnarsson lentu í 23.-25. sæti. Óskum við þeim öllum til hamingju með árangurinn. Nánar má lesa um keppnina hér.

Skólastarf á tímum hertra sóttvarnarreglna

Nýlega voru gefnar út hertar sóttvarnarreglur og í ljósi þeirra verður kennsla áfram með sama hætti og síðustu vikur, þ.e. kennt gegnum rafrænt kennsluumhverfi skólans. Núverandi reglur gilda til og með 17. nóvember og komi til breytinga á kennslufyrirkomulagi þá verða upplýsingar settar á heimasíðuna, facebook og sendar á nemendur.

MH Fyrirmyndarstofnun

Í starfsmannakönnuninni Stofnun ársins varð MH í fimmta sæti á meðal ríkisstofnana með fleiri en 50 starfsmenn og hlýtur titilinn Fyrirmyndarstofnun. Meðaltal skólans var 4,33 sem er það sama og þær stofnanir sem lentu í þriðja og fjórða sæti en úrslitum réðu aukastafirnir. Í flokknum ánægja og stolt kom MH best út allra stórra stofnana með 4,66 í einkunn og einnig í flokknum sjálfstæði í starfi þar sem einkunnin var 4,63. Til hamingju MH.