Fréttir

Sokkur EHF

Nemendur í frumkvöðlafræði komust í úrslit í MEMA nýsköpunarhraðlinum 2023 með verkefnið Sokkur EHF. Hugmyndin gengur út á að hreinsa plast og annað rusl úr ám og lækjum áður en það rennur út í sjó. Í keppninni áttu nemendur að vinna með 14. Heimsmarkmiðið "Líf í vatni". Til hamingju með árangurinn MH-ingar.

Jafnréttisfræðsla í MH

Jafnréttisfræðsla var fyrirferðarmikil hjá okkur í nóvember. Karen jafnréttisráðgjafi heimsótti nýnemana okkar í lífsleikni og fór yfir kynheilbrigðismál með þeim, samþykki og mörk. Hún var einnig með jafnréttisfræðslu fyrir útskriftarefnin og ræddi þar um forréttindi og mismunun innan kynjakerfisins. Þetta var svo toppað þegar nýnemahóparnir og útskriftarefnin sameinuðust á Miklagarði en þar var baráttukonan Þórdís Elva Þorvaldsdóttir komin til þess að fræða hópana um stafrænt samþykki.

Síðasta kennsluvikan runnin upp

Það kemur alltaf jafnmikið á óvart þegar síðasta kennsluvika rennur upp í allri sinni dýrð. Þessa viku nota nemendur og kennarar til að klára efnið, spyrja spurninga og líta yfir farinn veg. Á föstudaginn er síðasti kennsludagur og í kennslustund kl. 11:40 verður skemmtun á sal, þar sem útskriftarefni haustannar fá tækifæri til að kveðja okkur hin sem eftir verðum. Engin kennsla verður því í þeirri kennslustund.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag, 16. nóvember, er dagur íslenskrar tungu og verður ýmislegt í gangi í MH í dag. Lopapeysa flestra MH-inga fékk að koma með í skólann í dag og er gaman að sjá hversu margar útfærslur eru til af þessari íslensku peysu. Í hádeginu verða tónleikar á sal þar sem kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hreiðar Ingi Þorsteinsson kórstjóri og Jónas Hallgrímsson munu leiða saman hesta sína. Í kvöld verða svo tónleikar þar sem kórinn okkar og kór Menntaskólans að Laugarvatni munu skemmta okkur með fallegum söng. Tónleikarnir byrja kl. 20:30 og er aðgangur ókeypis. Til hamingju með daginn.

Öryggismyndavélar

Í og við MH eru 13 öryggismyndavélar. Þær eru staðsettar við innganga, á göngum skólans og á Matgarði. Lóð skólans er einnig vöktuð á völdum stöðum. Sérstakar merkingar eru við innganga skólans, sem og við innkeyrslur inn á bílastæðin, til að þeir sem eiga leið um viti af tilvist myndavélanna.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í MH

Þeir nemendur sem hafa hug á að sækja um skólavist í MH fyrir næstu önn geta gert það núna. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í gegnum Menntagátt.

Sérúrræði í prófum

Nemendur í MH eiga kost á sérúrræðum í prófum skv. pósti frá náms- og starfsráðgjöfum sem sendur var út í morgun. Sérúrræði fela meðal annars í sér að fá prófið prentað á litaðan pappír eða að þreyta prófið í sérstofu. Þeir nemendur sem telja sig þurfa á sérúrræðum að halda þurfa að sækja um það hjá náms- og starfsráðgjöfum, í síðasta lagi 15. nóvember.

Kvennaverkfall 24. október

Þriðjudaginn 24. október má gera ráð fyrir röskun á skólahaldi vegna kvennaverkfalla í samfélaginu. Menntaskólinn við Hamrahlíð styður mótmælin gegn vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Við hvetjum jafnframt starfsfólk og nemendur af öllum kynjum til að taka þátt í samstöðufundinum klukkan 14.00 þennan dag eða sýna samstöðu á annan hátt.

Próftafla haustannar 2023

Próftafla haustannar 2023 er tilbúin og er sýnileg á Innu nemenda og á hér á heimasíðunni. Prófin byrja mánudaginn 4. desember og standa yfir í 2 vikur. Ef nemendur eru í tveimur prófum á sama tíma eða í tveimum prófum á sama degi, geta þau sótt um tilhliðrun. Allar upplýsingar um það eru í tölvupósti sem nemendur fengu í gær.

Haustfrí í MH

Haustfrí verður í MH föstudaginn 13. október og mánudaginn 16. október. Skólinn verður lokaður báða dagana og þar með skrifstofan líka. Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 17. október. Við óskum öllum góðs haustfrís.