24.10.2024
Það er haustfrí í MH og skrifstofa skólans er lokuð frá og með fimmtudeginum 24. október til og með mánudeginum 28. október. Við vonum að öll njóti þess að vera í fríi og komi úthvíld til baka til að klára síðustu vikur annarinnar. Próf hefjast 2. desember og ef nemendur þurfa að sækja um breytingu á próftöflu eða sérúrræði í prófum þarf að gera það fyrir 11. nóvember.
14.10.2024
Í dag er síðasti dagur til að setja inn val fyrir vorönn. Allar upplýsingar um valið má finna á heimasíðunni undir "Valvika".
07.10.2024
Í dag og næstu daga mun samfélagslögreglan vera í heimsókn í MH og heimsækja alla lífsleiknihópa nýnema. Lögreglan mun auk þess vera á rölti í frímínútum og ræða við aðra nemendur sem vilja heyra í þeim og ræða málin.
04.10.2024
Opnaðu hefur verið val nemenda fyrir næstu önn. Af því tilefni er valkynning á sal milli 10 og 13 í dag þar sem nemendur geta komið og skoðað og kynnt sér áfangaframboð næstu annar. Það er úr vöndu að ráða og hvetjum við nemendur til að koma og skoða og ræða við kennara og samnemendur um námið og hvað skal læra. Valinu lýkur mánudaginn 14. október.
27.09.2024
Fréttir hafa borist frá MH-ingunum sem eru á faraldsfæti í Frakklandi ásamt Sigríði Önnu frönskukennara. Þau taka þátt í Erasmus-verkefni og eru stödd í bænum Sainte-foy-la-Grande. Allt hefur gengið vel, þau hafa fengið góðar móttökur í skólanum og svo sýndi borgarstjórinn þeim ráðhúsið.
27.09.2024
Helgina 16. og 17. september fór Íslandsmótið í töfrateningum fram í MH þar sem útskrifaðir MH-ingar voru meðal mótshaldara. Alls kepptu 42 þátttakendur á mótinu en keppt var í 15 mismunandi greinum. Óskar Pétursson stóð uppi sem sigurvegari í hefðbundna 3x3 kubbnum en hann leysti kubbinn að meðaltali á 8,48 sekúndum. Ótrúleg leikni þarna á ferð.
26.09.2024
Á Miðgarði má finna friðar- og kærleiksregnboga þar sem nemendur skrifa friðar- og kærleiksorð á hinum ýmsu tungumálum. Þetta er gert í tilefni evrópska tungumáladagsins sem haldinn er í dag og er slagorð dagsins "Tungumál í þágu friðar". Í MH eru kennd 10 erlend tungumál þessa önnina og nemendur skólans eru af yfir 30 þjóðernum. Það verður fallegt að sjá orðin birtast smám saman á regnboganum yfir daginn og áskorun að læra nokkur ný og falleg orð.
25.09.2024
Nemendur í ÍSLE3CC05 lögðu upp í langferð í morgun og var stefnan tekin á Njáluslóðir. Gaman að fá gott ferðaveður og munu þau væntanlega njóta þess að vera úti og fræðast um gang sögunnar. Frést hefur af þeim við Gunnarsstein og vonum við að ferðin verði fróðleg og skemmtileg. Við eigum von á nemendum aftur heim um kl. 16.
24.09.2024
Vikuna 23.-30. september fer fram Íþróttavika Evrópu þar sem markmiðið er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi á meðal almennings. Í MH göngum við og hjólum í skólann auk þess að stunda ýmsa aðra hreyfingu. Við hvetjum nemendur og starfsfólk skólans til að taka þátt í íþróttavikunni og stunda hreyfingu til frambúðar.
ÍSÍ stendur fyrir verkefninu Göngum í skólann sem stendur til 2. október. Ennþá er hægt að skrá sig til leiks og nánari upplýsingar má finna hér.
Fjölbreyttir viðburðir eru í boði um allt höfuðborgarsvæðið alla vikuna og hvetjum við ykkur til að taka þátt. Nánari upplýsingar er að finna inn á viðburðasíðu BeActive.
10.09.2024
MH hefur nú skilað rafrænum skjölum til Þjóðskjalasafns í fyrsta sinn, úr skjalastjórnarkerfinu GoPro. Skjölin tilheyra tímabilinu 2018-2023 en rafrænum skjölum skal skila á fimm ára fresti. Skólinn hefur áfram aðgang að skjölunum í GoPro og þarf að geta afgreitt sjálfur allar beiðnir um afhendingu þeirra í 30 ár eftir að þau hafa verið afhent safninu.
Töluverð og kostnaðarsöm vinna hefur falist í að skila gögnum úr kerfinu en hún er unnin í samstarfi við Hugvit, rekstraraðila GoPro, og Þjóðskjalasafn. Hugvit umbreytir skjölunum á sérstakt form svo þau verði læsileg um alla framtíð og útbýr svokallaða vörsluútgáfu sem Þjóðskjalasafn fær til varðveislu. Það er fagnaðarefni að Þjóðskjalasafn hefur nú lokið prófunum og frágangi þessarar fyrstu vörsluútgáfu skjala MH.