Fréttir

Plokkað í blíðunni

Sunnudaginn 30. apríl verður stóri plokkdagurinn þar sem landsmenn gera sitt besta til að hreinsa til og plokka í sínu nánasta umhverfi. Við í MH tókum forskot á sæluna og plokkuðum í kringum MH í dag. Okkur finnst gaman að hafa umhverfið okkar hreint og fallegt.

MH-ingar í þýskuþraut og stuttmyndakeppni

Nokkrir nemendur frá MH tóku þátt í þýskuþraut og stuttmyndakeppni á vegum þýska sendiráðsins, þýskukennarafélagsins og Goethe Institut í Kaupmannahöfn. MH-ingarnir stóðu sig mjög vel og fengu nokkur verðlaun. Guðmundur Brynjar Þórarinsson varð í öðru sæti á getustigi 1 þar sem 130 keppendur tóku þátt og Einar Ernir Kjartansson varð í 4. sæti á getustigi 2 þar sem 30 keppendur tóku þátt. Einnig voru veitt verðlaun í stuttmyndakeppni þar sem þau Auður Líf Stangeland og Anja Huld Jóhannsdóttir fengu fyrstu verðlaun og Einar Ernir Kjartansson og Lilja Sól Helgadóttir önnur verðlaun. Til hamingju öll með þennan glæsilega árangur - sehr gut.

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Hvernig væri að skella sér í jógatíma í dag kl. 13:00 í íþróttahúsi MH í boði Indverska sendiráðsins? Þið eruð öll velkomin! Það þarf að skrá sig með því að skanna QR kóðann á myndinni.

Hæfileikar á fjölnámsbraut

Í gær 18. apríl tóku nokkrir nemendur á fjölnámsbraut MH þátt í hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna. Keppnin var haldin í Tækniskólanum og tóku 14 skólar þátt. Meðal dómara var Haffi Haff og tók hann einnig tvö söngatriði. Úrslitin urðu svo þau að MH sigraði - til hamingju MH. Snævar Örn Kristmannson lék á gítar og á meðan gekk glærusýning með myndlistaverkum eftir nokkra nemendur á brautinni. Miklir hæfileikar voru þarna á ferð og listamenn framtíðarinnar að stíga sín fyrstu skref.

Kynningar í MH á MH

Á morgun, þriðjudaginn 18. apríl, verður fyrsta kynning fyrir 10. bekkinga sem misstu af opnu húsi 22. mars. Þar munu starfs- og námsráðgjafar, auk nemenda úr skólanum, taka á móti forvitnum 10. bekkingum og sýna þeim skólann og segja frá því sem við höfum upp á að bjóða. Fullt er á kynninguna í dag, en önnur kynning verður mánudaginn 24. apríl. Hér er hægt að skrá sig á kynninguna 24. apríl. Hægt er að skoða kynningarefni um MH hér á heimasíðunni og skemmtilegt myndband sem sýnir húsnæðið í MH séð í gegnum Minecraft gleraugu.

Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna var 1. apríl þar sem tónlistarfólk úr framhaldsskólum landsins steig á stokk og sýndi ótrúlega sönghæfileika. Það er gaman að segja frá því að fyrir okkar hönd keppti Erla Hlín Guðmundsdóttir og landaði hún öðru sætinu í keppninni. Til hamingju með það. Við óskum einnig Fjölbrautarskólanum í Garðabæ til hamingju með sigurinn og Menntaskólanum í tónlist með þriðja sætið. Endilega skoðið upptöku af túlkun Erlu Hlínar á laginu Litli tónlistarmaðurinn.

Frábær árangur í úrslitum efnafræðikeppninnar 2023

Nýlega fóru fram úrslit í efnafræðikeppninni 2023 og átti MH tvo þátttakendur sem urðu í fjórum efstu sætunum. Jón Hilmir Haraldsson varð í öðru sæti og Jón Halldór Gunnarsson varð í fjórða sæti. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn en þess má geta að fjórum stigahæstu keppendunum er boðin þátttaka í íslenska landsliðinu og þeir sem þiggja sæti munu taka þátt í 55. Alþjóðlegu ólympíukeppninni (IChO) sem haldin verður í Zürich í Sviss 16.-25. júlí og í 6. Norrænu efnafræðikeppninni sem verður haldin í Danmörku dagana fyrir IChO.

Takk fyrir komuna

Takk öll sem kíktuð við hjá okkur á opnu húsi í gær. Það var mjög gaman að sjá svona marga og við nutum þess að sýna ykkur hvað MH hefur upp á bjóða. Takk fyrir að koma. Til að kynna sér skólann enn frekar þá eru upplýsingar hér á heimasíðunni undir hnappnum Kynning á MH.

Opið hús 22. mars

MH býður 10. bekkingum, foreldrum þeirra og aðstandendum, á opið hús miðvikudaginn 22. mars milli kl. 17:00 og 18:30. Kynningar á námsframboði skólans verða á Miklagarði, Miðgarði og í einstaka stofum. Kynningar á félagslífi skólans, ráðum og nefndum, verða á Matgarði og einnig munu nemendur skólans bjóða upp á leiðsögn um skólann. Bókasafnið verður opið og hægt að skoða aðstöðuna þar. Kórinn mun taka lagið og einnig verður boðið upp á kleinur í tilefni dagsins.

MH-ingar í Frönskukeppni framhaldsskólanna

Frönskukeppnin er haldin árlega af Félagi frönskukennara, Alliance Francaise og franska sendiráðinu fyrir nemendur í framhaldsskólum. Að þessu sinni unnu nemendur MH til fyrstu og þriðju verðlauna. Heiða Rachel Wilkins hlaut 1. verðlaun og Ollie Sánchez-Brunete og Kristjana Ellen Úlfarsdóttir hlutu 3. verðlaun og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn. Nemendurnir gerðu myndband um hvað Frakkland, franska og frönsk áhrif í heiminum táknuðu fyrir þau. Myndböndin þóttu mjög lifandi og skemmtileg og nemendur sýndu vel hvað þau eru hugmyndarík og góð í frönsku.