Fréttir

Leikhús í London

Í MH er kenndur leiklistaráfangi sem snýst um leikhús í London, með áherslu á Shakespeareleikhúsið. Í gærkvöldi fengu gestir og gangandi að upplifa Shakespeare okkar MH-inga í Norðurkjallara og leggja um leið sitt að mörkum til að styrkja nemendur til fararinnar til London. Upplifunin var sett fram á marga vegu og má geta sér þess til að Shakespeare sjálfur hefði ekki haft eins mikið hugmyndaflug í framsetningu eins og nemendurnir höfðu. Margar persónur úr verkum hans mættu á svæðið ásamt dætrum hans og honum sjálfum sem ungum MH-ingi. Í haust fer af stað ný braut í MH, Listmenntabraut og ef Villi Shjeik væri að koma úr 10. bekk þá myndi hann væntanlega velja þá braut. Góða ferð öll.
Lesa meira

Betri árangur í prófum

Áður en prófin hefjast hvetjum við ykkur til að fara vel yfir próftöfluna og skoða hvaða daga prófin ykkar eru og klukkan hvað þau byrja. Ef einhver á eftir að fá lausn á einhverju sem tengist próftöflunni þá er hægt að hafa samband við prófstjóra og/eða náms- og starfsráðgjafa. Á prófdaginn er gott að fá sér uppáhaldsmorgunmatinn og reyna að láta sér líða vel á meðan borðað er. Fleiri góð ráð eins og þessi má finna hér á heimasíðunni undir leiðbeiningar varðandi próf. 
Lesa meira

Plokkað í blíðunni

Sunnudaginn 30. apríl verður stóri plokkdagurinn þar sem landsmenn gera sitt besta til að hreinsa til og plokka í sínu nánasta umhverfi. Við í MH tókum forskot á sæluna og plokkuðum í kringum MH í dag. Okkur finnst gaman að hafa umhverfið okkar hreint og fallegt.
Lesa meira

MH-ingar í þýskuþraut og stuttmyndakeppni

Nokkrir nemendur frá MH tóku þátt í þýskuþraut og stuttmyndakeppni á vegum þýska sendiráðsins, þýskukennarafélagsins og Goethe Institut í Kaupmannahöfn. MH-ingarnir stóðu sig mjög vel og fengu nokkur verðlaun. Guðmundur Brynjar Þórarinsson varð í öðru sæti á getustigi 1 þar sem 130 keppendur tóku þátt og Einar Ernir Kjartansson varð í 4. sæti á getustigi 2 þar sem 30 keppendur tóku þátt. Einnig voru veitt verðlaun í stuttmyndakeppni þar sem þau Auður Líf Stangeland og Anja Huld Jóhannsdóttir fengu fyrstu verðlaun og Einar Ernir Kjartansson og Lilja Sól Helgadóttir önnur verðlaun. Til hamingju öll með þennan glæsilega árangur - sehr gut.
Lesa meira

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Hvernig væri að skella sér í jógatíma í dag kl. 13:00 í íþróttahúsi MH í boði Indverska sendiráðsins? Þið eruð öll velkomin! Það þarf að skrá sig með því að skanna QR kóðann á myndinni.
Lesa meira

Hæfileikar á fjölnámsbraut

Í gær 18. apríl tóku nokkrir nemendur á fjölnámsbraut MH þátt í hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna. Keppnin var haldin í Tækniskólanum og tóku 14 skólar þátt. Meðal dómara var Haffi Haff og tók hann einnig tvö söngatriði. Úrslitin urðu svo þau að MH sigraði - til hamingju MH. Snævar Örn Kristmannson lék á gítar og á meðan gekk glærusýning með myndlistaverkum eftir nokkra nemendur á brautinni. Miklir hæfileikar voru þarna á ferð og listamenn framtíðarinnar að stíga sín fyrstu skref.
Lesa meira

Kynningar í MH á MH

Á morgun, þriðjudaginn 18. apríl, verður fyrsta kynning fyrir 10. bekkinga sem misstu af opnu húsi 22. mars. Þar munu starfs- og námsráðgjafar, auk nemenda úr skólanum, taka á móti forvitnum 10. bekkingum og sýna þeim skólann og segja frá því sem við höfum upp á að bjóða. Fullt er á kynninguna í dag, en önnur kynning verður mánudaginn 24. apríl. Hér er hægt að skrá sig á kynninguna 24. apríl. Hægt er að skoða kynningarefni um MH hér á heimasíðunni og skemmtilegt myndband sem sýnir húsnæðið í MH séð í gegnum Minecraft gleraugu.
Lesa meira

Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna var 1. apríl þar sem tónlistarfólk úr framhaldsskólum landsins steig á stokk og sýndi ótrúlega sönghæfileika. Það er gaman að segja frá því að fyrir okkar hönd keppti Erla Hlín Guðmundsdóttir og landaði hún öðru sætinu í keppninni. Til hamingju með það. Við óskum einnig Fjölbrautarskólanum í Garðabæ til hamingju með sigurinn og Menntaskólanum í tónlist með þriðja sætið. Endilega skoðið upptöku af túlkun Erlu Hlínar á laginu Litli tónlistarmaðurinn.
Lesa meira

Frábær árangur í úrslitum efnafræðikeppninnar 2023

Nýlega fóru fram úrslit í efnafræðikeppninni 2023 og átti MH tvo þátttakendur sem urðu í fjórum efstu sætunum. Jón Hilmir Haraldsson varð í öðru sæti og Jón Halldór Gunnarsson varð í fjórða sæti. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn en þess má geta að fjórum stigahæstu keppendunum er boðin þátttaka í íslenska landsliðinu og þeir sem þiggja sæti munu taka þátt í 55. Alþjóðlegu ólympíukeppninni (IChO) sem haldin verður í Zürich í Sviss 16.-25. júlí og í 6. Norrænu efnafræðikeppninni sem verður haldin í Danmörku dagana fyrir IChO.
Lesa meira

Páskafrí

Páskafrí hefst eftir daginn í dag og stendur til og með 11. apríl. Skrifstofan verður lokuð og opnar ekki aftur fyrr en kl. 8:30 miðvikudaginn 12. apríl. Við hvetjum ykkur til að njóta páskanna eins og hægt er og safna orku fyrir síðustu vikurnar sem eftir eru af önninni. Við vonumst til að sjá ykkur öll hress eftir páska, gleðilega páska. ____ The Easter holiday starts after today and lasts until April the 11th. The office will be closed and will not reopen until 8:30 on Wednesday, April the 12th. We encourage you to enjoy Easter as much as possible and gather energy for the last weeks of the semester. We hope to see you all refreshed after Easter, Happy Easter.
Lesa meira