Kvennaverkfall 24. október

Þriðjudaginn 24. október má gera ráð fyrir röskun á skólahaldi vegna kvennaverkfalla í samfélaginu. Menntaskólinn við Hamrahlíð styður mótmælin gegn vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Við hvetjum jafnframt starfsfólk og nemendur af öllum kynjum til að taka þátt í samstöðufundinum klukkan 14.00 þennan dag eða sýna samstöðu á annan hátt.

Í bréfi til nemenda segir rektor: "Ég bið ykkur nemendur að fylgjast vel með tilkynningum frá kennurum í INNU og vera viðbúin því að einhverjar kennslustundir falli niður. Ennfremur beini ég því til ykkar að koma með nesti þennan dag þar sem Sómalía verður lokuð og hafragrautur verður ekki í boði. Stúlkur, stálp og kvár sem taka þátt í verkfallinu fá ekki fjarvistir þennan dag og mun skrifstofan sjá um að setja leyfið inn." Hér má lesa bréfið í heild sinni og einnig á ensku.