Náms- og starfsráðgjöf

Þjónusta fyrir nemendur:

Allir nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð hafa aðgang að þjónustu náms- og starfsráðgjafa. Þeir hafa aðsetur á Iðavelli sem er á 1. hæð skólans. Við skólann starfa þrír náms- og starfsráðgjafar:

Fríður Reynisdóttir,     fridur@mh.is

Sigríður Birna Bragadóttir,     sbb@mh.is 

Gunnhildur Gunnarsdóttir,     gug@mh.is

Starfssvið náms- og starfsráðgjafa

Náms- og starfsráðgjöf er persónuleg leiðsögn við nemendur og fer fram í trúnaði. Nemendur geta leitað til náms- og starfsráðgjafa af margvíslegum ástæðum og einnig geta kennarar vísað nemendum til náms- og starfsráðgjafa. Náms- og starfsráðgjafar veita nemendum m.a. aðstoð við skipuleggja nám sitt.
 
Náms- og starfsráðgjafar veita viðtöl eftir samkomulagi, eru með símatíma virka daga og eru á fyrstu hæð skólans í gömlu byggingunni, á Iðavöllum. 
 

NÁMSTÆKNI OG SKIPULAGNING TÍMA

Náms- og starfsráðgjafar aðstoða nemendur við að skipuleggja og halda utan nám sitt.

Lykilþættir sem stuðla að góðum námsárangri:

  • tímaáætlanir
  • gott skipulag
  • markviss vinnubrögð
  • góð ástundun 

NEMENDUR MEÐ SÉRTÆKA NÁMSÖRÐUGLEIKA

Nemendur sem hafa fengið greiningu um námsörðugleika hjá sérkennara, sálfræðingi eða lækni þegar þeir byrja í skólanum eiga að koma í viðtal til náms- og starfsráðgjafa sem fyrst. Allir nemendur skólans fá hálftíma lengri tíma í annarprófum og þeir sem eru með greiningar geta sótt um að taka próf í sérstofu. Þeir sem eru lesblindir geta óskað eftir að prófin séu lesin inn á MP3spilara og/eða að þau séu sett á lituð blöð.

Nemendur þurfa að sækja um þessa sérþjónustu. Umsóknarfrestur er auglýstur á skólaskjánum hverju sinni.

VEIKINDI

Nemendur sem eiga við langtímaveikindi að stríða, sem hamla þeim við nám og/eða mætingar, eiga að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa. Þeir meta með hvaða móti skólinn getur komið til móts við nemendur svo að viðkomandi geti stundað námið og falli ekki á mætingu sökum veikinda.

PERSÓNULEGIR ERFIÐLEIKAR 

Erfiðar aðstæður nemenda, skilnaður foreldra, vandamál í einkalífi, þungun, kvíði s.s. prófkvíði, þunglyndi, lítið sjálfstraust, vinaleysi, einelti, ofbeldi, vímuefnanotkun o.fl. geta haft mjög slæm áhrif á gengi í námi. 

Nemendur eru hvattir til að leita aðstoðar ef slíkt kemur upp og náms-og starfsráðgjafar vinna í samstarfi við sálfræðing og hjúkrunarfræðing skólans að lausn mála. 

UPPLÝSINGAR

Náms- og starfsráðgjafar veita upplýsingar um nám og námsleiðir í Menntaskólanum við Hamrahlíð og öðrum skólum. Á þetta m.a. við aðra framhaldsskóla, sérskóla og háskóla. Jafnframt er veitt aðstoð við að afla upplýsinga um nám erlendis.

RÁÐGJÖF VEGNA VALS Á NÁMI OG STARFI

Margir nemendur eru tvístígandi og vita ekki hvaða nám hentar þeim eða hvernig nám og störf tengjast. Því þurfa þeir stundum á ráðgjöf að halda. Áhugasvið nemenda skiptir miklu varðandi náms- og starfsval og geta nemendur tekið áhugasviðsprófið Bendil hjá náms- og starfsráðgjöfum. Með því að taka slíkt próf er hægt að kanna skipulega ýmsa möguleika á náms- og starfsvali með hliðsjón af áhugasviði.

FORVARNIR

Fríður Reynisdóttir er forvarnafulltrúi skólans og tengiliður hans við forerldraráð MH. Forvarnafulltrúi og félagsmálakennarar eru á öllum skólaböllum. Á þeim er nemendum boðið að blása í áfengismæli og þeir sem gera það fara í svokallaðan edrúpott en úr honum eru dregnir út vinningar eftir ballið.

Ef foreldrar hafa áhyggjur af unglingnum sínum er þeim velkomið að hafa samband við Fríði.

Gagnlegar upplýsingar:  

 

Síðast uppfært: 29. mars 2019