Brautskráning Menntaskólans við Hamrahlíð 28. maí 2022

Mynd af semidúx (Lóa hægra megin) og dúx (Iðunn Björg) með rektor.
Mynd af semidúx (Lóa hægra megin) og dúx (Iðunn Björg) með rektor.

Brautskráðir voru 136 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sjö námsbrautum. Að þessu sinni útskrifuðust flestir af opinni braut eða 70 nemendur, 20 af náttúrufræðibraut, 16 af félagsfræðabraut, 8 af málabraut, 5 af listdansbraut, 1 af fjölnámsbraut og 14 af IB-braut (alþjóðlegt stúdentspróf).

Tíu nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Iðunn Björg Arnaldsdóttir nemandi á náttúrufræðibraut með framúrskarandi árangur, þ.e. 9,82. Iðunn Björg hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í líffræði og efnafræði auk þess að hljóta Menntaverðlaun Háskóla Íslands. Semidúx var Lóa Floríansdóttir Zink sem útskrifaðist af opinni braut með 9,61 í meðaleinkunn en hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku.

Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Kristín Taiwo Reynisdóttir og Pjetur Már Hjaltason. Fulltrúi 40 ára stúdenta, Ármann Höskuldsson prófessor, flutti ávarp fyrir þeirra hönd.

Kór skólans var í stóru hlutverki undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar og flutti nokkur verk auk þess sem aðrir nemendur og nýstúdentar fluttu tónlist.